Kæru hugarar og rómantíkusar mínir með meiru.

Nú er því miður komið að því að ég verð að kveðja /romantik sem hjálparaðili. Ástæðurnar fyrir þessu eru nokkrar, en þær helstu eru spurning um siðferði.

Þegar ég byrjaði á Huga með aðstoð var ég einungis sálfræðinemi. Í þessi þrjú ár sem ég hef verið að aðstoða notendur hef ég verið í B.A. námi mínu þangað til ég lauk því síðasta vor og fékk þar af leiðandi gráðu mína. Það sem gerist þá er að um leið og ég er kominn með sálfræðimenntun fell ég undir siðareglur Sálfræðingafélags Íslands.

Nú skulu þið vera viss um að ég er ekki að tala um að ég sé að gera hér eða hafi gert eitthvað ósiðlegt. Ég held að ég hafi ávallt gert það sem rétt skal kalla er kemur að siðferði og tel að þið sem notendur Huga hafið ekkert annað um mig að segja. Allavega hef ég aldrei fengið kvörtun eða annars konar ávítanir fyrir að hafa brotið undan siðferðislegum skyldum mínum.

Hver er þá ástæðan fyrir þessu?

Hún er sú að í raun eru ekki til siðferðisleg lög fyrir internetið. Hvað má og hvað má ekki gera á internetinu er ekki enn komið í ljós þegar kemur að sérfræðingum á sínu sviði (t.d. sálfræðingum, læknum, o.s.frv.). Með það að leiðarljósi er það óskynsamlegt fyrir mig og mína framtíð að halda áfram að aðstoða hér á Huga ekki vitandi hvort eitthvað sem ég geri eða gæti gert ætti eftir að koma illa við mína framtíðar stétt og stéttarfélag (sálfræðingafélagið).

Mörgum gæti fundist það asnalegt að einstaklingur sem vill einungis hjálpa gæti lent „illa í því“. Það er þó skynsemi að baki þessu. Siðferði er kemur að einstaklingum sem vinna með skjólstæðinga/sjúklinga þurfa að hætta sér út á mjög grátt svæði oft á tíð er kemur að hinum ýmsu aðstæðum og vandamálum og er því best að hafa lögin á bak við sig í þeim efnum (kynnið ykkur endilega siðareglur Sálfræðingafélags Íslands ef þið viljið hafa á hreinu hversu flókin dæmi geta átt í hlut). Með þetta í huga, sem og löngun mína til að tryggja þá framtíð að ég fái að vera sálfræðingur með gott orðspor á mér í framtíðinni, tel ég að skynsamast sé að enda aðstoð mína á Huga með öllu og eiga þá frekar fullkominn og öruggan séns á að geta veitt ykkur sem og öðrum aðstoð eftir tæp tvö ár þegar ég hef lokið klínískri mastersgráðu minni.

Annað sem kemur að þessu er að nú er ég ekki lengur bara „maður í sálfræðinámi“ að veita fólki skynsemisráð, heldur einstaklingur með sálfræðilega menntun að baki (þrátt fyrir að ég sé ekki enn orðinn klínískur sálfræðingur). Þetta gerir það að verkum að nú fer fólk meðvitað og/eða ómeðvitað að taka ráðum mínum sem bókstaflegum fagráðum, en það eru þau ekki. Sálfræðingar vinna á mun víðara sviði en „skynsemi og ráðleggingum án frekari gagna“ og verk þeirra felast í mun flóknari og fræðilegri aðferðum en ég beiti og hef nokkurn tímann beitt á þessari síðu. Því er það ekki sniðugt fyrir mig að halda áfram slíkum ráðleggingum svo að ekki komi upp slíkur misskilningur. Ég hef heyrt fólk vitna í mig sem sálfræðing og annað slíkt og það einfaldlega gengur ekki – en er fullkomlega skiljanlegt (fólk getur ekki gert fullkominn greinarmun á því sem það hefur ekki fullkomna vitneskju um). En með það í huga sé ég mér ekki lengur fært að halda þessu áfram.

Í þriðja lagi er þetta spurning um „ókeypis ráðleggingar“ sem eintaklingur með sálfræðimenntun. Ég má gefa ráð eins og ég vil sem húsasmiður, pípulagningarmaður o.sfrv.; jafnvel sem læknir og hjúkrunarkona. En sem verðandi sálfræðingur felst starf okkar, meðal (margs) annars, í ráðleggingum. Sem einn þáttur af atvinnunni sem slíkri er ekki skynsamlegt að halda áfram að „gefa“ slík ráð þar sem það gæti komið illa við það fólk sem einmitt hefur atvinnu af slíku (mjög skiljanlega).

Þetta hljómar kannski undarlega, jafnvel asnalega – en hugsið málið. Hvort er betra að það sé til fólk sem hefur atvinnu af því að veita öðrum sálfræðilega aðstoð í formi ráða og aðferða, eða ekki; að það sé einungis til fólk sem gerir það af og til í frítíma sínum án nokkurra fræða á bak við sig? Ef þið eruð ánægð með tilvist sálfræðinga sem fagstéttar verðið þið að samþykkja sem slíkt að það sé ákveðið vinnusiðferði gegn því að gefa frá sér fagaðstoð sína þegar maður er orðinn partur af ákveðinni stétt.

——————————————————-

Mér þykir leitt að kveðja ykkur svona því ég hef notið þess mikið að aðstoða og ráðleggja ykkur í gegnum árin. Ekkert gefur manni meiri ánægju en að vita að aðstoð manns hafi orðið öðrum til hjálpar. En ég ætla að gera mitt besta í því að vinna að því markmiði að verða sálfræðingur og þá mögulega geta aðstoða ykkur jafnt sem aðra á 100% faglegum grundvelli með öllum þeim tækjum, aðferðum og tólum sem sálfræðingar hafa til taks. Slík aðstoð er mun faglegri og í raun mun gagnlegri og varanlegri heldur en nokkurn tímann mínar ráðleggingar í gegnum netið.

Þó ætla ég að vona að ég sjái ykkur aldrei á stofu hjá mér í framtíðinni eða á spítala, því það þýðir frekar en ella að þið séuð við hestaheilsu andlega :)

Ég get sagt ykkur að þetta er mér ekki auðvelt. Það er erfitt að setja svona á bak við sig eftir þetta mörg ár – eitthvað sem maður hefur ávallt tekið sér tíma til að gera og fundið í því ánægju að gefa af sér. Ég á eftir að sakna þess mikið.

Ég mun þó áfram vera yfirstjórnandi á Huga, allavega um hríð og þegar tími leyfir.

Hafið það sem allra best, verið dugleg að koma með eins ítarleg og greinargóð svör eins og þið getið fyrir hvort annað.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli