Ég var að skrifa þessa ritgerð í sögu þar sem umfjöllunarefnið var spurning að eigin vali. Hér er niðurstaðan. Því miður fylgja myndir og tilvitnanir ekki með en heimildaskrá er aftast



Hugtakið járntjaldið varð til í frægri ræðu Winston Churchill sem hann hélt í Fulton, Missouri 5. mars 1946 rétt eftir lok Heimstyrjaldarinnar síðari. Hann var þá á ferðalagi um Bandaríkin ásamt Truman forseta Bandaríkjana. Í ræðunni sagði hann:
Frá Stettin í Eystrasalti til Trieste við Adríahaf hefur járntjald myndast yfir álfuna. Handan þessarar línu eru allar höfuðborgir fornra ríkja mið- og austur Evrópu. Varsjá, Berlín, Prag, Vín, Búdapest, Belgrad, Búkarest og Sofia; allar þessar frægu borgir og íbúar þeirra liggja innan þess sem ég kýs að kalla Sovéska áhrifasvæðið, þar sem öll þessi lönd eru í einu eða öðru formi undir áhrifum frá Sovétríkjunum og í sumum tilvikum stjórnað frá Moskvu. 1
Járntjaldið er orsök skiptingu Evrópu milli stórveldanna tveggja Sovétríkjanna og Bandaríkjanna eftir heimstyrjöldina síðari . Áhrif þess á menningu, stjórnmál og efnahag eru gríðarleg og skiptu Evrópu um tíma í tvo aðskilda heima. Enn má sjá þessa aðgreiningu, en eftir fall Sovétríkjanna hafa hafist umbætur á efnahag austantjaldslandanna með afar misjöfnum afleiðingum. Vestanmegin tjaldsins var öðrum aðferðum beitt til að tryggja vald Bandaríkjanna og ber þar hæst að nefna Marshall aðstoðina en hana fengu flest öll Vestur-Evrópuríki, þar með talið Ísland. Íslendingar fengu góðan hlut Marshall aðstoðarinnar, mest miðað við höfðafjölda. Hernaðarbandalög eins og Nato og Varsjárbandalagið spruttu upp vegna Járntjaldsins. Skipting Evrópu átti eftir að hafa gífurleg áhrif á sögu fjölmargra landa, þó sérstaklega í eystri hluta álfunar. Járntjaldið markaði einnig upphaf kalda stríðsins sem átti eftir að hafa mikil áhrif á sögu tuttugustu aldar.

Upphaf Járntjaldsins og skipting álfunar












Undir lok heimstyrjaldarinnar síðari var sótt að Þýskalandi úr tveimur áttum. Úr austri sóttu Sovétmenn að Þýskalandi og Bandamenn úr vestri. Strax þá byrjuðu leiðtogar stórveldanna að funda um skiptingu Evrópu að stríðinu loknu. Tveir fundir voru haldnir, einn í Potsdam nálægt Berlín og annar í Jalta á Krímskaga. Þar kom Stalín fram með þá kröfu að Sovétríkin fengu yfirráð yfir mestum hluta A-Evrópu til að verjast frekari innrásum úr vestri. Churchill og Roosevelt samþykktu það með því skilyrði að löndin væru með þjóðkjörna ríkisstjórn, en ekki undir beinni stjórn frá Moskvu, þrátt fyrir Sovéska vernd. Þetta skilyrði samþykkti Stalín aldrei. Stalín hóf í staðinn inlimun Eystrasaltsríkjanna inní Sovétríkin. Eftir stríðið studdu síðan Sovéskar hersveitir kommúnískar ríkisstjórnir hliðhollar Moskvustjórninni í löndum eins og Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu, svo nokkur séu nefnd.


