Inngangur

Í þessari ritgerð ætla ég aðeins að útskýra hugtakið kommúnismi. Ég mun fara ofan í saumana á því hvernig Kommúnistaflokkur Íslands varð til. Hann átti sér nefnilega frekar langann aðdraganda. Vonandi sýni ég líka fram á að íslensku kommúnistum hafi verið stjórnað beint frá Moskvu. Síðan ætla ég rétt að dreypa á því hví flokkurinn lognaðist út af og svo ætla ég að lokum aðeins að varpa fram mínum hugrenningum um efnið.



Upphaf Kommúnistaflokks Íslands

Árið 1917 gerðu bolsévíkar, undir forrystu Leníns byltingu, hina svokölluðu Októberbyltingu (Vinstri andstaðan, bls 1) og rændu völdum í Rússlandi. Aðhylltust bolsévíkar kommúnisma, sem er hugtak sprottið upp úr 19. aldar marxisma (EB, The origins of Soviet communism). Notuðu bolsévíkar hugtakið til að aðgreina sig frá sósíalistum en ekki síður til að leggja áherslu á stuðning sinn við byltingarsinnaðann marxisma (Ísl. alfræðiorðabókin H-O, bls 299). Eftir daga Leníns, sem hafði ofið sínar lífsskoðanir saman við marxismann varð til marx-lenínismi. Marx-lenínismi varð grunndvallarhugsjón kommúnista um allann heim (EB, Lenin, Vladimir Ilich). Stefnan boðaði kommúnískann úrvalsflokk, flokk sem skyldi tala máli verkalýðsins, uppfræða hann, afnema stéttaskiptingu og loks, bylta kapítalismanum (Ísl. alfræðiorðabókin H-O, bls 299 & 479). Hljómar alls ekki illa, allir jafnir og hafa hafa allt til alls. Hljómar meir að segja nokkuð vel.

Þessi hljómur barst hingað til lands. Ýmsir innan vébanda Alþýðuflokksins urðu fyrir áhrifum, aðallega flokksmenn í yngri kantinum (Vinstri andstaðan, bls 1). Hið svokallaða “drengsmál” markar síðan upphaf skipulagðrar starfsemi kommúnista á Íslandi (Kommúnistahreyfingin, bls 9). Málið snérist um ungann dreng, Nathan Friedmann sem var fóstursonur Ólafs Friðrikssonar alþýðuflokksmanns (Sókn og sigrar, bls 84). Landlæknir vildi senda piltinn úr landi gegn vilja Ólafs og fylgismanna hans, vegna alvarlegs augnsjúkdóms sem hann var talinn hafa. Pólitískur óþefur var af málinu og nú stóð stjórn Alþýðuflokksins á krossgötum með aðeins tvo valkosti. Myndu þeir velja þann fyrri, neita að afhenda drenginn og rísa upp gegn kúgun verkalýðsins og gera byltingu? Eða þann síðari, taka þessu þegjandi og hljóðalaust og reyna að fá sínu fram eftir friðsamlegum leiðum? (Liðsmenn Moskvu, bls 33) Flokkurinn valdi friðsamlegu leiðina og sló þannig á sama streng og jafnaðarmenn víða í Evrópu: „að fordæma ógnarstjórn og halda fram málstað lýðræðis“. Kommúnistahugsjónir í flestum evrópulöndum voru á undanhaldi, og verkafólk tók vestrænum lýðræðisvenjum opnum örmum og kusu þær í stað alræði eins flokks (Kommúnismi, bls 24-25). Ólafur ásamt hóp róttækra alþýðuflokksmanna neitaði hinsvegar að láta Nathan af hendi: „Kom til mikils liðsafnaðar af hálfu yfirvaldanna í sambandi við þetta mál og var drengurinn tekinn af Ólafi með lögregluvaldi, en Ólafur settur í varðhald um skeið”. (Sókn og sigrar, bls 84-85). Þeir sem höfðu verið í slagtogi með Ólafi voru einnig fangelsaðir. Eftir þetta ásökuðu hörðustu fylgismenn Ólafs með Hendrik Ottóson í broddi fylkingar, Alþýðuflokkinn um um að hafa brugðist, og Alþýðusambandið um heigulshátt: að þeir þyrðu ekki að takast á við höfuðandstæðinginn, auðvaldið! Stjórn flokksins hefði brugðist á ögurstundu. Ólafur og hans menn gengu þó ekki úr flokknum, heldur stofnuðu Áhugalið alþýðu. Félagið starfaði með algjörri leynd og með það að markmiði að yfirtaka Alþýðuflokkinn. Semsagt, leynileg kommúnistahreyfing sem hafði bækistöðvar sínar í kjallara Ólafs og meðlimir Áhugaliðsins í desember 1921 voru rúmlega 60 talsins (Kommúnistahreyfingin, bls 9: 10-12; 111-114). Hendrik vildi reyndar að félagið starfaði fyrir opnum tjöldum, en Ólafur vildi fara leynt og pólitísk herkænska hans borgaði sig þremur mánuðum seinna. Þá náði Áhugalið alþýðunnar völdum í Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur, eina pólitíska félagi Alþýðusambandsins. Áhugaliðarnir héldu uppi samskiptum við Moskvu og var boðið á 4. ársþing Komintern (Liðsmenn Moskvu, bls 34-35). Boð þetta olli hörðum deilum innann Jafnaðarmannafélagsins. Sósíaldemókratar í félaginu lögðust hart gegn því að sendur yrði fulltrúi (Kommúnistahreyfingin, bls 14-15). Á fundi félagsins þann 11. október 1922 lagði Hendrik Ottóson fram tillögu svo hljóðandi:

