Byltingin á Kúbu og 26.júlí hreyfingin Inngangur
Sagan hefur verið dugleg við að láta mannkyninu í té hetjur, komandi kynslóðum til að læra af. Menn og konur sem trúa nógu mikið á réttlætið til að skapa betri heim fyrir þá sem á eftir koma. Þetta fólk er tilbúið að breyta sögunni og leggja til þess allt í sölurnar.
Undir lok 6.áratugs síðustu aldar myndaðist hópur slíks fólks á Kúbu, miðlungsstórri eyju í Karíbahafinu, hópur sem trúði á réttmæti barráttu sinnar og var sannfært um að leiðtogi þess, Fidel Castro, myndi leiða það til sigurs. Víst má deila um hvort málstaðurinn var verðugur eða hvort Castro og fylgismenn hans voru hetjur í þeirri merkingu sem nútímamaðurinn leggur í orðið, nú 40 árum síðar. En hitt verður hins vegar varla véfengt að baráttan var háð í nafni réttlætis og frelsis, hvað svo sem síðar varð.
Castro og fylgismenn hans efndu til byltingar til að steypa Fulgencio Batista af stóli, einræðisherra sem hafði alið á spillingu og kúgun í fjölda ára, og hafði beitt þjóð sína fádæma harðræði. Byltingarmönnunum tókst ætlunarverk sitt, að frelsa Kúbu undan oki Batista, en hvernig þeim tókst það hefur löngum verið ráðgáta, og hefur þótt undrunarefni að fámennur, illa búinn og lítt þjálfaður hópur skæruliða tókst að koma frá völdum voldugum einræðisherra sem hafði á bak við sig heilan her og auk þess flesta auðmenn landsins.
Hér verður rakin í grófum dráttum atburðarás byltingarinnar og einnig grafist lítillega fyrir um orsakir hennar. Skoðaðar verða helstu ástæður þess að byltingarmenn báru sigur úr bítum og hvernig þeir báru sig að.
Byltingin á Kúbu var í raun heimsögulegt fyrirbæri, og ef til vill sú best heppnaða í sögunni, því að enn þann dag í daga sitja leiðtogar hennar við völd. Ærin ástæða er því til að velta því fyrir sér hvernig þetta allt saman gerðist.

Af hverju bylting?
Það væri synd að segja að Kúba undir stjórn Batista hafi verið mikið sæluríki, nema þá einna helst fyrir ferðamenn og efnafólk. Almenningur hafði það ekki eins gott. Batista stjórnaði með harðri hendi í skjóli hersins og fátækt var mikil, einkum í sveitunum þar sem bændur höfðu vanist því að afurðir þeirra væru teknar af þeim þá og þegar án greiðslu. Gripdeildir og spilling voru daglegt brauð fylgismanna Batista. Ferðamenn og aðrir útlendingar, einkum Bandaríkjamenn gengu um Havana,
höfuðborgina, eins og hún væri þeirra eigin en allur auðurinn sem þeim fylgdi skiptist á nokkrar útvaldar hendur. Spilavíti og vændishús voru á hverju strái og til Kúbu sópuðust landflótta glæpamenn sem ekki áttu í önnur hús að venda. Kúba var paradís ríka útlendingsins og skemmtanafíkilsins og ekki leið á löngu áður farið var að kalla Havana ,,hóruhús Karíbahafsins“. Breski rithöfundurinn Graham Greene lýsti Havana svo í bók sinni Our man in Havana sem út kom árið 1958;

,, …Er nær dró var Havana lokkandi, spennandi borg, uppfull af spilavítum, næturklúbbum og hóruhúsum. …Í daga Batista kunni ég vel við að maður gat orðið sér út um hvað sem maður girntist, hvort sem það voru eiturlyf, konur eða geitur.“