Berlínardeilan og loftbrúin til Berlín

Fljótlega eftir stríðslok komu upp deilur um höfuðborg Þýskalands, Berlín en hún var innan Sovéska yfirráðasvæðisins. Henni var skipt í fjóra hluta: franskan, breskan og bandarískan (Vestur-Berlín) og hluta Sovétríkjanna hinsvegar (Austur-Berlín). Komnar voru upp deilur milli Sovétmanna og Bandamanna um málefni Þýskalands, en Bandamenn vildu byggja upp efnahag Þýskalands á meðan Sovétmenn kröfðust gífurlegra stríðsskaðabóta af Þjóðverjum. Þessar deilur leiddu til þess að á árunum 1948-1949 stöðvuðu Sovétmenn allar samgöngur á landi til V-Berlínar. Viðbrögð Vesturveldana við því var að mynda loftbrú til V-Berlínar og héldu þannig uppi samgöngum og vöruflutningum í þessi tvö ár. Árið 1949 afléttu Sovétmenn síðan samgöngubanninu. Sama ár var Berlín lýst höfuðborg Þýska alþýðulýðveldisins eða Austur-Þýskalands eins og landið var oftar nefnt 2.

Marshall aðstoðin

Til að spyrna við ítökum Sovétmanna í Evrópu lagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna George Catlett Marshall fram tilboð til flestra landa í Evrópu um aðstoð við efnahagslega uppbyggingu ríkja Evrópu eftir seinni heimstyrjöld. Sovétríkin og önnur ríki Austur-Evrópu afþökkuðu hjálpina og var hún fordæmd þar sem leið kapítalismans til að hafa áhrif á stjórnir V-Evrópu, sem hún hefur eflaust gert. Gífurlegir fjármunir fóru í Marshall aðstoðina eða um 13 milljarðar dollara og þar af hlutu Íslendingar 38,65 milljónir dollara, og þar af um 29,80 í hreint gjafafé 3. Þetta fé var mikil sprauta inní íslenskt atvinnu og efnahagslíf. Peningarnir voru meðal annars notaðir til að borga framkvæmdir við virkjanirnar í Laxá og Soginu. Marshall aðstoðin varð grundvöllur fyrir örum efnahagsframförum víðast hvar í Evrópu og hafði mikil áhrif á afstöðu ríkja Evrópu til Bandaríkjanna.

Nato og Varsjárbandalagið

Atlantshafsbandalagið (Nato) var stofnað árið 1949 sem svar við hinum mikla og sívaxandi hernaðarmætti Sovétríkjana og áhrifum þeirra í Evrópu. Stofnríki voru 12 og Ísland þar á meðal. Varsjárbandalagið var síðan mótsvar Sovétríkjanna og Austur-Evrópu við Nato. Það var stofnað árið 1955 af Albaníu, A-Þýskalandi, Búlgaríu, Póllandi, Rúmeníu, Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi. Varsjárbandalagið var fyrst og fremst varnarbandalag en þó var hægt að beita herjum þess á móti eigin aðildarríkjum. Það var gert í innrásinni í Tékkóslóvakíu 1968, þegar hersveitir Varsjárbandalagsins stöðvuðu þróun stjórnvalda þar í frjálslyndisátt. Var Moskvuholl stjórn sett til valda 4.



Áhrif Járntjaldsins á ríki Evrópu

Áhrif skiptingu Evrópu í tvö áhrifasvæði voru mikil og skiptu álfunni í tvær aðskyldar fylkingar. Austrið fór illa útúr þessari skiptingu en vestrið óx og dafnaði. Þessa skiptingu má ennþá sjá á efnahagi landanna. Hér á eftir kemur stutt umfjöllun um helstu ríki Evrópu eftir skiptingu álfunar, þá sérstaklega áhrif á ríki Austur-Evróu enda voru þau meiri og afdrifaríkari.

