Ég var aðeins að taka til í ritgerðunum hjá mér og fann þessa ritgerð sem ég gerði í fyrra og ákvað að birta hana hér. Myndir koma því miður ekki með og tilvísanir ekki heldur, heimildir fylgja þó aftast.


Endurreisninn ól af sér marga af mestu snillingum sögunnar þó sérstaklega í listum hvers konar.
Sumir höfðu þó snilligáfur á mörgum sviðum og einn af þeim var Leonardó Da Vinci bjartasta ljós ítölsku Endurreisnarinnar. Sjaldan hefur ein manneskja haft jafn mikla snilli í mörgum greinum og hann.
Hann skildi eftir sig ódauðleg málverk og höggmyndir, kort og athuganir í landafræði, teikningar í verkfræði og fór fyrstur manna að kanna innviði mannslíkamans og lagði þannig grunn að líffærafræði nútímans.
Teiknibækur hans voru stútfullar af framúrstefnulegum hugmyndum sem margar áttu eftir að verða að raunveruleika mörgum öldum síðar.
Ein setning er kannski best til að lýsa Da Vinci: Maður á undan sinni samtíð!


Leonardó Da Vinci fæddist í bænum Vinci í Tuscana-héraði á Ítalíu 15. apríl 1452. Um móður hans er lítið vitað en fregnir herma að hún hafi heitið Katrín og verið annað hvort bóndadóttir eða gengilbeina. Meira er vitað um föður hans Piero da Vinci en hann og móðir Leonardos voru ekki gift og því Leonardo óskilgetinn. Faðir hans var þinglýsari og var af göfugum ættum. Það þótti ekkert tiltökumál að vera óskilgetinn á Ítalíu á þessum tíma og umburðarlyndi gagnvart slíku var mikið. Það sýnir margt um viðhorf Ítala til hjónabandsins að faðir Leonardos giftist fjórum sinnum og eignaðist tólf börn bæði í hjónabandi og utan þess.
Fyrstu fjögur ár ævi sinnar bjó hann á bóndabæ nálægt bænum Anchiano ásamt móður sinni. Eftir að faðir hanns hafði gifst í fyrsta sinn var hann tekinn inn á heimili föður síns. Fyrir utan þetta er fátt vitað um bernsku hans enda nefndi hann aldrei neitt sem tengdist bernsku sinni á þeim sjöþúsund blöðum og teikningum sem hann gerði.
Þó er ein saga um bernsku hans þekkt. Þá hafði bóndi úr nágreninu komið með tréskjöld til föður Leonardós og beðið hann um að fara með hann til Flórens til að skreyta hann. Piero hafði trú á syni sínum og fól honum að mála skjöldinn. Leonardó ákvað að mála höfuð Medúsu á skjöldinn og ætlaði ekki að hætta fyrr en allir hræddust það. Hann dró sig þá inn í herbergi og vann að skildinum dögum saman.
Nokkur tími leið og faðir hans var búinn að gleyma skildinum þegar Leonardó brá honum upp fullgerðum. Föður hans brá svo mikið að hann ætlaði að taka á flótta út úr stofunni en Leonardó sagði þá ,,Nú get ég verið ánægður með myndina, ég sé að hún hefur tilætluð áhrif og gerðu svo vel”. Faðir hans fór síðan með skjöldin til Flórens og seldi hann þar fyrir stórfé en keypti annan hefðbundinn skjöld handa bóndanum.
Eftir vanalega grunnmenntun sem drengir af betri ættum fengu, fór Leonardo í listnám til Andrea del Verrokkíó sem var virtasti listmálarinn á Ítalíu á þessum tíma. Leonardo varð fljótlega snjall málari og vann mikið við að ljúka við og aðstoða við verk lærimeistara síns. Flest málverk Leonardós frá námsárunum eru því miður glötuð að undanteknu einu hálfkláruðu verki.


