Halló. [nafnlaus] heiti ég og er 17 ára. Ástæða þess að ég er að senda þér skilaboð er af því að ég var að enda við að lesa greinina þína um afbrýðissemi og var að velta einu fyrir mér og mig eiginlega vantar góð ráð.
Þetta á örugglega eftir að verða mjög langt og flókið allt saman, en ég reyni mitt besta við að gera þetta skiljanlegt en ég verð að byrja alveg á byrjuninni.

Ég er með mjög lágt sjálfsálit og sjálfstraust. Það er að mestu útaf því að ég lenti í einelti frá 3 bekk uppí 7 – 8 bekk. Ég átti nú samt alltaf mínar vinkonur í skólanum. Þær voru nú ekki margar, en mjög góðar vinkonur. Ein þeirra er besta vinkona mín í dag. Eftir að ég fór upp í framhaldsskóla batnaði sjálfstraustið aðeins, ég kynntist helling af nýju fólki og mér líður vel í skólanum og hlakkar oft til að fara í skólann.
Í 10 bekk fór ég til sálfræðings útaf eineltinu. Hún talaði við mig og mömmu og svo talaði hún aftur við okkur í sitthvorulagi. Mér fannst þetta ekki hjálpa mér neitt mikið, hún gaf mér engin góð ráð, nema það að fara á bókasafn og fá bækur til að laga sjálfstraustið og sjálfsálitið.

Ég er í sambandi með strák sem er að verða 19 ára á morgun, hann heitir Jón [nafni breytt]. Við erum búin að vera saman í 1 ár og ca. 9 mánuði. Þegar við vorum búin að vera saman í ca. 8 mánuði þá hélt hann framhjá mér með sinni fyrrverandi (sem ég btw veit að hann hatar, hann veit samt ekkert afhverju þetta gerðist, bara gamlar minningar og þannig..).
Hann sagði mér það nokkrum mánuðum síðar því hann var svo hræddur um hvað myndi gerast efað ég myndi vita þetta. Hann var semsagt hræddur um að ég myndi hætta með honum, en hann sagði mér það ekki fyrr en eftir á.
Við töluðum um þetta aftur og aftur og aftur. Hann sagði mér allt. Hvernig þetta gerðist, afhverju og svo framvegis. Við tókum okkur aðeins hlé á sambandinu en vorum samt í einhverju sambandi gegnum MSN og síma.

Í þessu hléi gerðist margt mjöög óskemmtilegt. Annar strákur fór að sýna mér áhuga, en ég hafði (og hef..!) alls ekki þannig áhuga á honum ( hann er ennþá ekki að ná því), en samt þurfti það endilega að gerast að við sváfum saman. Eitthvað sem ég sé svo rosalega eftir núna, en verð því miður þá bara að reyna að taka á því.. Þessi drengur hefur gert mér margt síðan þá, en það er annað mál.

Ég sagði Jóni þetta og hann tók því betur en ég bjóst við. En við héldum áfram að tala um framhjáhaldið og svona, ég sagði mömmu minni frá því og eldri systur minni. Ég ákvað svo að gefa honum annað tækifæri, því að ég virkilega elska hann og mér fannst bara eins og ég gæti ekki verið án hans. Hann varð alveg himinlifandi yfir að fá annað tækifæri og hann lofaði mér því að nýta það sem best og ég hef tekið eftir því að hann hefur bætt sig, helling.
Það tók mig nú samt tíma að treysta honum aftur og hef ekki getað treyst honum ennþá fullkomlega. Það eina sem ég get ekki treyst honum með er þegar hann er í kringum aðrar stelpur og ég vil helst ekki að hann fari einn í partý til vina sinna (það var þannig sem þetta allt gerðist, hann var fullur, en það er samt engin afsökun).

