Nafnlaust, takk.

Það vill svo til að ég kynntist frábærri stelpu um seinustu helgi. Hún er gullfalleg, skemmtileg og fyndin. Mér líður vel í kringum hana og treysti henni vel.
Þetta byrjaði allt á því að hún hafði áhuga á mér og fór að spjalla við mig og auðvitað fór ég með þetta lengra þar sem mér leist afar vel á hana. Svo eina nóttina þegar við vorum bara eitthvað að chilla og spjalla kyssir hún mig, sem er auðvitað frábært, og við kyssumst heillengi og næstu nótt göngum við aðeins lengra (vona að þetta krefjist engra útskýringa).

Allt í góðu með þetta allt en vandamálið mitt er að á öllum þessum tíma fékk ég aldrei þessi margumtöluðu fiðrildi í magann. Ekki eitt einasta skipti. Ég varð aldrei stressaður né neitt rosalega spenntur. Þegar ég er án hennar langar mig að hitta hana og sakna hennar en samt fæ ég aldrei fiðrildin. Þetta skapar óþægindi fyrir mig td. þegar hún segist vera með fiðrildi í maganum. Þá finnst mér eitthvað vanta hjá mér.

Mér þykir þetta rosalega leitt og var að velta því fyrir mér hvort þið gætuð veitt mér einhver ráð eða hjálpað mér?


Ég sakna fiðrildanna :(

————————————————————————————-

Sæll [nafnlaus].

Hin margumtöluðu „fiðrildi“ enn einu sinni á ferðinni.

Í minni skoðun er tvennt sem þú þarft að hafa í huga.

Í fyrsta lagi hafa „fiðrildin“ sjálf að mínu mati mun meira með reynsluleysi að gera en eitthvað annað. Þegar þú eldist og samskipti kynjanna eru ekki lengur eitthvað glænýtt og spennandi muntu jafnvel aldrei finna fyrir þeim aftur, því sama hversu hrifinn þú verður eru „fiðrildin“ að mínu mati af allt öðru meiði og hafa ekkert með ást eða hrifningu að gera.

Tökum fallhlífarstökk sem dæmi. Í fyrsta skipti sem þú myndir hoppa út úr flugvél væriru með tilfinningu sem samsvarar að mörgu leyti hinum umræddu „fiðrildum“, s.s. sú gífurlega spenna að takast á við eitthvað nýtt og framandi. Eftir 20 stökk hinsvegar væru „fiðrildin“ tengd því farin, en ánægjan við stökkið gæti verið enn nákvæmlega jafn mikill, ef ekki mikið meiri þar sem þú værir ánægður með upplifunina sem fylgir því og hefðir óendanlega gaman af því.

S.s. fiðrildin hafa með nýjungatilfinninguna að gera, ekki hina raunverulegu ást og/eða hrifningu sem á sér stað. Ekki gráta þessa tilfinningu eins og sumir eiga það til að gera. Svoleiðis fólk endar oftar en ekki á því að hoppa á milli sambanda, leitandi og leitandi að hinum umræddu „fiðrildum“ – jafnvel gefst upp á frábærum og yndislegum mökum einungis vegna þess að það telur að þar sem „fiðrildin“ séu ekki til staðar sé lítið varið í sambandið sjálft. Svo kemur það náttúrulega engum á óvart þegar slíkt fólk finnur ekki „fiðrildin“ aftur og endar í annað hvort sambandi með einhverjum bara til að vera með einhverjum, eða það endar eitt á báti.

Í öðru lagi er eitt sem þú skalt hafa í huga með hin umtöluðu „fiðrildi“. Við sem þjóð erum orðin gegnumsýrð af bandarískum bíómyndum (sem skal frekar kalla ævintýri eins og „Lord of the Rings“ fremur en vitnun í eitthvað sem mun kallast raunveruleiki) um hvað ást er og hvað ást skal vera. Sem dæmi eru þessar endalausu hugmyndir að ástin og samskipti kynjanna séu ekkert annað en beint frá guði komin og fólk jafnvel býst við að tónlist af himnum ofan fari í gang þegar það kyssist í fyrsta skipti. Við sem skynsamar verur verðum að vera á varðbergi gagnvart svona vitleysu og gera okkur grein fyrir því að það er ekkert nema della og vitleysa að taka einhverjar sykurhúðaðar englaryks hugmyndir um ástina frá bíómyndum eða öðrum fjölmiðlum sem snúast um upplifunina í stað raunveruleikans sem fordæmi um hvernig hlutir skulu eiga sér stað í daglegu lífi.

Þessi stúlka sem þú lýsir í bréfi þínu hljómar frábær og upplifun þín með henni æðisleg. Hættu að hugsa um einhver ímynduð „fiðrildi“ sem eru allt annað en einhver mælikvarði á það hvort þú hafir fundið góða stúlku til láta á reyna með í samskiptum kynjanna.

Þessi „fiðrildi“ eru útsendarar nýjungagirninnar og láta sig hverfa um leið og þú ert komin með örlitla upplifun af atburðinum (mismunandi hversu lengi þau taka í að láta sig hverfa milli einstaklinga, en ávallt hverfa þau) - og ekkert annað!

Það eru eflaust einhverjir þarna úti sem eiga eftir að vera þessu ósammála og segjast fá „fiðrildi“ í hvert skipti sem þau byrja í sambandi. Fyrir jafnt þig sem þá skulu þið virkilega hugsa ykkur um hver ykkar skilgreining á hvað „fiðrildi“ er og hvernig þið ætlið að bera saman þessar tilfinningar og segjast hafa hana, eða ekki. Hjá þeim sem telja að þeir fái hana alltaf tel ég að þar sé um „fiðrildi hrifningarinnar“ að ræða, en í þessu dæmi, sem og öðrum þar sem fólki finnst það finna einhvern frábæran en finnst þrátt fyrir það alltaf eitthvað vanta; þá er um „fiðrildi nýjungagirninnar“ að ræða.

Já – að mínu mati eru til allskonar fiðrildi og mismunandi ástæður fyrir að þau flögri um í maga okkar :)

Enginn sagði að þetta væri auðvelt.