Ekki var óalgengt að fólk hyrfi af götunum af minnsta tilefni og fyndist seinna sem liðið lík á sveitavegunum í nágrenni borgarinnar. Fangelsi voru uppfull og var fólk læst inni við slæman aðbúnað. Í klefa 21, sem hýsti pólitíska fanga í El Principe fangelsinu, gömlum spænskum kastala, var á tímabili troðið 300 manns. Klefinn var 60 sinnum 30 fet, hafði að geyma 76 svefnbekki og eitt klósett. Fangarnir komu úr ýmsum áttum og höfðu unnið sér ýmislegt til saka. Sumir voru róttækir byltingarmenn en aðrir höfðu lítið gert af sér, eins og Julio Fernández Leon, ungur maður um tvítugt sem sat 8 mánuði inni fyrir að beygja nagla og fleygja þeim fyrir bifreiðar hersins. Stúdentar sem voru álitnir óeirðaseggir var stungið inn og dæmi voru um að unglingum ekki eldri en fimmtán ára væri stungið inn í klefa 21 fyrir það eitt að bera merki byltingarmanna.
Það var því ljóst að mikil ólga var farin að láta á sér kræla í kúbönsku þjóðfélagi á þessum tíma, og stjórnvöld voru sífellt á varðbergi gagnvart samsærum og uppþotum. Enginn var óhultur en fleiri og fleiri tóku þó áhættunna og gengu til liðs við 26.júlí hreyfingu Castro eða aðrar hreyfingar og samtök sem vildu koma Batista frá.


26.júlí hreyfingin
Fidel Castro er enginn venjulegur maður. Hann fæddist árið 1926 á búgarði föður síns í Oriente héraði á Kúbu. Faðir hans, Angel Castro, var spænskur innflytjandi, auðmaður, sem eignaðist Fidel með ráðskonu sinni sem hann giftist síðar meir.
Fidel var snemma mikið efni, afburðarnámsmaður og framúrskarandi íþróttamaður. Strax á unga aldri sýndi hann mikla leiðtogahæfileika og var í forrystu hvar sem hann fór. Hann gekk í Háskóla Kúbu í Havana þar sem hann lagði stund á lögfræði en það var stúdentapólitíkin sem ávallt átti hug hans allan. Þar komst hann fljótlega í fremstu röð líkt og annars staðar.
Þegar Batista framdi valdarán árið 1952, þar sem hann hirti völdin af Carlos Prio, lýðræðislega kjörnum forseta Kúbu, voru ekki margir sem þorðu að láta í sér heyra. Nema Fidel Castro. Meðan aðrir valda –og stjórnmálamenn lögðu á ráðin um samsæri sem ávallt runnu út í sandinn, skipulagði Castro og fáeinir fylgismenn hans árás á Moncada herstöðina í Santiago de Cuba, næststærstu borg landsins. Árásin var fífldjörf en Fidel taldi sér einkum tvennt í vil. Þeir myndu koma hermönnunum að óvörum, enginn myndi búast við árás á þessum slóðum. Annað atriði, ekki síður mikilvægt var það að árásin átti að fara fram að morgni 26.júlí, daginn eftir mikil hátíðarhöld, og bjóst Fidel við að hermennirnir yrðu lítt bardagafærir vegna timburmanna. Árásin á Moncada herstöðinna í Santiago de Cuba fór fram að morgni 26.júlí 1953 og mistókst algjörlega. Þeir sem ekki voru teknir til fanga eða létu lífið í árásinni voru hundeltir og skotnir á flótta. Fidel var einn af þeim sem voru handteknir og var hann sendur í fangelsi á Pine-eyju undan vesturströnd Kúbu. Þar eyddi hann næstu tveimur árum þangað til honum og öðrum pólitískum föngum í fangelsinu var sleppt í tilraun Batista til að bæta ímynd sína.
Þó svo að árásin á Moncada hafi mislukkast gjörsamlega eru margir sem telja hana marka upphaf Kúbönsku byltingarinnar, og byltingarher Castro var upp frá því kenndur við árásardaginn. 26.júlí hreyfingin var komin til sögunnar.

