Búin að vera ansi busy vika hjá mér, meira en nóg að gera í skólanum og svona í tilefni af því að ég er komin með upp í kok af sálfræðibókunum ákvað ég að setjast aðeins niður og reyna að koma frá mér eins og einni grein. Það er þvílík blíða hérna á norðurlandinu og allir í sólskinsskapi, svo ég ákvað að skella inn einnu niðurdrepandi grein :). Við vinahópurinn leiddumst semsagt útí þá umræðu um daginn um hvað það er erfitt að taka fyrstu skrefin í að verða „fullorðin“. Við erum nú öll orðin sjálfráða og nokkrir vel það en okkur finnst við enn vera aðeins krakkar stundum. Ætla að deila smá sögu með ykkur sem strákur úr hópnum ákvað að deila með okkur.

Það er semsagt þannig að hann byrjaði með stelpu þegar hann var 14 ára og hún 13. Þau gerðu nú lítið annað en að haldast bara í hendur og fara saman í bíó eða þess háttar, en samt sagðist hann viss um að hún væri „sú eina“. Þegar hann varð 16 voru þau enn saman og urðu þá aðeins nánari. Nú, þarna kom að því að hann þurfti að flytja til að fara í framhaldsskóla og þá var stór ákvörðun að taka fyrir ungar og saklausar sálir. Halda áfram sambandinu á sitthvorum staðnum, hann með nýju fólki á nýjum stað og hún ein eftir, eða hætta? Þau ákváðu að láta reyna aðeins á sambandið og halda því áfram, þrátt fyrir miklar vegalengdir á milli. Í fyrstu gekk allt mjög vel, hann kom heim nánast hverja helgi til að hitta hana og þau hringdust daglega á. Með tímanum hinsvegar var eins og það gleymdist bara að taka upp símann og það leiddi til óþarfa sárinda og rifrilda. Þegar loksins kom að því að hún kom einnig í skólann var eins og öll glóð væri horfin og þau hættu saman í illu.
Með tímanum byrjuðu þau þó að tala saman aftur og byrjuðu loks saman á ný, hann orðinn 18. Sambandið gekk stirðlega en þau vildu halda áfram, bæði yfir sig ástfangin og „ung og vitlaus“ eins og hann orðaði það sjálfur. Daginn sem hann útskrifast trúlofa þau sig og hann ákveður að taka sér pásu frá skóla í eitt ár og vinna meðan hann bíður eftir að hún útskrifist. Árið líður hratt og hún útskrifast en leiðir þeirra liggja í sitthvorn háskólann, hún komst í skóla í Danmörku en hann vildi ekkert fara. Önnur stór ákvörðun og aftur ákveða þau að láta reyna á sambandið. Hann segir það stærstu mistök lífs síns. Hann hafi aldrei orðið eins sár og reiður og afbrýðisamur og þegar hún var úti en ekki hann og aftur hætta þau saman í sárindum. Hún virðist þó ekki hafa getað sagt alveg skilið við hann, hún flytur heim, talar við hann og þau byrja aftur saman. Aðeins mánuður líður þó áður en hún játar framhjáhald meðan hún var úti og þau hætta saman, í góðu reyndar, en halda engu sambandi í dag.


Fjarsamband er aðeins ein af fjölmörgum ákvörðunum sem þarf að taka þegar maður verður „fullorðinn“. Hann segir að hann hafi hreinlega ekki verið nógu reiðubúinn andlega til að takast á við þetta, að aldur segi ekkert til um þroskann á þessum aldri. Ég er reyndar upp að vissu marki sammála, þótt við höfum leiðst út í smá þrætur um akkúrat þetta :)

Pointið með þessu öllu hjá mér er að hugsa sig vel og vandlega um áður en svona ákvarðanir eru teknar, fjarsambönd, flytja inn saman…er maður í raun og veru reiðubúinn ? Auðvitað er maður smeykur, við erum nú aðeins mannleg, og svona ákvarðanir gera oft verið sárar og leiðinlegar. Þessi saga átti þó alls ekki að hræða neinn frá fjarsambandi, það er fullt af fólki sem lætur þetta ganga og er mjög hamingjusamt, þau tvö voru bara ekki reiðubúin í þetta.

Öll sambönd krefjast vinnu og maður verður bara að vera reiðubúinn að leggja hana á sig.