Það er ein stelpa sem ég vil helst ekki að hann sé að tala við, hún heitir Anna [nafni breytt]. Hún var semsagt hrifin af Jóni og hann hitti hana á bakvið mig áður en hann hélt framhjá mér (hann sagði mér það líka þegar hann sagði mér frá framhjáhaldinu). Hann er hættur að tala við hana afþví að hann veit að mér líður frekar illa yfir því, en hún er ennþá alveg á fullu að senda honum sms og hringja í hann.
Anna var eina stelpan sem ég bað hann um að vera ekki að tala við afþví að mér finnst það óþægilegt, en þá hætti hann líka að fara inná MSN og hætti að tala við allar hinar vinkonur sínar, sem ég bað hann aldrei um og svo mjög oft þegar við rífumst þá kvartar hann undan því að mega ekki eiga neinar vinkonur og svona :s Ég er samt oft búin að segja honum að hann megi eiga vinkonur svo lengi sem ég viti hvað er að gerast (þarf ekki að vita allt sem þau segja..bara svona..æji..þú hlýtur að skilja..).

En þá kemur að því að við erum alltaf að rífast, og oftast er það útaf því að ég fer í fýlu útaf einhverjum smáhlutum. Ég veit ekki afhverju það gerist..ég reyni að hugsa um eitthvað annað en ekkert virkar. Ég veit að ég fer í fýlu útaf mörgu sem hann gerir og hann veit það líka, höfum talað svo mikið um það. Og ég veit líka að ég á það til að verða mjög afbrýðisöm út í eitthvað svona sem hann gerir. Eins og t.d þegar hann sýnir öðrum stelpum áhuga, en ekki mér. Þá er ég að tala um bara þegar hann er t.d að tala við aðrar stelpur og ég stend við hliðina á honum og ég er ekkert inní samræðunum.

Það sem mig vantar virkilega að vita er hvað get ég gert til þess að fara ekki alltaf í fýlu við hann útaf nánast engu? Ég hef reynt að díla við þetta á annan hátt en ég finn ekkert sem virkar.
Ef að ég fer í fýlu við hann þá bregst hann þannig við að hann reynir auðvitað að fá mig úr fýlu með því að faðma mig og tala við mig og þannig. En þegar ég er í fýlu við hann þá einhvernveginn vil ég ekki faðma hann, veit ekki afhverju. Þá verður hann pirraður þegar ég er að ‘hafna’ honum (skiljanlega) og úr því verður heljarinnar rifrildi útaf (oftast) nánast engu.
Ég hætti alveg að tala eða segja eitthvað og er að bíða eftir að hann komi til mín aftur, en hann er líka þrjóskur og vill ekkert koma, og hann vill líka að ég komi einhverntímann til hans (again..skiljanlega..). En ég einhvernveginn fæ mig ekki til þess að láta undan, fær mig til að líða kjánalega og þannig. En á endanum kemur hann til mín og faðmar mig (þá vil ég það..>.

————————————————————————-

Sæl [nafnlaus]

Þú ert í dálítið erfiðum aðstæðum. Þegar haldið er framhjá einhverjum er traust og vellíðan af skornum skammti hjá þolandanum og tekur oft gífurlega langan tíma að endurheimta slíkt – og þá sérstaklega hjá einhverjum sem hefur lágt sjálfstraust frá fyrri tíð líkt og þú sjálf.

Vanalega er afstaða mín til framhjáhalds gífurlega hörð. Ég er ekki einn af þeim sem er mikið fyrir að fyrirgefa slíkt, enda um algjört og fullkomlegt brot á trausti og þeim ástartengslum sem pör mynda sín á milli. En þar sem þið eruð ung og kærasti þinn virðist sjá eftir þessu og viðurkenndi allt saman, þá ætla ég ekki að ráðleggja fallöxina á hann alveg strax, en vittu samt að ég sýni framhjáhöldurum litla samúð og tek nánast engar afsakanir gildar er kemur að slíku.