Byltingin
Jafn skjótt og Castro var laus úr fangelsinu hélt hann til Mexíkó þar sem hann hélt áfram að ráðgera byltingu. Í Mexíkó byrjaði 26.júlí hreyfingin fyrst að taka á sig almennilega mynd og þar varð til kjarni þeirra manna sem áttu eftir að leiða byltingunna til sigurs. Castro var óumdeildur leiðtogi, næstir honum komu svo Raul yngri bróðir hans og Ernesto ,,Che“ Guevara. Guevara var ungur argentískur læknir sem Castro bræðurnir kynntust í Mexíkó og fundu strax að þeir áttu samleið með, svo vel að Fidel bauð Che að ganga til liðs við hreyfinguna þegar í fyrsta skipti er fundum þeirra bar saman. Che þáði boðið samstundis.
Aðrir liðsmenn voru félagar Castro frá Kúbu auk fjölda brottfluttra kúbumanna sem litu á fjarvist sína frá föðurlandinu sem útlegð. Í Mexíkó fengu hermennirnir tilvonandi grunnþjálfun í hernaði, sem þó var ekki upp á marga fiska, flestir þeirra höfðu litla sem enga reynslu af vopnaburði og erfitt var að undirbúa þá undir þau átök sem þeir áttu eftir að lenda í. Jafnvel Castro og hans nánustu samstarfsmenn voru ekki vissir um hvað beið þeirra.
Í nóvember árið 1956 ákvað Fidel að nú gætu þeir ekki beðið lengur, þeir væru tilbúnir. 25. þess mánaðar létu 82 byltingarmenn úr höfn frá Tuxpan í Mexíkó. Farkosturinn var ekki merkilegur, gamall dallur að nafni Granma. Eftir vikuferð, þar sem verulega var farið að ganga á matarforða og leiðangursmenn orðnir allslappir af volkinu, náðu þeir loks landi. Þann 2.desember 1956 gekk 82 manna byltingarher Castro á land á strönd Colorodas í Oriente héraði á austasta hluta Kúbu. Adam var þó ekki lengi í Paradís því stjórnarherinn hafði á einhvern hátt fengið veður af þeim og um hádegisbil þann 5.desember var gerð árás á byltingarmennina, sem voru algjörlega óviðbúnir og örmagna eftir sjóferðina. Uppreisnarmennirnir biðu algjört afhroð og gátu sér enga björg veitt, og voru allir nema 18 þeirra drepnir eða teknir til fanga. Sá hópur sem undan komst tvístraðist og náði ekki saman fyrr en mánuði seinna. Che Guavara lýsti árásinni svo:

,,Ég og félagi Montané hölluðum okkur upp að tré og snæddum fátæklegan matarskammt okkar – hálfa pylsu og tvær tvíbökur – þegar riffilskot rauf kyrrðina. Strax á eftir dundi kúlnaregn eða svo virtist okkur í þessari fyrstu eldskírn – á áttíu og tveggja manna sveit okkar. …Ég fann fyrir snöggu höggi á brjóstið og þóttist viss um að þetta hefði riðið mér að fullu. …Ég minntist sögu eftir Jack London af manni sem veit að hans bíður það eitt að frjósa í hel í auðnum Alaska og hallar sér með rósemi upp að tré og býst til að deyja með sæmd. Þetta var það eina sem mér kom í hug á þessarri stundu. Einhver…sagði að okkur hefði verið nær að gefast upp, og ég heyrði rödd…,,Nei, hér gefst enginn upp!“…Ég man ekki ljóst hvað síðan gerðist; beiskleiki ósigursins greip mig og ég var viss um að ég myndi deyja. …Við vorum hungraðir og þyrstir, og mývargurinn jók á vesöld okkar. Þetta var eldskírn okkar. …“

