Súmerar

Súmerar stofnuðu fyrsta siðmenningarríkið sem grundvallað var á landbúnaði og verslun. Þeir byggðu fyrstir borgir, fundu upp farartæki á hjólum og til þeirra má rekja fyrstu notkun ritmáls. En hverjir voru þeir?

Um 5000 f. Kr. fluttust Súmerar niður á fljótasléttuna milli Efrat og Tígris sem heitir á grísku Mesópótamía. Þeir voru dökkir á hörund, lágvaxnir og nefstórir og þeir klæddust sauðskinnsfeldum. Ekki er vitað nákvæmlega hvaðan þeir komu en þjóðflokkur þeirra var ekki af semískum uppruna eins og fólkið sem bjó í grenndinni. Tungumál Súmera var óskylt öðrum málum en þetta var fyrsta málið sem skrifað var niður.
Árnar Efrat og Tígris flæða reglulega yfir bakka sína og skilja eftir sig frjósama leðju sem nýtist vel til landbúnaðar og er þetta leyndarmálið bak við velgengni Súmera.
Landbúnaður Súmera var mjög háþróaður og eru þeir fyrsta þjóðin sem nýtti sér vísindaþekkingu í landbúnaði. Þeir lærðu að byggja uppistöðulón, grafa áveituskurði og þeir nýttu eðju fljótavatnsins sem áburð á akrana. Þeir fengu margar uppskerur á ári. Aðalkorntegund þeirra var bygg sem var verðeining, en þeir ræktuðu líka lín, grænar baunir, hveiti, hirsi, ólífur, vínber og fleira. Um 4000 f.Kr fundu þeir upp plóginn. Húsdýr Súmera voru geitur, sauðfé og svín en kjöt svína var talið óhreint og því aðeins étið af fátæklingum. Einnig tömdu þeir ansategund sem dró vagna þeirra í stríði en hestinn þekktu þeir ekki.
Súmerar voru friðsamir og þeir kusu heldur að versla við nágrannaþjóðir sínar í stað þess að fara í stríð. Nágrannar Súmera voru flestir semískir hirðingjar sem reyndu að herma eftir þeim með misjöfnum árangri.
Fyrst voru allir Súmerar bændur og þeir bjuggu í litlum þorpum. En um 3500 f.Kr. urðu sum þorpin að sjálfstæðum borgríkjum og hófst þá borgmenningin. Helstu borgir Súmera voru Úrúk, Kish, Lagask, Larsa, Nippur og Úr en það var aðalborgin. Úr var helguð tunglguðinum Nanna og konu hans, Ningal. Abraham ættfaðir Gyðinga kom frá Úr. Borgríkin áttu oft ófrið sín á milli og lítil samstaða var meðal þeirra þó að íbúar þeirra væru allir Súmerar. Hvert borgríki samanstóð af einni borg og sveitunum í kring og íbúarnir því bæði borgarar og bændur.
Bændurnir sáu um að brauðfæða alla íbúa ríkisins en borgararnir fengust við iðnað, smíðuðu múrsteina úr leir, grófu skurði og héldu áveitukerfinu í lagi. Súmerar voru guðhræddir og því voru prestar mikilvægur hlekkur í borgríkjunum. Prestarnir sáu um guðsþjónustu, fórnir, særingar og uppeldi barna og unglinga. Fyrst var það öldungaráð sem stjórnaði ríkinu en um 2900 f.Kr. urðu stríð milli borgríkja tíðari og komst þá hershöðingi til valda og tók sér konungsvald en hann var aðeins aðstoðarmaður borgarguðsins.
Súmerar áttu fjölmarga guði en oftast var það þannig að hvert borgríki hafði sinn eigin guð er stjórnaði ríkinu. Guðinn hafði aðsetur í musteri sem var uppi á hæð í borginni þannig að allir í borgríkinu gátu séð það og verið sannfærðir um öryggi sitt. En þar sem guðirnir voru ekki mennskir gátu þeir ekki skipað mönnum fyrir verkum og var það því verkefni konungsins. Hann var umboðsmaður guðsins og stjórnaði ríkinu í nafni hans. Konungurinn gegndi mörgum öðrum hlutverkum líka. Hann var æðsti prestur, dómari og hershöfðingi en aðalstarf hans var að sjá um musterið en það var í eigu guðsins.
Musterin voru háir hjallaturnar sem gnæfðu yfir borgina og sveitina. Efst var helgidómurinn með altari guðsins en þar fóru daglega fram fórnir. Musterið var miðstöð alls atvinnulífs í ríkinu og hafði bændur, iðnaðarmenn og kaupmenn í þjónustu sinni. Vændishús voru rekin í musterunum og prestar riðu stundum hofgyðjum og kvenprestum til að milda guðina.
Súmerar fundu upp letur um 3500 f. Kr. til þess að skrá niður viðskipti sín og til að létta prestum bókhald og skýrslugerð. Letrið var í upphafi myndletur en smám saman breyttust myndirnar í oddlaga tákn, sem auðvelt var að rissa á blautar leirtöflur með oddhvössum reyrstíl. Þessi tákn kölluðust fleygrúnir. Súmerar stofnuðu skrifaraskóla og menntuðu þar menn til stjórnsýslustarfa. Súmerar notuðu líka innsigli fyrstir þjóða til þess að merkja leirtöflur. Hver konungur og kaupmaður hafði sitt eigið innsigli.
Um 3500 f. Kr. uppgötvuðu Súmerar að búa má til brons úr kopar og tini. Vopn úr bronsi voru mun betri en gömlu vopnin sem voru úr steini og tré. Súmerskir iðnaðarmenn voru mjög flinkir í höndunum en áhöld og skartgripir sem fundist hafa bera vott um handlagni þeirra. Þeir bjuggu einnig til styttur og ker úr leir sem varðveist hafa fram á okkar daga.