Hafðu eitt á hreinu. Framhjáhald er eitt það versta brot sem maki getur framkvæmt í sambandi og eru ráðleggingar mínar nánast ávallt sambandsslit eftir það. En þar sem fólk er ei ávallt tilbúið til þess þar sem það segist ennþá vera ástfangið reyni ég stundum að aðstoða fólk í að laga málin ef mögulegt er (sem oft er ekki). Ég er þó einungis tilbúinn til þess undir ákveðnum aðstæðum þar sem ég lít á framhjáhaldið sem afleiðingu af vanþroska í samskiptum kynjanna eða þess háttar og í kjölfarið fylgir mikil hreinskilni og iðrun af hálfu þess er hélt framhjá.

Í fyrsta lagi vil ég líkt og áður tala um þig og þitt lága sjálfstraust, það er eftir eineltið í fortíðinni. Þetta eitt og sér er eitthvað sem þú verður að gera allt til að vinna bug á. Reyndu að finna einhvern með óseðjandi þorsta til að ræða málin, hvort sem það er vinur, fjölskyldumeðlimur – eða ef ekkert annað gengur, sálfræðingur (þeir eru margir og mismunandi eins og fólk er flest. Næst getur þú rambað niður á virkilega góðum sem mun geta aðstoðað þig). Að lesa þessar bækur er hún lagði til er tilvalið og mæli ég eindregið með því ef þær geta mögulega gert þér gott, því lágt sjálfstraust er líkt því að vera lamaður öðru megin í líkamanum: nánast allar athafnir verða þér mun erfiðari og sársaukafyllri en ella. Ekki hætta fyrr en þú ert búinn að ræða þetta fram og til baka til hlítar; svo mikið að þú ert búin að seðja öllum þeim spurningum og vangaveltum sem þú hefur um allt er gerðist. Gott er að finna einhvern sem hefur talsverða reynslu af barna- og unglingavandamálum, hvort sem hún er fagleg eða persónuleg.

Framhjáhöld eiga það til með að rústa sjálfstrausti og vellíðan hjá þolendum, jafnvel þótt þeir hafi ekki átt við neitt slíkt að stríða, þannig að þú sérð hversu hátt fjall þú þarft að klifra til þess að allt fari á besta veg. Mikilvægt er að kærasti þinn skilji það líka – og mæli ég þess vegna með því að þú fáir hann jafnvel til að lesa þetta svar. Honum ber að gera nánast allt er þú biður hann um að gera og vera ekkert nema skilningssemin ef hann vill að þú og hann eigið framtíð saman. Þú heldur á öllum ásunum er kemur að þessum málefnum. Ef einstaklingur heldur framhjá og vill svo reyna að laga sitt samband verður hann að gera sér ljóst að það sem hann gerði þér var líkt og að brjóta niður stórt hús. Múrsteinarnir voru sjálfstraust þitt og vellíðan og honum ber að nota öll tiltæk ráð til þess að hjálpa við endurbygginguna ef hann vonast til að fá fyrirgefningu synda sinna, sem og fyrrnefnda þætti á ný.

Hjá Jóni liggja margar skyldur núna. Hann ber að hætta að hitta þær stúlkur sem eru hrifnar af honum og aldrei tala við sína fyrrverandi á ný nema með þínu leyfi. Hann verður að skilja og samþykkja að ef einstaklingur heldur framhjá skal hann vera eins og auðmjúkur þjónn og hlýða öllum þeim skilyrðum er þú setur, eins lengi og þú þarft til að jafna þig og fá til baka það sem hann braut niður. Hann má aldrei gleyma því.

Þú sagðist einnig hafa sofið hjá öðrum strák í hléinu. Það er ekki eitthvað sem hægt er að ásaka þig um að mestu og ekkert sem hann hefur rétt á að nota gegn þér. Eftir fréttir líkt og framhjáhald fer sálarlíf þolanda oft í óreiðu umlykta af vanlíðan og stefnuleysi. Þetta mun útskýra án efa að sumu leyti af hverju þú sefur hjá dreng sem þú berð litlar sem engar tilfinningar til (sem og aðrir þættir unglingsára, en það mun ég ekki fara í hér). Jón verður að skilja að þetta líkt og margt annað sem illa fór eftir framhjáhaldið má vel vera bein eða óbein afleiðing af því. Framhjáhöld eru eins og risaalda sem eyðileggja margt sem fyrir þeim verður og skemma restina – langt inn eftir landi.