„Með því, að félaginu hefir borist frá 3. Kommúnista Internationale í Moskvu bréf þess efnis, að því sé boðið að senda einn fulltrúa á 4. alheimsþingið sem halda á í Moskvu og hefst 7. nóv. n.k., en þann dag eru liðin 5 ár síðan hin kúgaða rússnenska alþýða hristi af sér fjötra auðvaldsins, legg ég til að Jafnaðarmannafélagið kveðji til þeirrar farar formann sinn Ólaf Friðriksson ritstjóra. Sé honum einnig falið að flytja félögum vorum, skoðanabræðrum og samherjum þar eystra, kveðjur, árnaðaróskir og þakkir fyrir heillaríkt starf í þágu alþýðu allra landa. (Fundargerðabók J.r. 49. fundur 11. okt 1922)”

Þessi tillaga var samþykkt með 60 atkvæðum gegn 28 (Vinstri andstaðan, bls 27). Þá þegar tillagan hafði náð í gegn afhendi Jón Baldvinsson Ólafi skriflega úrsögn sína úr Jafnaðarmannafélaginu ásamt úrsögn 27 annarra sósíaldemókrata. Hendrik Ottóson sagði þetta skipulagðar úrsagnir og að klofningurinn hefði verið undirbúinn fyrirfram (Kommúnistahreyfingin, bls 14). Þeir sem gengu úr flokknum stofnuðu síðan Jafnaðarmannafélag Íslands. Þrátt fyrir klofningin störfuðu félögin áfram innan Alþýðusambands Íslands (Liðsmenn Moskvu, bls 35). Kommúnistar höfðu seilst eftir völdum, og fengið þau. Sigurvíma þeirra stóð þó ekki lengi og ágreinings fór að gæta stuttu eftir 11. október. Hendrik og félagar hans í róttækari kantinum fannst Ólafur vera „falskommi“ og ekki nógu „trúr stefnunni“. En jafnvel þó þeir hefðu þetta álit á honum vissu þeir líka að Ólafur naut gríðarlegs persónulegs stuðnings og var einn áhrifamesti maður verkalýðshreyfingarinnar (Vinstri andstaðan, bls 27). „Þeir vissu, að í hans stuðningsmannahóp urðu þeir að sækja máttinn til að ná lokatakmarki sínu, þ.e. að stofna kommúnistaflokk og taka völdin í verkalýðsfélögunum. (Kommúnistahreyfingin, bls 15)“ Þess vegna slitu þeir ekki samstarfinu við Ólaf, heldur stofnuðu Félag ungra kommúnista þann 23. nóvember 1922. Ólafur var þá staddur á 4. þingi Kominterns í Moskvu (Vinstri andstaðan, bls 27). Vinstri armur Alþýðusambandsins var þá hugmyndafræðilega klofinn. Félagar ungra kommúnista vildu starfa opinberlega sem kommúnistar, en Ólafur og hans menn vildu vinna leynilega að yfirtöku kommúnismans. Upp komu allnokkur deilumál en aðaldeilan var þó alltaf hvort ætti að starfa opinberlega, eða neðanjarðar (Kommúnistahreyfingin, bls 15-20; Vinstri andstaðan, bls 26-31).