Ævi, listir og störf

Leonardó starfaði lengst af sem sjálfstætt starfandi listamaður en við það undi hann oft illa því að hann var haldinn óslökkvandi þekkingarþorsta. Hann notaðist fyrstur sinna samtíðarmanna við náttúruna sjálfa sem fyrirmynd og fór þannig ekkert eftir hinum stöðluðu gildum. Hann lét sér ekki nægja að sjá og líkja eftir hlutunum sem hann var að mála, hann varð einnig að kynna sér þá. Þess vegna lagði hann stund á ljósfræði og rannsakaði hin ýmsu líffæri mannsins t.d augað. Auk þessara greina var hann frumkvöðull í náttúrufræðum, jarðfræði og verkfræði.
Eftir ýmsar athuganir, málverk og fleirra réð hann sig til Ludvigo Sforza hertogans af Mílanó. Sforza hafði heillast af Leonardo þegar hann hafði spilað á heimagerða lútu úr silfri og hestshauskúpu við veislu hjá hertoganum. Hann skaraði þá framúr öllum menntuðum tónlistarmönnum þar á bæ þótt hann væri ekki menntaður á því sviði. Eftir að hafa kynnst hertoganum bauð hann hertoganum þjónustu sína í athyglisverðu bréfi þar sem hann m.a. setur fram nýjar hugmyndir um hernað. Hann mat síðan hæfileika sjálfs síns svona í bréfinu:
,,Ég hef þá trú, að á friðartímum geti ég jafnast á við hvern, sem vera skal í byggingalist og smíðateikningum húsa, bæði opinberra og þeirra sem eru í einkaeign. Eins í vatnsleiðslum milli staða.
,,Enn fremur er ég fær um að gera höggmyndir, hvort sem vera skal í marmara, bronsi eða brenndum leir. Og málað get ég á við hvern sem er.
,,Enn fremur get ég tekið að mér að gera hestlíkan úr bronsi, til varanlegrar minningar um föður yðar og hina tignu ætt Sforza ……”
Leonardo var ekki að ýkja með þessu bréfi og kannski dró hann meira að segja úr snilli sinni á pappírnum. Eftir þetta bréf var Sforza fljótur að taka tilboðinu og næstu sautján ár bjó Leonardo í Mílanó sem hirðsiðameistari.
Heststyttan sem hann bauðst til að búa varð aldrei til en hann gerði samt mót og teikningar. Mótin sem voru tilbúin til steypunar voru alls 8 metra há og hefði styttan orðið mikið stórvirki. Þegar loksins átti að steypa hestinn hafði brotist út stríð í Mílanó og ekkert brons til vegna notkunar bronss í fallbyssur. Síðar þegar Frakkar höfðu tekið borgina voru mótin höfð að skotspæni af bogaskyttum þeirra.
Á meðan hann vann við hirð Sforza ættarinnar sat hann ekki auðum höndum og lagði stund á hinar ýmsu fræðigreinar í tómstundum sínum og í rauninni var hann ekki að sinna störfum sínum hjá Sforza vegna athuganna í flatarmálsfræði, stærðfræði og teiknaða meira að segja endurskipulag Mílano borgar með tilliti til heilbrigðissjónarmiða en þá geisaði svarti dauði og pestin var Leonardó hugleikin.
Á tímum hirðsiðameistaratitilsins málaði Leonardó margar af sínum frægustu myndum t.d Heilugu kvöldmáltíðinni sem hann málaði á salarvegg í klaustri nokkru. Verkið toldi frá byrjun illa á veggnum og því er það illa farið nú, en þrátt fyrir það er það talið með fegurri verkum listasögunnar.
Eins og áður sagði lögðu Frakkar Mílanóborg undir sig undir stjórn Loðvíks XII og því varð Leonardó að fara annað til að stunda iðju sína. Árið 1499 flutti hann síðan til Feneyja og starfaði þar sjálfstætt. Þar kynntist hann hertogafrúnni af Feneyjum og teiknaði af henni krítarmynd og lofaði að gera málaða mynd af henni seinna. Þetta loforð stóð hann aldrei við því hann varð enn og aftur upptekinn af vísindunum, núna sérstaklega landafræði og flatarmálsfræði. Leonardó taldi t.d. að hægt væri að sigla yfir Atlantshaf til Asíu og fékk Kristófer Kólumbus kort frá honum um það.
Hann sinnti listinni lítið á þessum tíma og hafnaði m.a. marmarablokk mikilli sem maður vildi gefa honum. Síðar notaði Michelangelo marmarablokkina í sitt frægasta verk ,,Davíð”.
Mikill rígur var á milli Leonardós og Michelangelo og er sagt að þeir hafi flogist á út á götu. Michelangelo lét síðan síðar þessi orð falla um Leonardó: ,,Hrossamyndasmiður, sem gat ekki steypt standmynd í brons, heldur varð að gefast upp við það með smán og svívirðingu!”
Eftir þetta vísindaskeið kom listagyðjan aftur yfir Leonardó og á árunum 1500 – 1510 málaði hann mörg sín frægustu verk. Á þessum tíma var hann að vinna að mynd í ráðhúsinu í Flórens af mikilli orrustu en honum leiddist hún og fór að mál í hjáverkum líklega sína frægustu mynd ,,Mónu Lísu”. Móna Lísa er eins fræg og hún er í dag vegna hins einkennilega og fíngerða bross og samspili ljóss og skugga. Einnig telja sumir að hægt sé að sjá andlitsföll Leónardós sjálfs í myndinni.