Byltingin hófst því ekki gæfulega fyrir Castro og menn hans. En þeir voru þó tiltölulega fljótir að ná áttum aftur og ekki leið á löngu þar til byltingarherinn var búinn að koma sér vel fyrir í Sierra Maestra fjöllunum á austur Kúbu. Fjöldi manns gekk fljótlega til liðs við hreyfinguna, einkum kúgaðir bændur, verkalýður og hinir og þessir sem töldu sig eiga sitthvað sökótt við Batistastjórnina. Ekki leið á löngu þar til fjöldinn var orðinn nógur til að hægt væri að skipta honum niður í herdeildir, sem í voru á bilinu 20-150 manns til að byrja með, en stækkuðu eftir því sem á leið. Herdeildirnar skiptu sér niður á svæði og voru mjög sjálfstæðar, en höfðu jafnframt með ýmsum hætti mikil og góð samskipti sín á milli.
Byltingarherinn hélt sig mikið til upp í fjöllunum í tvö ár, þar fengu þeir góðan tíma til að skipuleggja sig þar sem stjórnaherinn lét þá að mestu í friði. Þeir urðu fljótt gríðarlega skipulagðir og lögðu símalínur víða um fjöllinn til að herdeildirnar gætu haft beint samband sín á milli. Í kringum hverja herdeild varð til lítið þorp, og sem dæmi má nefna að hjá herdeild 1, sem var undir stjórn Castro og jafnframt sú stærsta og mikilvægasta, mátti finna rakarstofu, skósmið og litla sígarettuverksmiðju. Byltingarmenn hófu fljótlega útgáfu dagblaðsins El Cubano Libre, og reyndist það skætt áróðursvopn í baráttunni gegn stjórnvöldum. El Cubano Libre er gefið út enn þann dag í dag.
Castro var fljótur að átta sig á mikilvægi þess að ná til fólksins, og láta það vita fyrir hvað barrátta hans og manna hans stæði fyrir. Í þeim tilgangi var Radio Rebelde stofnað þann 23.febrúar 1958. Radio Rebelde, byltingarútvarpið, var til að byrja með smátt í sniðum en óx jafn og þétt og ekki leið á löngu þangað til það náðist um alla Kúbu. ,,Rödd byltingarinnar“ hafði langsamlega stærsta hlustendahóp allra stöðva í Karíbahafinu.
Annað gríðarlega mikilvægt atriði sem Castro var mjög fljótur að átta sig á var það að ná til bændanna. Bændur landsins höfðu um áratugaraðir vanist því að stjórnvöld færu illa með þá, tækju af þeim afurðir og land og nýttu það í eigin þágu. Byltingarmenn breyttu algjörlega öfugt, allar þær vörur sem teknar voru frá bændum voru greiddar fullu verði, og oft hærra heldur en raunvirði þeirra kannski var. Vegna þess hversu vel þeir komu fram við bændurna fengu þeir oftar en ekki stuðning þeirra og hjálp þegar hennar var þurfi, til dæmis ef að einhverjum vantaði felustað eða var í nauðum staddur með matarforða.

Eins og áður hefur komið fram eyddu Castro og fylgismenn hans fyrstu tveim árunum nánast eingöngu upp í fjöllunum við skipulagningu og þjálfun. Þeir réðust á smáar herdeildir og herstöðvar stjórnarinnar og náðu smátt og smátt að leggja undir sig æ fleiri bæi og litlar borgir. Þetta var skæruhernaður í hnotskurn þar sem var sótt hratt fram og óvininum komið að óvörum. Stjórnvöld gerðu fáar alvarlegar tilraunir til að reyna að uppræta byltingarherinn, og sú eina sem eitthvað kvað að var gerð þann 28.maí 1958. 17 alvopnaðar herdeildir voru gerðar út, takmarkið var að uppræta búðir Castro og Radio Rebelde. Í herdeild Castro voru aðeins 300 manns, og í fyrstu leit út fyrir að Batista tækist ætlunarverk sitt. Skæruliðarnir urðu að stöðva framsókn sína og hörfa en það stóð ekki lengi. Þökk sé þéttriðnu samskiptaneti þeirra og ýmsum gagnlegum upplýsingum bændanna var byltingarherinn alltaf skrefi á undan og í lok júní náðu þeir að snúa vörn í sókn og gengu algjörlega frá 11.herdeild stjórnarhersins. Það var nóg að draga allan baráttuhug úr óvininum og hann snéri aftur.

Castro ákvað að láta kné fylgja kviði og í september gátu hlustendur Radio Rebelde heyrt greint frá því að byltingarherinn hefði hafið sókn. Sex herdeildir undir stjórn Che Guevara og Camillo Cienfuegos, einunum nánasta samstarfsmanni Fidel, voru gerðar út af örkinni og sendar inn á miðja eyjunna. Markmiðið var að ná sem flestum bæjum og öðlast stjórn á mikilvægum samskiptaleiðum. Árangurinn var ótrúlegur, hver sigurinn rak annan og Fidelistarnir virtust óstöðvandi. Hver borgin féll af annarri og er komið var fram í desember virtist fall Batista óumflýjanlegt. Herdeild Fidel hafði lagt undir sig austurhluta eyjarinnar og umkringt Santiago de Cuba, næststærstu borg landsins. Che Guevara undirbjó áhlaup á vígstöðvar hersins í Santa Clara, þriðju stærstu borg Kúbu, sem er staðsett um miðjavegu eyjarinnar, og skæruliðarnir höfðu náð stjórn á stærstum hluta vegakerfis landsins. Við bættist að hermenn stjórnarinnar voru ragir til berjast. Sumir þeirra studdu í reynd byltingunna, aðrir voru ekki tilbúnnir að leggja lífið í sölurnar til að hindra hana en flestum óaði við tilhugsunina um að þurfa að berjast gegn sínum eigin löndum. Einnig var það orðin alkunna að byltingarherinn kom einstaklega vel fram við fanga sína og skilaði þeim ósködduðum í hendur Rauða Krossins, það virkaði hreinlega sem hvatnig á hermenn stjórnarinnar til að gefast upp.

