Árás stórveldis á fátæka eyðimerkurþjóð Við höfum öll heyrt frasann um að sagan endurtaki sig sífellt, að hún gangi í hring. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það en oft má finna atburði í fortíðinni sem minna á nútíðina. Í ljósi atburða síðustu vikna ákvað ég að skrifa stutta frásögn um innrás Ítala í Eþíópíu árið 1935.

Skömmu eftir valdatöku fasista á Ítalíu árið 1922 fór draumur Mússólínís um að Ítalía yrði stórveldi að taka á sig mynd. Á þessum tíma var Eþíópía ásamt Líberíu, eina sjálfstæða ríkið í Afríku. Ef Ítalir hugðust á annað borð auka við nýlenduveldi sitt áttu þeir því naumast annars úrkosti en að leggja landið undir sig. Eþíópía lá líka vel við höggi þar sem Ítalir áttu fyrir tvær nýlendur, Eritreu og Sómalíu, sem áttu landamæri að Eþíópíu.

Eþíópía var lítt þekkt og fornfálegt keisaradæmi. Keisarinn, Haile Selassie, réð í raun ekki yfir nema hluta landsins, bróðurpartinum var stjórnað af lénsherrum og ættbálkahöfðingjum sem áttu í tíðum illdeilum. Hluti íbúa Eþíópíu var kristinn frá fornu fari. Landið hafði tekið kristni á fjórðu öld. Nokkur hluti íbúanna aðhylltist íslam. Landið var mjög hálent og helstu atvinnuvegirnir voru kornrækt á láglendi og kvikfjárrækt á hásléttum.

Ítalir höfðu lengi ágirnst landið, enda fundust þar hráefni og góð lífsskilyrði fyrir evrópska innflytjendur, en fyrsta tilraun þeirra til að vinna landið árið 1896 hafði mistekist hrapalega. Við svo búið var Mússólíni ákveðinn að leggja landið undir sig með hervaldi. Í desember 1934 stofnaði hann til skæra á landamærum ítölsku Sómalíu og Eþíópíu og notaði það síðan sem átyllu fyrir kröfum sínum til að fá yfirráð yfir Eþíópíu. Önnur ástæða sem Ítalir töldu réttlæta innrás, var að þeir héldu því fram að Eþíópíumenn væru að vígbúast og ætluðu sér að ráðast á grannlöndin.

Á ráðstefnu í Róm tók Mússólíní loforð af Laval forsætisráðherra Frakka, að þeir myndu ekki hindra Ítali í áformum þeirra um yfirráð yfir Eþíópíu. Hins vegar voru Bretar algjörlega andsnúnir fyrirætlunum Ítala, þeir sáu hagsmunum sínum ógnað með því að ef Ítalir eignuðust víðáttumikil landssvæði í austur-Afríku, gætu þeir ógnað Egyptalandi og Súezsvæðinu. Af þessum sökum studdu þeir kæru Eþíópíukeisara á þingi þjóðabandalagsins. Breska ríkisstjórnin lét síðan halda mikla flotaæfingu á miðjarðarhafi til þess að skjóta Ítölum skelk í bringu. En ítalska fasistastjórnin hafði verið svo herská í yfirlýsingum, að hún þóttist ekki geta hætt við áform sín. Ítalir réðust síðan á Eþíópíu þriðja október 1935.

Eþíópíumenn kölluðu strax saman æðsta ráð þjóðabandalagsins sem lagði það til að Ítalir yrðu beittir refsiaðgerðum. Í Bretlandi var almenningur fylgjandi efnahagslegum þvingunum gegn Ítölum, en Bretar vildu þó ekki hætta á styrjöld út af Eþíópíu. Í Frakklandi skiptust menn í tvo flokka, íhaldsmenn og þjóðernissinnar vildu forðast deilur við Ítali, en vinstri menn kröfðust þess að alþjóðalög væru haldin. Þjóðabandalagið kom því til leiðar að viðskiptabann var sett á Ítalíu að undanskilinni olíu. Þessar ráðstafanir bökuðu Ítölum engin teljandi óþægindi. Þeir héldu herförinni ótrauðir áfram og flugvélar þeirra og skriðdrekar tryggðu þeim mikla yfirburði yfir fornfálegum her Eþíópíu. Fjölmiðlar á Ítalíu voru fullir af fréttum af glæstum sigrum sinna manna og almenningur þar fylltist þjóðastolti. Nú komust þessir villimenn að því hverjar afleiðingar það hafði að ögra ítalska heimsveldinu.