Þótt Jón þurfi að hlúta ýmsum beiðnum af þinni hálfu sem hann hefði ekki þurft ef hann hefði ekki haldið framhjá þér, verður þú að muna að vera sanngjörn í þínum bónum er kemur að öðru fólki og fara aldrei yfir strikið. Þið verðið að setjast niður og skilgreina nákvæmlega hvað það er sem er „í lagi“ og „ekki í lagi“ er kemur að samskiptum af hinu kyninu utan sambandsins. Fókuspunkturinn í þeim samræðum verður að vera sjálfstraust þitt og það sem það þarf til þess að sárin fái að gróa. Munið einnig að þótt þú þurfir að herða ólina á hann varðandi slík samskipti, getur vel verið (og er í raun nauðsynlegt) að mest af því sé tímabundið. Ef þú finnur á þér eftir dágóðan tíma að þú munt aldrei treysta honum aftur að fullu er ekkert eftir fyrir ykkur nema að hætta saman. Samband án trausts er ekki samband heldur martröð.

Loks kemur að raunverulegri spurningu þinni. Henni gat ég þó ei svarað nema útskýra nánar það sem hér fyrir ofan stendur. Þú spurðir mig hvernig þú gætir hætt að vera fúl út af smáhlutum. Þessir smáhlutir eru í raun ekkert annað en lágt sjálfstraust þitt [sem Jón skal muna að hann ber stóran þátt í] og vanlíðan því tengdu. Dæmið sem þú tókst, s.s. að hann sé að tala við aðrar stelpur og þú sért ekki inn í samskiptunum er einmitt gott dæmi um þetta. Vegna þess sem á undan hefur gengið ert þú mjög illa haldin bæði af lágu sjálfstrausti sem og vantrausti í hans garð. Það er hans skylda að vinna til baka traust þitt og laga þann hnekk sem sjálfstraust þitt fékk eftir hans framhjáhald. Með vandamál tengd sjálfstrausti frá fyrri tíð verður hann að vera þér til aðstoðar, sem og að þú ættir að leita þér fagmannlegrar aðstoðar. Einelti getur og hefur oft skemmt andlega vellíðan fólks til framtíðar ef ekki er unnið úr allri þeirri reiði og sorg er fylgir slíku.

Sem sagt, Jón ber beina ábyrgð á tveim af þrem pörtum er hrjá þig í augnablikinu. Ef hann elskar þig og vill halda áfram í sambandi með þér ber honum að gera sér grein fyrir að ef þú ferð að gráta eða líður illa varðandi samskipti hans í garð annarra kvenna, sama hversu saklaus þau mega virðast, liggur sökin að stórum hluta hjá honum.

Fyrir ykkur liggja mikil samskipti um fyrri atriði. Setjið ykkur reglur um hvað má og hvað má ekki er kemur að samskiptum ykkar við hitt kynið. Ræðið alla anga á þeim reglum og takið fyrir allan misskilning. Mundu samt að hann verður að vera tilbúinn til þess að gera allt er til þarf, allavega tímabundið, til þess að þú fáir að láta sárin gróa, svo er hægt að víkka um reglurnar með tímanum þar til þær ná viðsættanlegum skilyrðum til framtíðar.

Mundu svo að taka á vandamálum fortíðarinnar. Aldrei gefa það eftir og ekki hætta fyrr en þú finnur að þú hefur unnið til baka það sjálfstraust er þú misstir – annars verður þú aldrei fullkomlega heil.

En nú skilur þú og aðrir eflaust af hverju ég er lítið hlynntur því að fólk reyni að lifa af framhjáhald. Framhjáhöld eru fátt annað en kjarnorkusprengja. Þau leggja nánast allt í rúst. Flestum reynist ofviða að byggja allt upp aftur. Kannski, ef þið eruð sterk í ást ykkar og þrautseig í vandamálum ykkar, getið þið verið ein af fáum undantekningum.