31.desember fór lokaorrustan fram. Che Guevara og táningarnir hans, eins og farið var að kalla herdeild hans vegna ungs aldurs liðsmanna, réðust inn í Santa Clara. Ef hann myndi vinna sigur þar var ljóst að fokið væri í öll skjól fyrir Batista því þá var aðeins Havana eftir. Orrustan um Santa Clara reyndist harðasti bardagi borgarastyrjaldarinnar og lengi vel var tvísýnt um úrslit hennar. En eftir því sem leið á nóttina var sýnt hver færi með sigur af hólmi og þegar nýársdagur rann var borgin komin undir stjórn 26.júlí hreyfingarinnar.

Ekki var þó byrjun nýársins svo gleðileg hjá öllum byltingarmönnunum því að á sama tíma og Che stóð í ströngu í Santa Clara reyndu félagar hans austast á eyjunni með öllum ráðum að komast að því hvernig honum vegnaði. Útsendingar Radio Rebelde höfðu raskast og þær fáu útvarpsstöðvar aðrar sem náðust gáfu sín hverja útgáfu af gangi mála. Útvarp Venezúela sagði að lið Castro væri enn í sókn, útvarp Moskva setti borgir undir stjórn skæruliðanna sem ekki hafði einu sinni verið ráðist á og útvarp Dallas tilkynnti glaðlega að árásin á Santa Clara merkti endalok byltingarsinna.
Liðsmenn 26.júlí hreyfingarinnar biðu því á milli vonar og ótta, var draumurinn búinn eða var barráttann unnin? Um morguninn fékkst það þó staðfest er þeir gátu stillt inn á Key West AM útvarpsstöðinna sem hafði flutt nokkuð hreinar og beinar fréttir af byltinginu fram að þessu. Che hafði unnið, og það sem meira var, Batista var flúinn land, og hafði sett hershöfðingja að nafni Cantillo yfir stjórn landsins.

Fidel Castro var þó ekki allshugar glaður er hann heyrði fréttirnar. Það sem hann hafði óttast mest hafði nú gerst, að Batista myndi flýja land áður en menn hans næðu til Havana, og ný stjórn myndi setjast að valdastóli og taka heiðurinn af byltingunni. Hann vissi að úrslit byltingarinnar myndu ráðast í Havana á næstu dögum. Stærstur hluti liðs hans var staðsetttur tæpa 1000 kílómetra frá borginni. Ef að ný stjórn yrði mynduð undir forrystu gömlu valdaelítunnar væri öll barráttan til einskis. Hann hafði þó enn tvö sterk tromp á hendi, hann hafði á að skipa her sem var tilbúinn að drepa og láta lífið fyrir málstaðinn, og hann hafði enn Radio Rebelde og gat því talað beint til þjóðarinnar. Hann hélt því rakleiðis að næsta útvarpsendi byltingarútvarpsins og biðlaði til kúbönsku þjóðarinnar. Sú ræða sem hann hélt á nýársdag 1959 vilja margir meina að sé mikilvægasta ræða sem Fidel Castro hefur haldið. Allir landsmenn hlustuðu þegar hann hvatti stuðningsmenn byltingarinnar til að berjast þangað til að fullnaðarsigur væri unninn. Nú þegar þeir væru svo nærri sigrinum mætti ekki slaka á. Sigur byltingarinnar væri það eina rétta.