Eftir nokkurra ára deilur sögðu kommúnistar loks skilið við Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur (Kommúnistahreyfingin bls 21). Reynt hafði verið að stilla til friðar á þessu tímabili, m.a. með stofnun hins miður langlífa Fræðslufélags kommúnista en allt kom fyrir ekki. Þessi svokallaði andstöðuarmur Alþýðuflokksins gat ekki starfað sem ein heild (Liðsmenn Moskvu, bls 38). Kommúnistarnir stofnuðu Jafnaðarmannafélag Spörtu árið 1926 og í annarri grein laga félagsins er ákvæði svohljóðandi: „Fjelagið vinnur að útbreiðslu jafnaðarstefnunnar á þeim grundvelli, er þeir lögðu, Karl Marx og Friedrich Engels. (Vinstri andstaðan, bls 34)“ Má því segja að fræinu hafi verið sáð, rauðleitt fræ sem síðan átti eftir að vaxa og verða að Kommúnistaflokki Íslands (hér eftir nefndur KFÍ). Þetta sama ár sóttu Spartverjar um inngöngu í Alþýðusambandið en umsókninni var hafnað. Reyndar var þetta leikur kattarins að músinni, því sósíaldemókratar höfðu margfalt atkvæðabolmagn á við kommúnista (Kommúnistahreyfingin, bls 22). Glöggir kommar sáu það líka að þeir voru ekkert á leiðinni að ná völdum innan Alþýðuflokksins. Einn af þessum glöggu kommum var ungur maður, Einar Olgeirsson, sem í mars 1927 skrifaði bréf til Moskvu. Það þóttu ekki tíðindi þegar ungir kommúnistar skrifuðu bréf þangað, nema hvað, að þetta bréf var stílað á Nikolai Búkharín. Búkharín var æðsti maður Komintern á þessum tíma. Í bréfinu sagði Einar frá því hvernig samvinnan við títtnefndann Ólaf hafði ekki borið árangur og að Ólafur væri vissulega ekki „lenínisti“. Einar sagði í bréfinu ð: „Kommúnistum væri því nauðugur einn kostur að stofna kommúnistaflokk.“ Á vordögum þetta sama ár barst síðan svar frá Moskvu. Framkvæmdastjórn Komintern ráðlagði Einari að bíða með stofnun Kommúnistaflokks hér á landi. Stjórnin vildi frekar að kommúnistar skipulegðu sig og héldu uppi róttækri andspyrnu í Alþýðusambandinu meðan unnt væri (Liðsmenn Moskvu, bls 40-41). Árið eftir sóttu tveir íslenskir kommúnistar ársþing Komintern. Á þinginu ræddu þeir við forráðamenn Alþjóðasambandsins um stofnun kommúnistaflokks á Íslandi. Komintern mönnum þótti íslenska kommúnistahreyfingin helst til of fámenn. „Var það því fastmælum bundið í Moskvu, að Íslendingarnir reyndu að styrkja stöðu sína og réðust síðan í flokksstofnun, helzt innan sex mánaða (Kommúnistahreyfingin, bls 25).“ Reyndar stóðust þessi tímamörk ekki. Um sumarið 1930 var það hinsvegar allljóst í hvað stefndi og gríðarleg pólitísk spenna var í loftinu (Kommúnistahreyfingin, bls 29). Það dró síðan til tíðinda á þingi Alþýðusambandsins haustið 1930. Þar lögðu kommúnistar fram tvær tillögur: að stofnað yrði sjálfstætt verkalýðssamband og að A.S.Í. starfaði samkvæmt stefnuskrá Profinterns, verkalýðsarms Kominterns. Báðar tillögurnar voru felldar, og ekki var látið þar við sitja, heldur var samþykkt í kjölfarið eftirfarandi tillaga: „að öllum félögum í jafnaðarmannafélögum yrði gert að undirrita stefnuskrá Alþýðuflokksins. Félögum í öðrum stjórnmálaflokkum var jafnframt bannað að vera í jafnaðarmannafélögum.“ Kommúnistar gengu af þinginu, enda lengi vitað að þeirra markmið var að stofna sinn eigin flokk (Liðsmenn Moskvu, bls 44-45). Stofnþing þess flokks var haldið í byrjun desember og sendi flokkurinn frá sér stefnuskrá þar sem áhersla var lögð á verkalýðsmálefni, sagði hún meðal annars: „höfuðnauðsyn, að safna hinum vinnandi lýð inn í stéttabaráttuna og félagsbinda hann… og sýna verkalýðnum stéttareðli hinna flokkanna, hvernig ríkisvaldinu er beitt gegn verkalýðnum (Öldin okkar 1901 – 1930, bls 288).“ Þar með höfðu Íslenskir kommúnistar loks eignast stjórnmálaflokk, líkt og skoðanabræður sínir víðsvegar um heim.




