(Nafnlaust, takk.)

Ég er 17 ára strákur og ég hef aldrei átt kærustu. Ég hef aldrei verið mikið að reyna að eignast kærustu ef svo má segja, annað en margir aðrir gera á þessum árum.

Í vor kynntist ég hins vegar stelpu einu ári yngri en ég. Það var ég sem braut ísinn og einfaldlega hóf samræður við hana, sem er alveg andstætt mínum persónuleika þar sem ég er frekar hlédræg og óframfærin manneskja. Hún hefur aldrei verið mikið inn í ástarmálum heldur (er ég 99,9% viss um).

Við spjölluðum oft saman í hádegishléum í skólanum og heilsuðumst á göngunum. Einn daginn gerði ég nokkuð sem ég hafði aldrei þorað að gera áður og spurði um msnið hennar. Hún sagði mér það, ekkert mál, og það var ólýsanlegur léttir að heyra það. Við spjölluðum frekar lítið á netinu þrátt fyrir það, þó aðallega vegna þess að hún er voða lítið online.

Ég ætlaði að reyna að halda sambandi við hana í sumar en það hefur ekki gengið upp. Ég hef bara reynt einu sinni eða tvisvar að tala við hana á msn en hún svaraði ekki. Ég hef sem sagt ekki mikið reynt, en ég held að ástæðan sé helst bölsýni í sjálfum mér; “hún hefur engan áhuga, af hverju er ég að reyna”, sem leiðir einmitt að vandamálinu sjálfu:

Ég veit EKKERT hvað henni finnst um mig.

Þess vegna á ég erfitt með að reyna að fara með þetta eitthvað lengra, eins og að bjóða henni að gera eitthvað. Ég veit ekki hvort hún líti á mig sem vin, hvort hún sé hrifin af mér eða hvort hún vilji yfirleitt nokkuð með mig hafa.

Ég hef mikið hugsað um þetta og þá meina ég mikið. Hugsanlega svo mikið að ég er farinn að ímynda mér hluti sem eru alveg örugglega bölvuð vitleysa.

Það er erfitt að útskýra þetta… hún hefur sent ýmis “skilaboð”, en þau eru svo tvíræð.

Jákvæð skilaboð: Hún gaf mér msnið sitt (vildi ekki særa mig?), hún hefur ekki gefið nein SKÝR neikvæð skilaboð í minn garð (kurteis?), hún hefur brosað til mín á göngunum (ég misskilið?), hún hefur sest hjá mér í hádegishléi…
Neikvæð skilaboð: Hún hefur óheyrilega sjaldan hafið samræður að fyrra bragði í skólanum og aldrei á netinu (hlédræg, feimin?), einu sinni sat ég einn við borð í mötuneytinu og las í bók en hún settist ein á næsta borð í stað þess að setjast hjá mér (tillitssöm, vildi ekki trufla lesturinn?), hún hefur ekkert reynt að hafa samband við mig í sumar (svartsýni, líkt og ég?)…

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er alveg pottþétt að gera mér einhverjar grillur, en ég á erfitt með að dæma um það sjálfur hvort grillurnar beini mér í átt að of neikvæðu sjónarmiði eða of jákvæðu. Ég er að reyna að finna út hvað henni finnst en skilaboðin benda bara hingað og þangað og það fer bara eftir dögum hvort túlkanir mínar sýni mér að þetta gæti gengið lengra eða hvort að þetta sé algjör botngata.

Ég vildi að ég gæti lesið hugsanir…

Með von um svör sem gætu lýst upp veginn sem ég sé ekki handaskil á,
Nafnlaus

———————————————————

Sæll nafnlaus.

Já, ég skil vanda þinn. Að reyna að lesa endalaust á milli lína líkt og þú ert að gera núna er eitthvað sem fólk byrjar oft á þegar það er að taka sín fyrstu skref út í samskipti kynjanna. Málið er einfaldlega það, að nema þú getir lesið hugsanir muntu aldrei fá þessi „skýru“ svör sem þú ert að bíða eftir að komi í ljós einn daginn.