Súmerar settu lög fyrstir allra og útkljáðu deilumál með gerðadómi í stað ófriðar. Lögin voru mörg hver skrýtin en þau sýna að hlýðni við yfirvöld var talinn frumskylda Súmera. Þessi lög voru að sumu leyti uppistaðan í lögbók Hammúrabís Babýlóníukonungs er uppi var nokkrum öldum síðar.
Súmerar trúðu á líf eftir dauðann en það líf var ekki gott eins og dvölin á himnaríki í kristinni trú. Í helheimum hírðist fólk í myrkri og nærðist á leir og sandryki, klætt fjöðrum líkt og fuglar. Menn reyndu að gera lífið betra í helheimum og voru konungar grafnir ásamt ógrynni jarðneskra auðæfa, eins og gulli, silfri, gimsteinum og fallegum áhöldum. Einnig var fjöldinn allur af þjónum og ambáttum tekinn af lífi og grafinn með kónginum en seinna var þessum sið hætt.

Fyrst var í Súmer matríarkí en það merkir að konur höfðu jafnmikinn rétt og karlar. Þær fengust við auðveldar iðngreinar eins og vefnað, leirkeragerð og brauðgerð á meðan mennirnir fengust við málmsmíði. Hlutur kvenna versnaði svo eftir því sem borgríkin urðu stærri og herskárri.
Súmerar voru vel að sér í stærðfræði, enda krafðist áveitnagerð og landmælingar kunnáttu í reiknilist og mælingatækni. Þeir notuðu talnakerfi þar sem 60 var grunntalan og var það notað til að mæla tíma og reikna út hornamál. Frá Súmerum höfum við fengið tímaskiptingu nútímans í 60 mínútur og sekúndur og einnig þá venju að skipta hring í 360 gráður. Súmerar fundu líka upp dagatalið. Þeir skiptu árinu í 12 mánuði en þar sem þeir miðuðu við gang tunglsins þá gekk árið ekki alltaf upp. Súmerar voru líka ágætir í stjörnufræði en á næturna söfnuðust prestarnir saman á þak musterisins og fylgdust með stjörnunum.

Mesta bókmenntaverk Súmera sem varðveist hefur er Gilgamesarkviða en þar segir frá konunginum Gilgamesi og leit hans að ódauðleika. Gyðingar tóku margar sögur úr Gilgamesarkviðu og færðu yfir í Biblíuna, m.a. sköpun heimsins og mannsins, syndafallið, flóðið mikla og örkin og Babelsturninn.

Akkaðir voru af semískum uppruna og bjuggu í norðurhluta Mesópótamíu. Þeir voru mun frumstæðari en Súmerar og lifðu í skugga þeirra. En í kringum 2350 f Kr. réðust Akkaðir inn í ríki Súmera undir stjórn Sargons I. Sargon sameinaði öll ríki Mesópótamíu og fór í mikla herleiðangra. Sýrland og austurhluti Litlu-Asíu sameinuðust ríki hans. Akkaðirnir voru mjög hrifnir af menningu Súmera og reyndu að herma eftir þeim. Þannig dreifðist menning Súmera um ríki Sargons og aðrar þjóðir kynntust öllu því sem Súmerar höfðu fundið upp. Ríki Sargons stóð í 2 aldir en þá gerðu hirðingjar úr fjöllunum innrás í Mesópótamíu. Þeir skemmdu áveitukerfi Súmera en voru hraktir burt eftir 100 ár. Svo varð súmerska borgríkið Úr forysturíki í nokkra áratugi allt þangað til hinir frumstæðu Elamítar lögðu borgina í rúst. Enn einn semíski þjóðflokkurinn, Amorítar, fluttist svo inn í landið og settist þar að. Semítarnir blönduðust Súmerunum og semíska tungan var allsráðandi. Súmerska varð einungis ritmál. Amorítarnir gerðu Babýlon að höfuðborg og þá hófst nýr kafli í sögu Mesópótamíu.



Heimildir

Andreu, Guillemette o.fl. 1996. Heimssöguatlas Iðunnar. Óskar Ingimarsson og Dagur Þorleifsson þýddu. Iðunn, Reykjavík

Ágúst H. Bjarnason. 1949. Saga mannsandans II. Austurlönd. Hlaðbúð, Reykjavík

Ásgeir Hjartarson. 1973. Mannkynssaga. Fornöldin. Mál og menning, Reykjavík

Carter, Ron. 1983. Þróun siðmenningar. E. J. Stardal þýddi. Bókaflokkurinn Heimur þekkingar. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík

Crystal, Elli. 2001, 14. Október. Sumer. Vefslóð: http://www.crystalinks.com/sumer.html

Ganeri, Anita, Brian Williams og Hazel Mary Martell. 1999. Saga veraldar. Helga Þórarinsdóttir og Jóhanna Þráinsdóttir þýddu. Vaka-Helgafell, Reykjavík

Halloran, John Alan. 2001, 14. Október. Sumerian Lexicon. Vefslóð: http://www.sumerian.org/sumerlex.htm

Sveen, Alse og Svein Arild Aastad. 1987. Mannkynssaga fram til 1850. Helgi Skúli Kjartansson og Sigurður Ragnarsson þýddu. Mál og menning, Reykjavík

Wells, H. G. 1938. Veraldarsaga. Guðmundur Finnbogason þýddi. Bókadeild Menningarsjóðs, Reykjavík
Gleymum ekki smáfuglunum..