Komintern vísar veginn

Reyndar, á hinn boginn, væri líka hægt að segja að Stalín hafi þarna eignast her af strengjabrúðum, sem höfðu það að markmiði að fylgja og breiða út stefnu hans. Eftir stofnun KFÍ héldu flokksmenn uppi stöðugu sambandi við Komintern. Sendu skýrslur til Moskvu, sátu þing Komintern og skrifuðust á við ýmsa háttsetta menn í Alþjóðasambandinu (Kommúnistahreyfingin, bls 55). Stefna KFÍ samræmdist því algjörlega stefnu Komintern og því til stuðnings bendi ég á sjöttu grein laga flokksins, sem fjallar um skipulag hans og segir orðrétt: „Undirstjórnir flokksins og allir starfsmenn verða að viðurkenna og fylgja ákvörðun yfirstjórnanna. Strangur flokksagi og skjót og skilyrðislaus framkvæmd allra ákvarðana framkvæmdastjórnar Kominterns og flokksstjórnanna. (Kommúnistahreyfingin, bls 102)“ Þetta er í raun bara meigininntak Moskvutesanna, sem voru 21 skilyrði sem allir flokkar urðu að uppfylla til að fá inngöngu í Komintern. Þannig að, ef flokksmenn höfðu aðrar skoðanir en þær sem Komintern boðaði, var best fyrir þá að halda þeim út af fyrir sig. Stefán Pjetursson klikkaði á þessu þegar hann gekk svo langt að segja: „Komintern geta orðið á skyssur…“. Að sjálfsögðu var honum vikið úr flokknum ásamt Hendriki Ottósyni og Hauki Björnssyni en þeir höfðu líka farið út í sömu „vitleysuna“ og gagnrýnt stefnu Komintern á ýmsum sviðum (Liðsmenn Moskvu, bls 56). En ekki voru allir með svo harðar hreðjar að þeir þyrðu að gagnrýna Komintern og nær allir íslensku kommanna átu upp eftir Komintern eins og páfagaukar.

Það var staðföst trú þessara páfagauka að auðvaldshugsjónin hefði tangarhald á þjóðinni. Verkalýðurinn varð að rísa upp! Rísa upp gegn yfirstéttinni sem hafði kúgað, svikið og arðrænt hann öldum saman. Eina leiðin til frelsis var bylting! Sáu íslenskir kommúnistar byltinguna í Rússlandi málaða rauðum dýrðar litum og Sovétríkin sömuleiðis. Var það markmið KFÍ að verða hluti af Sovíetríkjunum. Taldi flokkurinn landið ekki geta orðið sjálfstætt fyrr. Besta leiðin til þessa sjálfstæðis var að hlýða Komintern eins og spakur hundur. (Í skugga, bls 14 og 22). Semsagt, afskrifa alla þá áfanga sem við sem þjóð höfðum náð í átt til sjálfstæðis sem drasl, og samþykja það að hlýða Komintern í einu og öllu. Vera innlimuð í Sovíetríkin, verða við allt þetta, sjálfstætt ríki. Sér einhver þversögnina?

Eins og ég sagði áðan samræmdist stefna KFÍ algjörlega stefnu Komintern. Er því í raun ekki um að ræða tvær stefnur, heldur eina stefnu. „Réttu stefnuna“. Þetta sést best á afstöðu KFÍ til sósíaldemókrata og nasista.