Þrumuraust byltingarforingjans hafði tilætluð áhrif. Þjóðin sameinaðist að baki hans. 2.janúar 1959 var Kúba komin undir stjórn 26.júlí hreyfingarinnar og Fidel Castro var óumdeildur leiðtogi landsins. Hann kom til Havana þann 8.janúar eftir hvíldarlaust vikuferðalag frá hinum enda eyjarinnar. Þúsundir manna tóku á móti honum. Frelsið virtist loksins hafa ratað til hinnar þjökuðu eyju.

Á bak við tjöldin
Þó svo að mestur hluti byltingarinnar hafi farið fram á vígvellinum og þar hafi stærstu fórnirnar verið færðar, bjó þó meira að baki. 26.júlí hreyfingin átti sér öfluga stuðningsmenn, fólk sem vann hörðum höndum fyrir byltingunna og lagði lífið að veði á degi hverjum. Þetta fólk kom úr ótrúlegustu áttum og hafði jafnvel sambönd allt upp í forsetahöllina. Framlög þess voru misjöfn, sumir lögðu hreyfingunni til fé, aðrir fluttu fyrir þá birgðir og vopn og enn aðrir njósnuðu og reyndu að grafast fyrir um fyrirætlannir stjórnarinnar.
Á erlendri grundu leyndust einnig bæði óvinir og bandamenn. Brottfluttir Kúbumenn studdu margir hverjir byltingunna og stærstur hluti íbúa Suður-Ameríku var þeirra bandi. Í Bandaríkjunum var aðra sögu að segja og þar börðust stjórnvöld gegn Castro sem mest þau máttu, en þegar upp var staðið höfðu þau ekki erindi sem erfiði og byltingin sigraði. Hlutur Bandaríkjanna var stór og hefði eflaust orðið enn stærri ef þar á bæ hefði verið haldið öðruvísi á málum. Sú saga verður þó ekki sögð hér.



Lokaorð
Á Kúbu gerðist hið ótrúlega. Byltingarher sem í upphafi hafði aðeins á að skipa 18 léttvopnuðum mönnum vann sigur á einræðisherra sem sér til stuðnings hafði atvinnuher og á bak við sig voldugasta ríki heims.
Ljóst er að það sem öðru fremur skóp sigurinn var ótrúlegt skiplag og gríðarlegir leiðtogahæfileikar forrystumanna 26.júlí hreyfingarinnar. Það sem endanlega hefur þó ráðið úrslitum var baráttuhugur byltingarmannanna og þrautseigja. Þeir börðust fyrir frelsi sínu og þjóðar sinnar. Og sigruðu.
Rúm 40 ár eru nú liðin frá Byltingunni á Kúbu og sagan hefur ekki verið Fidel Castro hliðholl, einkum ekki frá sjónarhóli vesturlandabúa. Hvort Kúba hafi náð að blómstra undir stjórn hans má deila um en hitt er aftur á móti óumdeilanlegt að honum tókst ætlunarverk sitt, að koma á pólitískum stöðugleika í heimalandi sínu.
Hver svo sem eftirleikurinn varð er erfitt að mæla því mót að liðsmenn 26.júlí hreyfingarinnar hafi verið hetjur sem börðust með hugmyndinna um frelsi að leiðarljósi. Sumir létu meira segja ekki staðar numið við sigur á Kúbu heldur héldu áfram að boða út fagnaðarerindið, Che Guevara var handtekinn og tekinn af lífi við byltingartilraun í Bólivíu árið 1967.
Hugsjónin var til staðar sem og viljinn til að gera hana að veruleika, byltingarmennirnir 18 trúðu nógu mikið á málstaðinn til að láta lífið fyrir hann, og fyrir það verða þeir ódauðlegir.

Heimildarskrá
Andersson, John Lee. Che Guevara – A Revolutionary Life. Grove Press. New York, 1997.

Dorschner, John & Fabricio, Roberto. The Winds of December. Coward, McCann & Geoghegan. New York, 1980.

Guevara, Ernesto ,,Che“. Frásögur úr byltingunni. Mál og Menning. Reykjvík 1970.

Moore, Don. ,,Revolution! Clandestine Radio and the Rise of Fidel Castro“. Monitoring Times. Apríl, 1993.


Stuðningsrit
Fidel Castro Speaks. Ritstjórn: Kenner, Martin og Petras, James. The Pelican Latin American Library. Harmondsworth – Bretl og Victorica - Aus, 1972.

Cannon, Terrence. Revolutionary Cuba. Thomas & Crowell, 1981.