Pólland: Eftir seinni heimstyrjöld hófst mikil atvinnu og þungaiðnaðs uppbygging eftir komúnískri fyrirmynd. Þrátt fyrir það bötnuðu kjör almennings lítið. Auk bágra kjara var óánægja með drottnun Sovétmanna og leiddi það til uppreisnar árið 1956. Voru þá um sinn teknir upp frjálslegri stjórnunarhættir og hætt við fyriráætlanir um samyrkjubú.
Óróinm hélt áfram og einkenndist af erjum milli stjórnvalda og almennings sem hafði kaþólsku kirkjuna á bak við sig.
Efnahagsörðuleikarnir héldu áfram og leiddi það til stofnun samtakana og stjórnmálaflokksins Samstöðu. Þekktur leiðtogi, Lech Walesa varð leiðtogi Samstöðu árið 1980 5. Hann hafði verið rafvirki við skipasmíðastöð í Gdansk og var virkur í verkföllum verkamanna og komst þannig til áhrifa innan Samstöðu og varð síðan leiðtogi hennar. Samstaða óx undir stjórn Walesa og vegna aukinnar rótækni hennar tók herin völd í desember 1981, bannaði Samstöðu og hneppti flesta forsvarsmenn hennar, þar á meðal Walesa í varðhald. Walesa var látinn laus ári síðar og herinn fór frá árið 1983. Sama ár og herin fór frá völdum hlaut Walesa friðarverðlaun Nóbels 6. Árið 1989 vann Samstaða síðan stórsigur í þingkosningum og ári síðar var leiðtogi hennar Lech Walesa kosinn forseti Póllands. Hann gegndi því embætti til 1995 þegar hann beið í lægri hlut í forsetakosningum. Pólland er vaxandi ríki og er núna orðinn gildur meðlimur í Nato og hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Efnahagur landsins hefur batnað og því má segja að framtíðin sé björt eftir erfiða tíma hjá Pólverjum.

Þýskaland: Þýskalandi var skipt í tvo hluta eftir síðari heimstyrjöld eins og áður hefur komið fram. Austur-Þýskaland átti í talsverðum upphafsörðuleikum eftir að það klauf sig frá Þýskalandi árið 1949. Austur-Þýskaland fór frá einu einræðisstjórnkerfinu til annars. Eftir nasisman tók algjört einræði kommúnisma við sem leiddi til mikillar einangrunar. Efnahagurinn var líka í ólestri vegna þess að Austur-Þýskaland þurfti að borga meirihluta stríðskaðabótana til Sovétríkjanna. Árið 1952 rann t.d. fjórðungur ársframleiðslunar til Sovétríkjana. Sama ár urðu miklar mótmælaaðgerðir verkamanna sem voru barðar niður af Sovéskum skriðdrekum.
Flóttamannastraumur frá landinu var mikið vandamál og árið 1977 hafði íbúum landsins fækkað um eina miljón frá árinu 1950 sem má rekja beint til landsflótta til vesturs. Talið er að alls hafi 2,5 milljónir Austur-Þjóðverja yfirgefið landið og leitað betri lífsgæða í vestri. Árið 1961 var reynt að stoppa flóttamannastrauminn með hinum alræmda Berlínarmúr. Berlínarmúrinn gerði sitt gagn og ný stefna í efnahagsmálum skapaði aukin hagvöxt í landinu. Saga Austur-Þýskalands er flestum kunn eftir þetta og árið 1989 var Berlínarmúrinn brotin niður og viðræður hófust um sameiningu. Árið 1990 sameinuðust síðan ríkin og sameinað Þýskaland varð aftur stórveldi í Evrópu 7.