Íslenskir kommúnistar höfðu eins og áður segir reynt að starfa innan Alþýðuflokksins og ná yfirtökum í honum. En árið 1928 gaf Stalín upp alla von um að fá sósíaldemókrata í lið með sér. Stefnan var skýr. Átti nú að berjast af fullri hörku gegn sósíaldemókrötum, „höfuðstoð auðvaldsins“ (Vinstri andstaðan, bls 55-58). Íslenskir kommúnistar sem á þessum tíma störfuðu enn innan Alþýðuflokksins þræddu þó fína línu í þessum málum til að láta ekki reka sig úr flokknum. Gagnrýndu hann ekki en héldu hinsvegar uppi harðskeyttri gagnrýni á erlenda flokka sósíaldemókrata (Kommúnistahreyfingin, bls 24-26). Þeir voru í þeirra augum það sem í dag væri eflaust kallað „öxull hins illa“. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi áleit Komintern þá staldra stutt við stjórnvölin. Hitler væri bóla sem brátt spryngi og í millitíðinni myndi nasistaflokkurinn fæla kjósendur yfir til þýska kommúnistaflokksins. Þýski kommúnistaflokkurinn var sá sterkasti utan Sovíetríkjanna, og þar var því haldið opinberlega fram að kommúnistar eða sósíaldemókratar kæmust brátt til valda í Þýskalandi. Hérlendis fengu menn greinilega senda nótnabók rauða að lit, því þeir slóu á nákvæmlega sömu strengi og erlendir skoðanabræður þeirra. (Kommúnismi, bls 60-62). Tilviljun?

Árið 1935, á 7. þingi Komintern kom fram vægast sagt breytt stefna gagnvart nasistum, jafnvel mætti kalla hana stökkbreytta, svo breytt var hún. Eftir að starfsemi kommúnista var bönnuð í Þýskalandi og þeim smalað saman og þeir afteknir eða sendir til fangavistar áttaði Stalín sig á þeirri ógn sem nasisminn var. Ógn sem hinn útlægi Trotskí hafði varað við nokkrum árum áður (Kommúnismi, bls 61-62; 79-80). Komintern boðaði eftir fundinn nýja stefnu. Sósíaldemókratar voru ekki lengur höfuðóvinurinn. Þeir voru reyndar hinn nýji bandamaður þeirra í baráttunni gegn fasismanum (Liðsmenn Moskvu, bls 68-69). Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson sátu þetta sjöunda þing Komintern. Eftir að þeir komu heim með nýju línuna frá Moskvu í farteskinu var hún þýdd og staðfærð ef svo mætti að orði komast. (Kommúnismi, bls 80-81). Í fundarályktun frá fundi sem Félag ungra jafnaðarmanna stóð fyrir í nóvember á þessu ári segir síðan orðrétt: „Fundurinn lýsir yfir andúð sinni á fasismanum,… Fundurinn telur að eina leiðin til að verjast þessum auknu árásum innlends og erlends auðvalds, sé sameiginleg og samstillt barátta alþýðunnar. (Úr sögu KFÍ, bls 30-31)“

Kommúnistar litu líka fram hjá þeim ógnarverkum sem áttu sér stað bak við járntjaldið. Hreinsanir Stalíns voru réttlætanlegar, því þær stuðluðu að framgangi kommúnismans. Staðreyndir eins og að af þeim tæplega 2000 flokksmönnum sem sátu flokksþingið 1936 voru rúmlega 1100 skotnir á næstu árum, voru hunsaðar (Liðsmenn Moskvu, bls 79-84). Íslendingar þekktu menn sem fórust í hreinsunum Stalíns. Arne Munch-Pedersen var dani og góður kunningi Einars Olgeirssonar. Eftir að Arne hafði lofsamað sovíetskt réttarkerfi í ferð sinni um Ráðstjórnarríkin var hann ákærður fyrir „trotskíisma“ og njósnir. Hann var færður í fangageymslur þar sem hann lést úr vosbúð nokkrum árum síðar (Liðsmenn Moskvu, bls 67). Þó eru engar heimildir þess efnis að þessi hlið málsins hafi verið rædd í málgögnum kommúnisma hérlendis. Það er ekki laust við að maður hugsi, vildi KFÍ lúta stjórn Stalíns? Leiðtoga sem hafði endað líf milljóna manna (Ógnaröld kommúnismans)? Eða neitaði flokkurinn bara að trúa þessu? Afneitunin hélt áfram í frásögnum aðal málgagns kommúnista, Þjóðviljanum, af réttarhöldunum yfir Búkharín og félögum 1938. Fréttapistlarnir voru teknir nánast beint upp úr fréttaskeytum Komintern. Íslenskir kommúnistar trúðu því í blindni að þeir sem leiddir voru fyrir réttinn hefðu njósnað fyrir erlend ríki allt frá Októberbyltingunni. Óhugsandi var í þeirra augum að þeir hefðu verið pyntaðir til játningar. Skrif Morgunblaðsins um að hugsanlegt væri að játningunum hefði verið „landað“ með pyntingum töldu íslenskir kommúnistar fráleitt, bölvuð „moggalygi“! Seinna kom upp úr krafsinu að rússnenska öryggislögreglan, N.K.V.D. eins og hún hét á þessum árum, hefði pyntað Búkharín í þrjá mánuði samfleytt. Hún hafði auk þess í hótunum gegn fjölskyldu Búkharíns (Liðsmenn Moskvu, bls 80-85). Undarleg þessi afneitun, ekki satt?

