Hvort og hvenær skal upplýsa? - S9 Nú er ég í þeim aðstæðum að eiga barn úr fyrra sambandi þar sem móðirin yrðir ekki á mig en jafnframt hefur ekki barnið til umsjónar og fær lítið að hitta það lítið sem ekkert og það er þess vegna í fóstri hjá hlutlausum aðilum.

Mínar áhyggjur snúast út í bæði það að ég þurfi að segja barninu að hverju þetta hafi endað svona, ég er rosa hræddur um að fá spurninguna “þykir þér ekki nógu vænt um mig” seinna þegar það verður eldra og getað ekki svarað án þess að þurfa útskýra alla sólarsöguna á bak við að hverju hún hefði alist upp hjá fósturforeldrum en ekki hjá mér eða mömmu sinni og sú saga er ekki fögur.

Og þá liggur spurningin í því hvort ég ætti að segja barninu hvað gerðist og hvaða aldur ég ætti að miða vid?
————————————————————–

Sæll [nafnlaus].

Til að byrja með vil ég taka fram að hér erum við ekki alveg á mínu sérsviði, ef svo má segja – og vil því að þú takir svari mínu með þeim fyrirvara. Mundu einnig sérstaklega vel að hér er ég einungis að koma með mína skoðun byggða á engri reynslu. En mína skoðun skal ég gefa samt sem áður.

Ég er á þeirri trú að barn skuli ávallt fá að heyra sannleikann, en þó í skömmtum. Að komast að einhverju allt í einu seint á unglingsárum, sem dæmi (s.s. engar upplýsingar), getur reynst mörgum of mikil sprengja sem getur valdið ákveðnu „trauma“ og ráðlegg ég að þú farir ekki þá leið.

Ég myndi stíla upplýsingaflæðið eftir barninu sjálfu ef ég væri þú. Svona rétt um sinn á meðan það er ungt og spyr engra spurninga þarftu ekki að segja neitt. En um leið og barnið fer að spyrja alls þess er þú óttast þarftu að bregðast rétt við.

Fyrstu spurningum myndi ég svara á þennan máta (nú veit ég ekki hverjar spurningarnar verða en vil gefa þér dæmi um þann svarhátt sem ég myndi nota): „Mömmu og pabba þykir rosalega vænt um þig ástin mín. Við áttum hinsvegar erfitt með okkar líf þegar þú varst yngri – og þegar þú komst í heiminn, saklaust lítið barn, vildum við tryggja að þú fengir gott uppeldi. Þess vegna ólstu upp hjá X og X – sem elska þig líka mjög mikið. Við elskum þig öll, bæði X og X – og líka ég og mamma þín. Þetta var allt gert þér fyrir bestu þar sem ég og mamma þín áttum bágt.“ [o.s.frv.]

Dæmið hér fyrir ofan er sú útgáfa sem ég ráðlegg að þú gefir mjög ungu barni með fyrstu spurningar. Þarna þarftu ekki að útskýra söguna, heldur einungis gefa lágmarks upplýsingar varðandi það sem átti sér stað, sem þó útskýrir nægilega mikið til að seðja fyrstu forvitni.

Fleiri spurningar og nákvæmari munu þó líklega poppa upp með aldrinum. Það sem ég ráðlegg þér að gera þá er að vega og meta aldur barnsins eftir spurningunni. Gefðu því aðeins meiri upplýsingar með aldrinum, lítið í einu. Ef það krefst upplýsinga hinsvegar myndi ég ekki neita að svara. Það er mín skoðun að það skaði meira að halda upplýsingum frá barni heldur en að veita þær, ef með fylgir nákvæm og greinargóð fræðsla um það hversu flókið líf fullorðinna virkilega er, sett fram á viðeigandi formi fyrir aldur barnsins. Ef barnið er orðið það fullorðið að það sé farið að skilja þörfina í sjálfu sér til að vita hvað átti sér stað, er komið með grundvallar hugmynd um hvað þeir þættir sem áttu sér stað í sögu ykkar þýða og merkja, er það tilbúið að fá að heyra sannleikann að mínu mati.

—————————————————————————————-

Börn eru ótrúlega sveigjanleg og skilningsrík. Þau treysta á foreldra sína til að vera þeim ljós skynseminnar og traustsins. Ef þið brjótið aldrei það traust sem barnið ykkar hefur á ykkur mun það samþykkja ykkur nánast sama hvaða upplýsingar þið þurfið að gera barni ykkar ljóst um ykkur, enda eru þið mikilvægustu manneskjur í lífi þeirra. Hugsunin verður því undirmeðvitað „ef mamma og pabbi lentu í þessu geta allir lent í þessu“.

Munið þó að þar sem þetta verður fyrsta upplifun barnsins af slíkum upplýsingum er gífurlega mikilvægt að skynsöm og lýsandi útskýring og fræðsla fylgi (þó ekki of mikil og flókin, heldur einungis nægileg til að svara öllum spurningum þannig að barnið sé sátt með svarið. Ef barnið vill ítarlegri upplýsingar munu þær spurningar koma fram þegar barnið hefur skilning fyrir að spurja þær). Þar sem þetta verða fyrstu upplýsingar barnsins mun það nota þessa fræðslu sem sniðmát fyrir allar upplýsingar af svipuðu meiði (börn eru svampur á upplýsingar) sem það mun komast í kast við í framtíðinni. Einmitt þess vegna skiptir öllu að fræðslan sé skynsöm, lýsandi og sé veitt barninu undir verndarvæng foreldris/helsta umönnunaraðila.

Vonandi varpar þetta ljósi á spekúlasjónir þínar. Mundu bara að ef þú sinnir foreldrahlutverkinu með skynsemi og af ástúð mun barnið þitt elska þig og virða þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið. Mundu bara að undirbúa þig sem allra best fyrir þá fræðslu sem þú átt fyrir höndum einn daginn.

Gangi þér vel.