Ungverjaland: Ungverjaland fór einna verst út af ríkjum A-Evrópu eftir 1945. Mátyás Rákosi var einræðisherra á árunum 1945-1956 og fór í einu og öllu eftir stjórnarstefnu Stalíns og fylgdi henni eftir af hörku. Það hlaut að koma að því að uppúr syði. Árið 1956 gerði almenningur uppreisn. Þá hafði Rákosi verið gert að segja af sér en almenn óánægja með arftaka hans Ernö Gerö kom uppreisninni af stað. Uppreisnin var mjög blóðug og endaði með að Sovéskar hersveitir hváðu hana niður. Um 20000 manns létu lífið á þessari viku sem uppreisninn stóð yfir og markaði djúpt sár í þjóðarsál Ungverja. Fjölmargir flúðu land og flóttamenn komu meðal annars til Íslands. Árið 1990 komust síðan mið og hægriflokkar til valda eftir frjálsa kosningu. Ungverjaland er smátt og smátt að rísa upp eftir erfiða öld og lífsskilyrði fara batnandi.

Tékkóslóvakía (Tékkland og Slóvakía): Eftir lok seinni heimstyrjaldar, árið 1947 gerðu kommúnistar stjórnarbyltingu í Tékkóslóvakíu. Engar Sovéskar hersveitir voru á bakvið byltinguna en Moskva stjórnaði þó að tjaldabaki. Árið 1968 komst ný ríkistjórn til valda sem vildi draga úr miðstýringu og auka frjálsræði. Í ágúst sama ár réðust hersveitir Varsjárbandalagsins inní Tékkóslóvakíu og steyptu stjórninni og komu á nýrri íhaldssamari stjórn hliðhollri Moskvu. Innrás þessarar er helst minnst fyrir þær sakir að stúdentar mótmæltu stjórnarskiptunum og hernaðarívilnunum með því að kveikja í sjálfum sér og vakti það heimsathygli og reiði. Árin frá 1968-1989 einkenndust af mikilli deyfð og ekkert markvert gerðist þangað til 1989. Þá var komið á tjáningar og ferðafrelsi auk þess sem boðað var til kosninga. Í forsetakosningunum var Vaclav Havel síðan kosinn forseti og gegnir því embætti enn í dag. Árið 1993 var Tékkóslóvakíu skipt niður í tvö ríki, Tékkland og Slóvakíu. Tékkland gekk í Nato árið 1999 og vegnar einna best af ríkjum A-Evrópu 8.

Rúmenía: Rúmenía fór illa út úr árunum eftir stríð. Hver einræðisherrann á fætur öðrum verið við völd. Þrátt fyrir það gætti ekki mikillar andstöðu við stjórnvöld framan af. Rúmenar sköpuðu sér nokkra sérstöðu með því að vera frekar óháðir Sovétríkjunum og snéru sér í meira mæli til Kína líkt og Albanir gerðu. Miðstýring var þrátt fyrir það mikil og jókst sérstaklega eftir valdatöku Nicolae Ceausescu. Það kom að því að uppreisn var gerð og í desember 1989 var Ceausescu steypt og hann og kona hans dæmd til dauða af herdómstól. Þau voru síðan tekin af lífi á jóladag 1989 og hengd upp á aðaltorgi Búkarest almenningi til sýnis. Rúmenía er enn vanþróað ríki og hefur lítið færst í átt til betri lífskjara og er með fátækustu ríkjum Evrópu 9.
Júgóslavía: Eftir seinni heimstyrjöld komust skæruliðar undir forystu Tító til valda. Tító kom á gífurlegum breytingum sem áttu að stuðla að því að breyta Júgóslavíu úr fátæku landbúnaðarríki í nútíma iðnaðarríki. Aðferðirnar við breytingarnar voru áhrifamiklar. Atvinnulífið varð allt þjóðnýtt og samyrkjubú voru byggð upp og gengu Júgóslavar jafnvel lengra en Rússar höfðu farið. Togstreyta skapaðist milli Tító og Stalín árið 1948 þegar Tító neitaði að taka upp stefnu Sovétríkjana í ýmsum málum. Leiddi það til þess að Stalín rauf tengslin við stjórn Títós. Eftir aðskilnað við Sovétríkin breyttu Júgóslavar um stefnu, og efnahagskerfi þeirra varð blandaðra auk þess að þeir tók við efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum10. Tító lést árið 1980 og síðan þá hefur upplausn ríkt í landinu. Hin mörgu þjóðarbrot sem byggja landið kröfðust meiri valda sem leiddi til borgarastyrjaldar 1991. Í borgarstyrjöldinni sem er í raun efni í aðra ritgerð, skiptist Júgóslavía upp í: Króatíu, Bosníu-Herzegóvínu, Makedóníu og Slóveníu auk Júgóslavíu (Serbía og Svartfjallaland) 11. Staða þessara ríkja er æði misjöfn og framtíð þeirra er óljós en hana mun tíminn leiða í ljós.


