Jón Sigurðsson fæddist 17. júní 1811 að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur og Þórdís Jónsdóttir. Jón átti tvö yngri systkini, Jens og Margréti. Jón lærði að vinna almenna vinnu og fjölskylda hans var iðjusöm. Faðir Jóns kenndi honum heima en tæplega 18 ára að aldri, árið 1829, fór hann til Reykjavíkur og lauk stúdentsprófi hjá séra Gunnlaugi Oddssyni.
Eftir stúdentspróf stundaði Jón verslunarstörf hjá föðurbróður sínum, Einari Jónssyni faktor. Þar kynntist hann Ingibjörgu, dóttur Einars. Þau felldu hugi saman og trúlofuðu sig. Ingibjörg var sjö árum eldri en Jón. Árið 1830 gerðist hann skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi og var hjá honum í vist í 3 ár. Steingrímur átti mikið af bókum sem Jón hafði aðgang að. Þar óx áhugi hans á íslenskum fræðum og talið er að þessi dvöl hafi haft mikil áhrif á líf hans.
Árið 1833 sigldi Jón til Kaupmannahafnar og lærði málfræði og sögu. Hann lauk aldrei embættisprófi, sennilega vegna þess að hann fór að hafa æ meiri áhuga á ritstörfum og þó sérstaklega íslenskum stjórnmálum. Í Kaupmannahöfn hlóðust á hann aukastörfin og hann var mjög eftirsóttur vegna hæfileika sinna. Orð fór af Jóni í Kaupmannahöfn sem hirðumanni miklum og nákvæmum um fjármál. Menn leituðu oft til hans þegar þeir voru í peningavandræðum til að fá ráð um hvernig ætti að afla sér fjár en hann var manna bestur í því.
Eftir tveggja ára dvöl í Kaupmannahöfn fór Jón að starfa hjá Árnasafni og starfaði þar nærri því alla tíð síðan, en hann varð með tímanum helsti sérfræðingur í íslensku handritunum á 19. öld. Jón var ekkert að flýta sér heim frá Kaupmannahöfn heldur var hann þar í 12 ár, frá 1833 til 1845, við nám og störf. Allan þennan tíma beið Ingibjörg, unnusta hans, heima og vissi ekkert af honum.
Árið 1841 gaf Jón ásamt félögum sínum út ársritið Ný félagsrit og kom þetta blað út allt til ársins 1873. Í blaðinu skrifaði hann um fjárhagsmál, verslunarmál og skólamál. Útgáfan var mjög erfið og mætti misjöfnum skilningi heima á Íslandi. Margir töldu þetta vera uppreisnarblað. Upplagið af því fékk Jón að geyma uppi á háalofti í dönsku konungshöllinni.
Jón hefði getað öðlast mikla frægð af sagnfræðistörfum sínum einum en hann var mjög duglegur að afla upplýsinga frá heimildum. Skýringar hans í Íslensku fornbréfasafni og ritgerðir í Safni til sögu Íslands eru taldar merkastar af ritstörfum hans.
Við heimkomu vorið 1845 var Jón kosinn á fyrsta þing eftir endurreisn Alþingis og hélt því sæti til dauðadags. Hann var aðal maðurinn í öllum störfum Alþingis og var kosinn forseti þingsins 10 sinnum. Enginn hefur gegnt þeirri stöðu jafnlengi. Það haust voru hann og Ingibjörg gefin saman í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þá var Jón 34 ára og Ingibjörg 41 árs. Ingibjörg flutti með honum til Kaupmannahafnar og bjuggu þau lengst af, frá haustinu 1852 til dauðadags 1879, í leiguhúsnæði að Östervoldgade 8 á þriðju hæð. Jón og Ingibjörg eignuðust aldrei börn en tóku systurson Jóns, Sigurð, í fóstur og ólu hann upp.
Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848. Þá barðist Jón fyrir sjálfstæði Íslands og var forystumaður í þeirri baráttu. Hann hamraði á því að Íslendingar fengju að ráða sér sjálfir.
5. júlí árið 1851 boðaði danska stjórnin til þjóðfundar í sal Latínuskólans. Hún las upp frumvarp þar sem þjóðarréttindi Íslendinga voru höfð að engu. Frumvarp Íslendinga, sem Jón stóð aðallega fyrir, leist fulltrúa konungs ekkert á og sleit fundinum. Það var á Þjóðfundinum sem Jón tók endanlega forystu fyrir Íslendingum í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði.
Jóni fannst að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis og að einokunarverslunin væri alls ekki góð fyrir þjóðina. Íslendingar ættu að eiga fastan fulltrúa í Kaupmannahöfn, sem skyldi þar annast verslunarhagsmuni þeirra. Þessi barátta gegn einokunarverslun leiddi til þess að verslun við Ísland var gerð öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.
Upp úr 1857 sýktist sauðfé landsmanna af fjárkláða. Flestir landsmenn vildu beita niðurskurði til að laga þetta en Jón var sannfærður um að hægt væri að lækna þetta. Hann gerðist erindreki dönsku stjórnarinnar, ásamt yfirdýralækni Dana, Tscherning. Ekki var mikið um lækningar í landinu þá en í ljós kom að Jón hafði rétt fyrir sér. Meðan á þessu stóð sneru margir fylgismenn Jóns við honum baki, en þegar ljóst var að hann hefði rétt fyrir sér náðu flestir sáttum.
Jón Sigurðsson er oft nefndur Jón forseti. Skýringin á þessu viðurnefni er sú að vorið 1851 var hann kosinn forseti Hafnardeildar bókmenntafélagsins. Hann gegndi því starfi til æviloka. Jón rak viðskiptaskrifstofu fyrir Íslendinga á eigin kostnað og þeir komu til hans með margvísleg mál. Hann greiddi úr vandamálum þeirra með mestu ánægju og stundum hefur hann verið kallaður ólaunaður sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.
Árið 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, kom sendinefnd Dana til Íslands og afhenti Íslendingum sérstaka stjórnarskrá. Með þessari stjórnarskrá fékk Alþingi löggjafarvald með konungi og fjárforræði. Stjórnarskráin markar þáttaskil í íslenskri sjálfstæðisbaráttu þótt að baráttan væri langt frá því að vera til lykta leidd við þetta. Eftir þessi þáttaskil varð Íslendingum ljóst hversu mikið og gott starf Jón Sigurðsson hefði unnið fyrir þjóðina. Honum var þó ekki boðið þegar Danakonungur heimsótti Ísland á þjóðhátíðina á Þingvöllum. Hann sat bara heima hjá sér.
7. desember 1879 lést Jón í Kaupmannahöfn og Ingibjörg 9 dögum seinna. Lík þeirra voru flutt til Íslands og hvíla nú í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Á silfursveig sem sett var á kistu Jóns, stóð: ,,Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur."


Heimildir


http://www.hrafnseyri.i s/foring_i.html

Einar Laxness, 1979, Jón Sigurðsson forseti, Reykjavík, Prentsmiðjan Hólar.

Heimir Þorleifsson, 1973, Frá einveldi til lýðveldis, Reykjavík, Prentsmiðjan ODDI.