kvalafullur dauðadagi í niðamyrkri í iðrum jarðar

Um 1870 var farið að flytja lifandi búfénað í umtalsverðu magni til sölu í Bretlandi. Þúsundir hrossa voru flutt þangað árlega og hélst það fram yfir 1920. Hestarnir voru aðallega notaðir til vinnu í breskum námum. Íslenskir hestar þóttu henta vel til að vinna í námunum, þeir voru bæði litlir og sterkir og þoldu vel harðræðið í námunum.

Notkun hesta til vinnu í námum hófst fyrir alvöru í breskum námum í kjölfar iðnbyltingarinnar og aukinnar eftirspurnar eftir kolum. Hestarnir voru notaðir til að draga kolavagna eftir mjóum námuvinnslugöngum 400 til 1500 metra leið að lyftum þar sem kolin voru hífð upp á yfirborðið. Hrossin voru látin vinna í 10-12 tíma á sólarhring og drógu 50-70 tonn á dag. Í byrjun voru hrossin flutt upp á yfirborð námanna við lok vinnudags, en þegar námurnar stækkuðu fóru hrossin aldrei upp á yfirborðið nema þegar þau urðu alvarlega veik.

Námuhross áttu afar dapra ævi, einn þriðji þeirra missti amk annað augað og tíu prósent misstu bæði augun. 90% áttu við alvarlega augnsjúkdóma að stríða, gláku, ýmisskonar bólgur og sýkingar. Þau voru oftast alsett sárum sem orsökuðust af hvössu grjóti sem þau rákust í og núnings frá reiðtygjunum. Nær öll námuhross voru lungnaveik, bæði vegna mikillrar mengunar og hitasveiflna í námugöngunum. Í kolaríkum jarðlögum í námunum fór hitinn oft yfir 30 stig, en við lyfturnar þar sem kolavagnarnir voru affermdir, streymdi oft ískalt vetrarloftið niður.

Hrossin voru flest alvarlega gigtveik af því að þurfa stöðugt að vera í hálfköldu vatni og raka í námugöngunum. Hrossin urðu oftast óvinnufær á innan við fimm árum, skelfilegum fimm árum. Blind, gigtveik, alsett sárum og með ónýt lungu. Íslensku hestarnir luku oftast starfsævi sinni hjá slátrara, sem hakkaði þau í dýrafóður.

Ég rakst á frásögn manns að nafni Aðalsteinn Kristjánsson, hann gerðist sjálfboðaliði í her Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Haustið 1918 var hann á gangi eftir einni af götum Chatamborgar á suður-Englandi. Sá hann þá gamlan mann koma keyrandi með föggur sínar á hestvagni eftir strætinu. Hafði gamli maðurinn jarpskjóttan hest fyrir kerrunni. Aðalsteini varð ærið starsýnt á förumann þennan, sérstaklega þó á hestinn, það var eitthvað óvanalegt í sambandi við þessa ferðafélaga sem dró að sér athygli Aðalsteins. Það var ekki um að villast, Aðalsteinn var þarna augliti til auglitis við Íslending í nauðum staddan. Hesturinn sem dró kerruna minnti Aðalstein á hest, Sokka litla, sem hann hafði þekkt á Íslandi þegar hann var lítill drengur. Aðalsteini fannst undir eins að þeir væru gamlir kunningjar, gamlir vinir eða uppeldisbræður. “Sokki” var magur og þreytulegur, og orðinn gráhærður.

Aðalsteinn skoðaði hestinn nákvæmlega. Eigandinn sagði hestinn vera tólf til fjórtán vetra gamlan. Hann bætti því við að Sokki væri blindur, hann hafði misst sjónina í námunum eins og svo margir aðrir hestar. Jarpsokki litli hafði verið seldur frá Íslandi til Englands, þar sem hann hafði verið sendur til að vinna í kolanámum, þar hafði hann verið kviksettur, verið lifandi lík, árum saman. Úr námunum slapp Sokki litli ekki fyrr en hann var orðinn blindur og útslitinn. Aðalsteinn einsetti sér að kaupa Sokka litla til að geta a.m.k. bundið enda á þjáningar hans, en ítrekuð leit bar engan árangur.

Margir íslenskir bændur högnuðust vel á því að rækta og flytja út hross til vinnu í breskum námum. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort Íslendingar sem seldu hross til Bretlands, hafi gert sér grein fyrir því hvaða örlög biðu hestanna? Ætli þeir hafi gert sér grein fyrir því að hestanna biði ekkert nema hægfara og afar kvalafullur dauðdagi í niðamyrkri í iðrum jarðar?


Heimildir:
Aðalsteinn Kristjánsson: Svipleiftur samtíðarmanna. Winnipeg 1927.