Eftir að allt skipti um lit á 7.. þingi Komintern 1935 og allt varð leyfilegt til að berjast gegn fasismanum fóru liðsmenn KFÍ að lýta hýru auga til íslenskra vinstri manna og hugsanlegrar samvinnu. Árið 1936 sendi KFÍ Alþýðuflokknum opið bréf þar sem rætt var um samvinnu. Skoraði KFÍ á Alþýðuflokkinn að taka þátt í sameiningu vinstri afla á landinu (Liðsmenn Moskvu, bls 89). Það gerðist síðan í október 1938 að Héðinn Valdimarsson stofnaði ásamt fylgismönnum sínum „Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn“, skammstafað SAS. Héðni hafði í febrúar sama ár verið vikið úr Alþýðuflokknum fyrir að vera hlynntur vinstra samstarfi. KFÍ gekk í SAS. Þar grófu kommúnistar undan pólitísku orðspori Héðins, því þeim var í nöp við hann. Að lokum sátu kommúnistar svo einir að því fylgi sem Héðinn hafði fært flokknum (Kommúnismi, bls 82-86). Þar með má segja að sögu Kommúnistaflokks Íslands sé lokið, þó að kommúnistar hafi starfað áfram.



Að lokum vil ég segja þetta

Í lok ritgerða segist ég yfirleitt hafa stiklað á stóru um efnið, og það hef ég gert núna líka. Ég hef rennt lauslega í gegn um hvað hugtakið kommúnismi þýðir. Búinn að skoða hvernig Kommúnistaflokkur Íslands varð til, en hann átti sér langann aðdraganada. Mun lengri en í t.d. flestum Norðurlöndunum. Aðeins farið ofan í þungavigtar atriði hvað varðar stefnu KFÍ, reynt að sýna fram á tengsl við Moskvu og rakið endalok KFÍ. Tengsl við Moskvu eru síðan rækilega afhjúpuð í Rauðu bókinni – Leyniskýrslur SÍA . Bókin samanstendur af leynilegum skjölum sem Einar Olgeirsson vildi brennd. Heimdallur komst þó í skjölin áður en náðist að brenna þau og gaf þau út. Nokkuð skondið er í því samhengi að skoða æfiágrip Hjörleifs Guttormsonar, sem gengdi formennsku í SÍA um nokkurt skeið. Þar er hvergi minnst á þetta embætti hans (Starfsferill Hjörleifs Guttormssonar). Hefur hann, eins og fleiri, snúið baki við kommúnismanum.