Eftir þessi frægustu verk sín var Leonardó fenginn til hirðar Loðvíks XII en hann hafði hrifist af verkum Leonardós í Mílanó. Á vegum Loðvíks fór hann til Róm en þar undi honum illa og fannst hugsunarháttur borgarbúa ekki við sitt hæfi. Loðvík féll frá 1514 og þá tók hann boði Frans I Frakkakonungs og fluttist í Cloux-kastalann í grend við Amboise í Frakklandi þar sem hann dvaldi til dauðadags. Leonardó Da Vinci andaðist síðan 2. maí 1519 í Frakklandi.
Undir lok ævi sinnar hafði hann fengist mest við furðulegar myndir af risavöxnum flóðbylgjum sem eyða öllu lífi á jörðinni. Í þessum myndum blandar hann saman einu af aðaláhugamálum sínum sem eru straumhreyfingar vatns og síðan furðulegri áráttu sem hann fékk á gamals aldri um endalok jarðarinnar. Annað furðulegt við ævi Leonardós er að hann giftist aldrei og var í rauninni aldrei við kvennmann kenndur.


Uppfinningar og áhrif

Leonardó var aðeins á undan sinni samtíð þegar kom að hugmyndum um uppfinningar. Hann fann upp hina ýmsu hluti á pappírnum en fáir komust lengra en það. Flug var honum sérstaklega hugleikið og gerði hann margar teikningar um það. Meðal þess sem hann teiknaði í sambandi við flugið var þyrla og fallhlíf. Hann teiknað einnig margar uppfinningar sem lítið vit var í, svo sem skór til að ganga á vatni ætlaðir til björgunar úr sjávarháska, eilífðarvélar og flugtæki sem líkist bát með vængi, knúið með vöðvaafli flugmanns. Sumir segja að hann hafi komið með fyrstu hugmyndir um reiðhjól sen aðrir telja að mynd sem eignuð er Leonardó sé fölsuð. Hann endurbætti skærin og er það kannski hans helsta framlag til nútímans því flestar teikningar hans voru löngu gleymdar þegar hugmyndir hans urðu síðan að veruleika. Dæmi um það er þyrlan, fallhlífin, skriðdreki, kafbátur og vélknúinn vagn .
Það vill nú stundum þannig verða með frummkvöðla að þeir uppgvötvast ekki fyrr en löngu eftir á. Þannig var það nú samt ekki með Leonardó því hann var áður þekktur fyrir list sína en það var ekki fyrr en á 19. öld að fræðimenn tóku að skoða skissubækur hans og þá kom í ljós þessi gífurlega fjölhæfni sem er nánast einsdæmi í sögunni.



Leonardó Da Vinci er án efa einn mesti snillingur mannkynssögunnar. Fjölhæfni hans og snilld er varla samanburðarhæf við neinn nema kannski snillinga Forn-Grikkja enda sækir Endurreisnin áhrif þaðan.
Listaverk Leonardós eru mörg hver þau þekktustu í heimi og vart er til mannsbarn sem þekkir ekki málverk hans af Mónu Lísu. Ef hið mikla hestslíkneski hefði orðið að veruleika væri það sennilega jafnþekkt og Móna Lísa en því miður varð ekkert úr því stórvirki. Stíll Leonardós setti mark á listasögunna til frambúðar með notkun á ljósi og skugga.
Þótt að óþekktari séu eru uppfinningar hans ekki síður merkilegar heldur en listin, því að fjölmargar teikningar hans af tækjum ýmiss konar hafa orðið að veruleika.
Leonardó er kannski þekktastur fyrir eitt verk en bakvið það leynist hugarheimur snillings og manns á undan sinni samtíð.




Heimildaskrá:
http://www.mos.org/leon ardo/inventor.html
faculty.washington.edu/ chudler/hist.html
www.logray.de/html/leonardo.html
www.bl.uk/diglib/treasures/da-vinci-notebook.html
ht tp://users.aol.com/PryorDodge/Leonardo_da_Vinci.html
w ww.liberliber.it/biblioteca/l/leonardo
www.princeton.e du/~sbutt/his291/artisans.html
www.imh.org/imh/jpg/leo nardo.jpg
www.christusrex.org/www1/sistine/Is-Supper.j pg
http://www.uke.uni-hamburg.de/institute/imdm/idv/fo rschung/einfuehrung/index.en.html
www.washacadsci.org/ science.htm
auk bókana Líf og list Leónardós og Afburðamenn og örlagavaldar rit I (ég eyddi því miður upprunalegu heimildaskránni og því er þetta svona óskipulagt)
Takk fyri
Is it safe?