hér fann ég aðra ritgerð sem ég var að gera. ákvað að senda hana líka inn. (Vona að einhver nenni að lesa þetta.)

Mikil breyting varð á kenningum og skipan kirkjunnar, einkum í
norður Evrópu, þegar hreyfing þýska munksins Marteins Lúthers og mótmælenda bar sigurorð af kaþólskum sið á 16 öld. Hinn nýi siður fól í sér afnám skrifta, dýrlingadýrkunnar og ýmissa sakramennta. Eignir kirkna runnu til konungs og vald hans styrktist. Biblían sálmar og trúarrit voru þýdd yfir á íslensku (þess má geta að Oddur Gottskálksson hóf fyrstur manna þýðingu nýja testamentisins í fjósi). klaustrin voru lögð niður og prestar máttu giftast. Til Íslands bárust kenningar Lúthers um 1530 með Hamborgurum og íslenskum menntamönnum, þar bar hæst Gissur Einarsson síðar biskup, Oddur Gottskálksson síðar lögmaður og Gísli Jónsson kirkjuprestur í Skálholti og síðar biskup. Þessir einstaklingar héldu þó skoðunum sínum leyndum í nokkurn tíma eftir heimkomuna. Á þessum tíma var Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti, og Jón Arason biskup á Hólum.
Þó að margir menntamenn Íslendinga væru fylgjandi þessum nýja sið gerðist ekki mikið í nokkurn tíma. Eftir Greifastríðið 1537 var konungurinn fátækur og girntist fé sem safnast hafði upp í klaustrum á Íslandi þannig að nýr hirðstjóri var sendur til Íslands að nafni Kláus van der Marwitzen til að reyna að koma siðaskiptum á. Hann hafði fengið Hirðstjóraembættið að gjöf frá konungi ásamt Viðeyjarklaustri því Bessastaðir þótti lélegur bústaður fyrir hirðstjóra konungs og hins nýja siðar. Helsti aðstoðarmaður hirðstjórans hérlendis var Diðrik af Minden.
Íslendingar voru tregir til að lúta valdi hins nýja hirðstjóra því að síðustu 70 árin höfðu völdin mestmegnis verið í höndum alþingis og biskupa.
Diðrik af Minden hrakti munkana úr Viðeyjarklaustri og sló eign sinni á það. Fyrir vel unnið verk skipaði Kláus Diðrik hirðstjóra yfir Íslandi. Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti svaraði árásinni með bannfæringu. Þegar hér var komið við sögu var Ögmundur orðinn sjóndapur og ellihrumur, hann sagði því af sér biskupsdómi það sumar var Gissur Einarsson kosinn í hans stað. Gissur sigldi utan strax það sumar til að öðlast biskupsvígslu.
Sama ár drápu íbúar Skálholts Diðrik fógeta og menn hans er þeir voru á leiðinni austur fyrir fjall að hertaka klaustur í Skaftafells-sýslu. Á þessum tíma var það talið mjög alvarlegt mál að drepa hirðstjóra konungs. Í vígsluför sinni reyndi Gissur því að sefa reiði Danakonungs vegna vígs Diðriks því Gissur vildi alls ekki lenda í átökum við Danakonung. Konungur féllst á biskupskjör hans en hann fékk ekki vígslu og snéri við það heim.
Þegar Gissur kemur til Íslands árið 1540 var kirkjuskipan Kristjáns Danakonungs algerlega hafnað af alþingi. Þar að auki voru menn sýknaðir vegna vígs Diðriks fógeta af Minden.
Kristján III var búinn að fá nóg af þvermóðsku Íslendinga og sendi hingað tvö herskip undri stjórn Kristófers Huitfeldt lénsmanns í Þrándheimi. Er Kristófer kom til landsins var eitt af hans fyrstu verkum að taka höndum Ögmund Pálsson þann 2. júní 1541 að Hjalla í Ölfusi.
Hann var fluttur á skip og látinn afhenda allar eignir sínar í von um frelsi en það hlotnaðist honum ekki. Síðan var hann fluttur til Danmerkur og settur í gæsluvarðhald í Sóleyjarklaustri á Sjálandi, þar lést hann líklega snemma árs 1542. Kristófer hélt til alþingis með flokk manna og tók þar hollustueið af Íslendingum til handa Kristjáni III. Einnig lét hann þá samþykkja kirkjuskipan konungs og vígamenn Diðriks fógeta voru dæmdir. Gissur Einarsson var vígður haustið 1542 í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn og eftir það var Jón Arason eini kaþólski biskupinn á Norðurlöndum. Jón Arason og Gissur Einarsson gerðu með sér griðarsamning ekki seinna en 1542 og héldu hann vel.