Við sem félagsverur og sjálfstæðir einstaklingar erum gífurlega flókin. Trilljón (ofan á trilljón) hlutir mynda okkur og móta, nánast daglega, sem gerir það að verkum að mjög erfitt getur reynst að „lesa“ út hvernig fólki finnst um einn hlut eða annann. Reynslan og árin gera það léttara að skilja ákveðið mynstur í hegðunarferli annarra, en því miður er sú reynsla ekki eitthvað sem ég get „kennt“ sísvona. En hvað er þá hægt að gera fyrir þig?

Það er eitt sem við verðum að fatta; eitthvað sem nánast allir vita en eru ekki tilbúnir að gera sísvona fyrr en þeir eru búnir að prufa allt annað í bókinni (s.s. maður verður að taka stóra skrefið, opna sig og láta allir varnir niður falla, með því að gera það hreint hver vilji manns er). En það ferli er einmitt eitthvað sem má við búast og er stór partur af því sem við köllum „reynslu“ með aldrinum.

En til þess að aðstoða þig hér og nú get ég sagt þér, að þú munt aldrei komast að því hvað þessi stúlka er að hugsa nema að þú leggir sjálfan þig á línuna. Stundum, sérstaklega áður en reynsla í daðri/merkjum og skilningi báðum megin við borðið hefur náð að þroskast og mótast, er nauðsynlegt að taka dramatískara skref í áttina að slíkum samskiptum en nauðsyn liggur fyrir á eldri árum. Annað hvort kann yngra fólk ekki hina miklu list að daðra með huga jafnt sem líkama, eða það einfaldlega hefur ekki reynsluna til að skilja að verið sé að daðra við þau (eftir því hvoru megin við borðið maður er).

Annar hlutur spilar inn í, sem er sjálftraustið mikilvæga. Þú getur gert þessa stúlku, sem núna þykir þú örugglega ágætis gaur og sæmilega myndarlegur, í stúlku sem er að deyja úr hrifningu af þér í alla staði, bara ef þú kannt að brúka sjálfstraustið. Sjálfstraustið er allt.

Það sem þú skalt byrja á að gera er að finna allar leiðir sem þú mögulega getur notað til þess að geta horft í spegilinn og hugsað „ég er skemmtilegur, sexy og gáfaður og hvaða stúlka sem er væri heppin að eiga mig“. Mundu þó að það er munur á milli heilbrigðs egó og of mikils egó (ef egóið fer að snúast út í það að þú ert „of góður“ fyrir hina og þessa er það orðið of mikið).

Þegar þú hefur unnið í þeim leiðum þar sem þú getur híft egóið þitt upp á þetta svæði, er ekkert eftir nema að bjóða henni í bíltúr, kaffihús, gönguferð, party o.s.frv..

Fyrr eða síðar þarftu að stíga skrefið örlagaríka og gefa henni hreint merki um það að þú hefur áhuga, það er ekki hægt að komast hjá því, sérstaklega ekki þegar maður er óreyndur í þeim aðferðum sem fólk þróar með sér til þess að gera allt ferlið aðeins auðveldara (daður o.s.frv.).

Líttu á þetta sem reynslu, rétt eins og að keyra bíl. Hugsaðu „hvað með það þótt mér verði hafnað? Þá gengur bara betur næst“ - og trúðu mér, það verður að öllum líkindum „næst“, hvort sem þessi stelpa á eftir að taka vel í boð þitt eður ei.

Ég legg til að þú lesir þessa grein (smelltu á eftirfarandi texta): Hvernig skal nálgast hitt kynið; ráðleggingar fyrir bæði kynin.

Í þessari grein eru ýmsir punktar sem mögulega ættu að koma þér að notum sem og ættu að flýta fyrir ferlinu.

Gangi þér sem allra best – og mundu: sjálfstraustið er lykillinn í nánast öllu er hefur með samskipti kynjanna að gera. Engar áhyggjur ef illa fer. Lífið er til að læra af því og þú munt fá fleiri tækifæri, trúðu mér.