Halló… viltu senda þetta inn nafnlaust, takk.

En já, ég er semsagt búin að vera með kærastanum mínum í frekar langan tíma.. og ég er ótrúlega ástfangin af honum og hann af mér. En ég er að skemma þetta samband og ég veit það! Ég er búin að vera með þunglyndi og kvíða í mörg mörg ár og ég finn bara hvað það bitnar rosalega á sambandinu okkar. Mér líður svo einsog ég sé að koma í veg fyrir að hann geti notið lífsins til fulls því ég er alltaf með eitthvað vesen. Hann er svona ótrúlega jolly manneskja og alltaf hress og skemmtilegur, á fullt af vinum, ótrúlega myndarlegur… ég veit ekki hvað hann er að pæla að vera með mér. Ég hef meiraðsegja reynt að hætta með honum út af þessu en hann talaði mig af því (hann er bestur, ég veit)

…en ég er ekkert alltaf með viti einsog núna. Stundum fæ ég bara þvílíkar ranghugmyndir, sannfæri sjálfa mig um að hann vilji ekkert með mig hafa, hann sé bara að ljúga þegar hann segist elska mig og sé bara með mér því hann vorkennir mér. Þetta særir hann alveg þvílíkt en samt geri ég þetta alltaf.

Kvíðinn er að verða verri líka, ég fæ stressköst og eitthvað rugl, og þá er hann heima með mér… þegar hann gæti verið úti með vinum sínum. Og þá fæ ég samviskubit og geri eitthvað rugl, neita að hitta hann næst eða eitthvað.. vil gefa honum space. Og þá heldur hann að ég vilji ekki hitta hann (en ég vil það, ég vil bara ekki þvinga mér upp á hann). Mér finnst líka alltaf smá að hann skammist sín fyrir að vera með mér. Get ekki beint útskýrt það, fæ það bara oft á tilfinninguna.

Hvað á ég að gera? Á ég að vera eigingjörn og vera áfram með honum eða á ég að hugsa um annað en sjálfa mig og láta hann fara. Ég er alveg viss um að það yrði ekkert mál fyrir hann að finna einhverja miklu fallegri, skemmtilegri og vandamálaminni stelpu á no time.

…og já, ég veit ég þyrfti að fara til sálfræðings. Hef verið hjá slíkum í mörg mörg ár en get það ekki lengur útaf peningamálum.

———————————————————————————————-

Sæl [nafnlaus]

Já, þú átt við vanda að stríða. Vandinn er hinsvegar þess eðlis að í raun ertu ekki að tala um vandamál kynjanna, heldur það vandamál sem þú átt við að stríða út af lélegu sjálfstrausti og vanlíðan varðandi sjálfa þig.

En til að svara þér eins vel og ég get með takmarkað efni til að vinna úr þar sem ég veit ekki hvað hrjáir þig (og myndi ekki hafa tíma til að takast á við eins stórt vandamál og virðist liggja undir niðri hjá þér) – vandamálið og svarið við því liggur alls ekki í sambandinu, heldur hjá sjálfri þér. Ég vil endilega biðja þig um að lesa þetta vel yfir (vinsamlegast smella á eftirfarandi texta): Afbrýðisemi í allri sinni mynd

Ég held, líkt og þú sjálf, að svarið liggi í lausn vandans – s.s. lausn við því arfa slaka sjálfstrausti þú virðist eiga við að stríða.

Það síðasta sem ég myndi gera ef ég væri þú værir að hugsa um að hætta með þessum strák og þar af leiðandi segja bless við þann síðasta hlut sem virðist að einhverju leyti vera að halda þér réttu megin við geðveikismörkin. En eins og áður sagði tel ég að vandinn hjá þér liggi alls ekki í samskiptum kynjanna, heldur þeirri miklu vanlíðan varðandi sjálfa þig og lífið sem þú virðist eiga við að stríða í augnablikinu.

Þú segir að þú sért búin að fara til sálfræðings í einhver ár en þú getir það ekki lengur vegna peningavandamála. Því miður veit ég lítið hvað er hægt að gera fyrir manneskju líkt og þig sjálfa sem átt virkilega bágt andlega en enginn virðist geta aðstoðað þig með það. Ég væri tilbúinn í það – en eins og þú bentir á, þá er þetta vandamál sem þú ert búin að eiga við að stríða mörg ár ævinnar og ólíklegt að ég gæti aðstoðað þig nema á löngum tíma og með mikilli aðstoð sem ég hefði ekki efni á að gera kauplaust.

Til að geta gert eitthvað fyrir þig vil ég segja þetta. Það eru tveir mögleikar eins og ég sé þá: 1. Þetta er eitthvað sem mun dofna og hætta að angra þig eins mikið með aldrinum, 2. Þetta er varanlegt vandamál sem mun hrjá þig alla ævi. Nú, ef nr.1 er málið er spurningin bara að bíða ef mögulegt að þetta sé partur af „unglingavanda“ sem mögulega leysist með tímanum.

Ég hef því miður grun um að þetta sé eitthvað líkar nr.2; eitthvað sem mun mögulega hrjá þig alla æfi nema þú gerir eitthvað í þessu. Eins og þú segir, þá ertu búin að vera hjá sálfræðingum. En veistu, ég tel að það sé alveg sama hvað þú gerir, ef þú heldur ekki áfram að berjast við þá ástæðu sem gerir þig svona ill haldna andlega (sem er einhver; þú verður að komast að því hvað virkilega liggur á bak við þetta allt saman). og heldur áfram að berjast og berjast við hana!

Ef sálfræðingurinn er ekki að virka, skiptu um sálfræðing. Ef peningarnir eru ekki nægilegir til að fara til sálfræðings, safnaðu. Gerðu ALLT sem þú getur gert til þess að losna við drauga fortíðarinnar svo að þú getir horft með björtum augum til framtíðarinnar. Að leyfa einhverju naga sig endalaust; svo illa að það hafi skemmandi, nánast bæklandi áhrif á þig þegar kemur að samskiptum kynjanna er eitthvað sem mun halda áfram að skemma þig andlega svo lengi sem þú þarft að takast á við vandann og heldur áfram að gera það ekki.

Aldrei hætta að berjast gegn vanlíðaninni og litla sjálfstraustinu. Það gæti skipt sköpum um framtíðar líðan þína það sem eftir er ævinnar.

Það er eitthvað í fortíðinni sem þarf athygli við til þess að geta hætt að naga sjálfstraust þitt í sambandi. Þú verður að finna hvað það er, sama hversu erfitt það er, svo þú getir síað það út og boðið þessum að er virðist indæla strák upp á gott samband. Þetta getur reynst gífurlega erfitt, en mun vera nauðsynlegt.