En mér er líka spurn, hvers vegna er kommúnisminn oft litinn rómantískum augum? Ég spyr: Hvað hefur gerst þar sem kommúnistar hafa komist til valda, eða rænt þeim? Þeir hafa haldið þegnunum í greipum ógnarstjórnar og harðræðis! Andstæðinga sína hafa þeir fangelsað eða drepið! Bendi ég á múgmorð kommúnistastjórna í Sovíetríkjunum, Kína, Kambódíu, Norður-Kóreu og Víetnam í þessu samhengi auk kommúnista stjórna í einstökum ríkjum Austur-Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku. Samtals er talið að kommúnískar harðstjórnir beri ábyrgð á dauða 85-100 milljón manna! Kommúnistar hafa því verið ansi iðnir við að „halda óvinum fólksins niðri“ – „eins og skaðvænum skorkvikindum“ (Lenín). Til samanburðar er talið að nasisminn hafi sent 25 milljón manns í gröfina. Það er ein af ályktunum Svörtubókar kommúnismans að nasisminn og kommúnisminn séu hliðstæður en ekki andstæður. Ég held að það myndi sverta pólitískt mannorð Hjörleifs okkar Guttormssonar ef upp kæmist að hann hefði verið forsprakki nasista samtaka, eða bara hvaða stjórnmálamanns sem er. Semsagt, það að vera gamall kommúnisti er séð í kómísku ljósi á meðan gamlir nasistar þurfa nánast að flýja land vegna ofsókna, og orðspor þeirra svert. Hver man ekki eftir atvikinu með Edvarð, faðir Atla, núverandi landsliðsþjálfara í knattspyrnu. Fjölmiðlar hökkuðu hann í sig, vegna gruns um að hann ætti að baki nasíska fortíð og hann gat vart höfði sínu hallað. Gamlir kommar eru bara álitnir sérvitringar. Ég tek fram að ég er ekki að taka afstöðu, með hvorugu stjórnarfarinu. Ég er einungis að benda á þetta tvöfalda siðferði sem virðist vera í gangi. Það sem ég hef fyrir mér í þessari málsgrein er ritgerð Jakobs F. Ásgeirssonar um Svörtubók kommúnismans. Bókin var skrifuð í Frakklandi af 11 virtum sagnfræðingum og hefur vakið mikla athygli víða um heim.

Ég er alls ekki að segja að kommúnisminn sem slíkur sé slæmt stjórnarfar. Ádeila mín beinist að því hvernig það hefur verið notað. Mennirnir hafa misbeitt því, tekið sér of mikið vald, alræðisvald. Svo ég nú vitni í kennara hérna við skólann: „Vald spillir manninum og algjört vald spillir honum algjörlega! Takk fyrir lesturinn.



Heimildir

Arnór Hannibalsson: Kommúnismi og vinstri hreyfing á Íslandi. Helgafell, Reykjavík, 1964.

Árni Snævarr og Valdur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu, samskiptri íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1992.

Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Mál og menning, Reykjavík, 1980.

Fundargerðabók J.r. 49. fundur 11. okt 1922.
Milliheimild: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum á árunum 1926-1930. Fagkrítíska útgáfan Framlag, Reykjavík, 1979.

Gils Guðmundsson: Öldin okkar, minnisverð tíðindi 1901-1930. Forlagið Iðunn, Reykjavík, 1950.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum á árunum 1926-1930. Fagkrítíska útgáfan Framlag, Reykjavík, 1979.

Ingólfur Á. Jóhannesson: Úr sögu Kommúnistaflokks Íslands. Gefin út á kostnað höfundar, Reykjavík, 1980.
Milliheimild: Svavar Jósefsson: Sovétríkin og íslenskir kommúnistar á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Ritgerð við HÍ. Ártal Óþekkt.

Íslenska alfræðiorðabókin, H-O. Örn og Örlygur, Antwerpen, 1990.

Jakob F. Ásgeirsson: Ógnaröld kommúnismans. Ritgerð við HÍ. Ártal óþekkt.

Rauða bókin, leyniskýrslur SÍA. Þór Sigfússon sá um útgáfu. Heimdallur, Reykjavík, 1984.

Svavar Jósefsson: Sovétríkin og íslenskir kommúnistar á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Ritgerð við HÍ. Ártal Óþekkt.

Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1979.

Þórarinn Þórarinsson: Sókn og sigrar, saga Framsóknarflokksins – Fyrra bindi. Framsóknarflokkurinn, Reykjavík, 1966.


Raf-heimild: Lenin, Vladimir Ilich. Encyclopedia Britannica. Skoðað 10. okt. 2002.

Raf-heimild: The Origins of Soviet Communism. Encyclopedia Britannica. Skoðað 10. okt. 2002.

Raf-heimild: Starfsferill Hjörleifs Guttormssonar: http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=254. Skoðað 25. okt. 2002.






——

Jæja, hvað segiði?