Rétt áður en styrjöldin hófst hafði Haile Selassie keisari dregið allt sitt lið frá landamærunum í þeirri veiku von að komast hjá öllum atvikum sem Ítalir gætu kallað ögranir. Frá upphafi var ljóst að Eþíópíumenn gátu ekki sigrað í styrjöld gegn vélbúnum andstæðingi. Til varnar gegn flugvélum, skriðdrekum og stórskotaliði Ítala höfðu þeir aðeins mannafla, að mestu óþjálfaðan og vopnaðan frumstæðum vopnum. Herkvaðingarskipun Eþíópíukeisara segir allt sem segja þarf um her Eþíópíu: “Hér með eru allir menn og drengir sem eru nógu gamlir til að halda á spjóti kvaddir til herþjónustu og sendir til Addis Ababa [höfuðborg Eþíópíu]. Kvæntir menn skulu taka með sér konur sínar til að bera matvæli og elda. Þeir sem eru ókvæntir skulu taka einhverja ógifta konu með sér. Konur sem eiga ung börn eiga ekki að fara.”

Eþíópíumenn þurftu að búa við linnulausar sprengjuárásir úr lofti án þess að geta á nokkurn hátt varist þeim. Ítalir notuðu sinnepsgas í nokkrum mæli í styrjöldinni. Því var ýmist varpað úr flugvélum eða dreifðt um jörðina með öðrum hætti. Ítölsku flugmönnunum þótti lofrárásirnar vera spennandi “íþrótt”. Vittorio, 19 ára gamall sonur Mússólínís “barðist” með flughernum. Í frásögn sem hann kallaði “Flogið yfir fjöllin í Eþíópíu”, lýsir hann fjálglega áhrifum sprengju sem hann varpaði úr flugvél sinni: “Ég varpaði sprengju á miðjan hóp riddara og þegar hún sprakk var það eins og rós að springa út”.

Þann níunda maí 1935 innlimuðu Ítalir Eþíópíu inn í “heimsveldi” sitt. Nokkrum vikum síðar lét svo þjóðabandalagið hinar máttlitlu refsiaðgerðir niður falla.

Haile Selassie keisari hélt í júní sama ár ræðu á fundi þjóðabandalagsins þar sem hann flutti mál sitt gegn Ítölum. Hann sagði m.a. að í Eþíópíustríðinu hefði siðgæði í samskiptum þjóða verið í húfi, traust allra þjóða á hvers konar samningum og mat þjóða, einkum smáþjóða á gildi loforða um að tilvera þeirra og sjálfstæði yrði virt og tryggt.

“Í þetta sinn vorum það við”, sagði hann. “Næst kemur röðin að ykkur.”

Ítalir drápu um 700.000 Eþíópíumenn í stríðinu en misstu sjálfir 5211 hermenn. Þúsundir Eþíópíumanna voru síðan teknar af lífi eftir valdatöku Ítala. T.d. voru yfir 3.000 Eþíópíumenn teknir af lífi eða skotnir af færi í uppþotum í Addis Ababa, dagana 19. – 21. febrúar 1937.

Ítalir gjörsigruðu þarna fátæka og vopnlitla eyðimerkurþjóð. Það væri kannski nær að segja að þeir hafi slátrað henni. Nokkrum árum seinna, á austurvígstöðvunum mættu ítölsku hersveitirnar raunverulegum andstæðingum, vel þjálfuðum og vel vopnum búnum her Sovétríkjanna. Þá má segja að hlutverk Ítala í leik kattarins að músinni hafi snúist við. Ítalir gjörtöpuðu öllum sínum bardögum við sovéska herinn sem nú var í hlutverki kattarins.


(Hér er ræða Eþíópíukeisara í heild sinni á ensku: http://www.mtholyoke.edu/acad/intrel/selassie.htm)

h ttp://history.acusd.edu/gen/text/selassie.html
http:// users.erols.com/mwhite28/warstat3.htm