Skipting Evrópu í austur og vestur hófst strax eftir stríð með skiptingu á Berlín. Loftbrúin var eitt mesta þrekvirki flugsögunar og bygging múrsins milli austur og vestur Berlín er flestum minnisstæð.
Þessi skipting átti eftir að hafa víðtækar afleiðingar fyrir ríki álfunar og þá sérstaklega ríkin í austri. Þau voru undir stöðugri ógn og stjórn Sovétríkjana og brotlentu harkalega í efnahagsmálum eftir að járntjaldið féll. Það kom á daginn að stíft og miðstýrt kerfi kommúnsimans féll illa að raunveruleikanum. Margir frægustu einræðisherrar 20. aldar komu fram og enduðu skeið sitt oftast í uppreisn almennings. Aðferði almennings gegn valdhöfum voru þá oft grimmilegar, líkt og í tilfelli Nicolae Ceausescu þar sem hann og kona hans voru hengd á jóladag á aðaltorgi Búkarestborgar.
Eftirmálar skiptingu Evrópu er kalda stríðið og má segja að deilan í Evrópu hafi breiðst útum heim allan og lá við að ný styrjöld brytist út.
Nú er öldin önnur, flest austantjaldsríkjanna orðin meðlimir Nato og sum sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu. Því má segja að vestrið hafi sigraði í “hinu takmarkaða stríði” en svo voru deilurnar í Evrópu kallaðar. Evrópu siglir nokkuð lyngt inní nýja öld eftir stormasöm ár. Bjartir tímar eru framundan í Evrópu.



Heimildaskrá

1. Grove, Noel. 1997. ,,National Geographic Society Atlas of World History”. National Geographic, Washington DC.
2. Huldt, Bo. 1982. ,,Saga mannkyns ritröð AB”, 14. bindi ,,Þrír heimshlutar 1945-1965”. Almenna bókafélgaði, Reykjavík. Lýður Björnsson íslenskaði.
3. Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstjórar). 1990. ,,Íslenska alfræðiorðabókin”. Öll þrjú bindin. Örn og Örlygur, Reykjavík.
4. Grant, Neil. 1983. ,,Heimur á krossgötum”. Örn og Örlygur, Reykjavík. Ingi Viðar Árnason íslenskaði.
5. Gunnar Þór Bjarnason og Margrét Gunnarsdóttir. 2001. ,,Íslands- og mannkynssaga NB II”. Nýja bókafélagið, Reykjavík.
6. Slóð af interneti: http://www.lib.msu.edu/sowards/balkan/lect21.htm
7. Sl óð af interneti: http://www.gwu.edu/~nsarchiv/news/19991105/
8. Slóð af interneti: http://campus.northpark.edu/history/classes/Sources/Chu rchill.html
9. Slóð af interneti: http://www.wikipedia.org/wiki/Iron_Curtain
10. Slóð af interneti: http://www.flensborg.is/maggi/sag233/pptshow/kaltstrid. pps
11. Slóð af interneti: http://www.xrefer.com/entry/445761
12. Slóð af interneti: http://www.time.com/time/time100/leaders/profile/walesa .html
13. Slóð af interneti: http://www.nat.is/borgarferdir/jugoslavia.htm
Is it safe?