Biskupstíð Gissurar var erfið því hann þurfti að ráða niðurlögum gömlu kaþólsku siðanna og breyta kirkjusiðum eins og að prestar mættu giftast og messur skildu fara fram á móðurmálinu. Auk þess átti hann erfitt með að finna presta því að þeir sögðu af sér í stórum stíl.
Gissur biskup Einarsson lést árið 1548 og vilja sumir þakka honum fyrir það að engu íslensku blóði var úthellt í siðaskiptabaráttunni á meðan hann lifði.
Við lát Gissurar fór Jón Arason að hugsa sér til hreyfings og gerði för suður á land til að reyna að koma Skálholti aftur undir kaþólskan sið. Lútherskir höfðu kjörið Martein Einarsson til biskups en Jón Arason lét kaþólikka kjósa Sigvarð ábóta. Þeir héldu báðir utan til að fá vígslu og fengu misjafnar móttökur hjá konungi. Marteini var vel fagnað, og kom hann vígður aftur til landsins en Sigvarður var kyrrsettur í Danmörku og látinn nema fræði Lúthers.
Jón biskup sendi Þýskalandskeisara bréf og bað hann að þrýsta á Danakonung að Íslendingar fengju að halda trú sinni og biskupsefni fengju vígslu. Vegna bréfaskrifta Jóns sakaði Kristján III hann fyrir landráð og skipaði Daða Guðmundssyni í Snóksdal að handtaka hann. Marteinn var vígður til biskups árið 1549 og þegar hann kom til Íslands úr vígsluförinni færði hann landsmönnum boðskap konungs um meint landráð Jóns. Jón og synir hans létu ekki sjá sig á alþingi sumarið 1549 því þeim var kunnugt um boðskap konungs. Næsta sumar fóru þeir biskupssynir Ari og Björn með flokk manna til að handtaka Martein biskup, fluttu þeir hann síðan með sér til Hóla og höfðu í varðhaldi í eitt ár. Því næst víggirtu þeir Hóla og fóru síðan með 400 manna lið á alþingi.
Á alþingi réðu þeir lögum og lofum og var þeim dæmt forræði yfir Skálholti. Eftir þing hélt Jón til Skálholts, endurvígði staðinn, færði líkkistu Gissurar Einarssonar út fyrir lóð bæjarins og endurreisti munkaklaustrið í Viðey. Að þessum verkum loknum héldu þeir feðgar heim. Um haustið stefndu þeir Daða Guðmundssyni að Sauðafelli í Dölum undir lögmannsdóm.
Mættu Hólamenn með nokkurt lið og settust þar að, því næst bar Daða og menn hans að garði með álíka marga menn en hann lét menn sína tvímenna síðasta spölinn að bænum til að biskupsmenn héldu að þeir væru færri en þeir voru í raun. Í kirkjugarðinum varð knappur bardagi, þar báru Daði og menn hans með sigur úr bítum. Daði lét handtaka Jón og syni hans og hélt til Skálholts en þegar þangað var komið gátu menn ekki komið sér saman um hvar ætti að geyma feðgana um veturinn.
Það treysti sér enginn til þess að geyma þá hvorki Skálholtsmenn né fógetinn á Bessastöðum. Eftir áramót voru Norðlendinar nefnilega vanir að koma hundruðum saman suður til að róa þar til fiskjar og menn óttuðust að þeir myndu frelsa biskup sinn í leiðinni. Nú lögðu allir menn höfuðið í bleyti og segir sagan að ráðsmaðurinn í Skálholti hafi sagt: ,,öxin og jörðin geyma þá best.” Voru þeir síðan hálshöggnir án dóms og laga hinn 7. nóvember árið 1550. Árið eftir komu herskip konungs og þvinguðu Norðanmenn til að taka Lútherskan sið með eiðtöku á Oddeyri.
Norðanmenn hefndu Jóns og sona hans með því að drepa fógetann Kristján skrifara og alla Dani á Bessastöðum og nágrenni þeirra. Sumir segja að Þórunn dóttir Jóns hafi skipulagt þá för.
Þegar Lútherskur siður var komin á hér á landi eignaðist konungur allar eignir sem klaustrin höfðu átt og einnig varð hann yfirmaður kirkjunnar. Tekjur kirkjunnar runnu því beint til konungs. Eftir siðaskiptin má því segja að enginn útlendur aðili hafi áður haft svona mikil völd á Íslandi. Sjálfstæði Íslendinga var því enn þá minna en áður.
Allt þetta varð síðan til þess að lífskjör Íslendinga rýrnuðu, plágur gengu yfir, náttúruhamfarir eins og eldgos skall á ásamt því að veður fór kólnandi og kuldaskeið sem entist fram á 19 öld gekk í garð.