Þannig standa málin að ég er hrifin af einn af bestu vinum mínum. En málið er bara svolítið mikið flóknara en það, annars væri ég ekkert að senda þetta inn

Þessi strákur er semsagt fyrrverandi fyrrverandi bestu vinkonu minnar [komst bara að því að hún sé tík] og hann var líka að dúlla sér aðeins með ein af mjög góðri vinkonu minni í smá tíma og hún var/er [er ekki viss með núna, hef ekki talað almennilega við hana í einhvern tíma] ekkert smá hrifin og hún var mjög paranoid um að við [semsagt ég og strákurinn] myndum byrja eitthvað vegna þess hversu náin við erum. Þannig ég þurfti að segja oft “við erum bara vinir, ekkert annað” og “hann er bara vinur, ég gæti ekki ímyndað mér að vera með honum” og svona í þá áttina þó svo að ég hafi verið alveg bara kolfallinn fyrir hann. Og hann tók alltaf undir þannig ég er bara hrædd um að honum finnist það einmitt. Ég er líka mjög hrædd við höfnun og á líka við traustvandamál að stríða [og þá einna helst stráka] vegna ýmislegt sem hefur gerst í fortíðinni. Hann er bara svo æðislegur og lætur mig líða vel. Og ég er núna í útlöndum í allt sumar og ég er hrædd um að hann nái sér í einhverja stelpu sem hann er eitthvað búinn að vera tala svolítið mikið við, er svo mikið fallegri en ég og hann er meira segja búinn að segja mér frá henni og að hann vilji .. tjah .. gera ýmislegt með henni. Svo hjálpar ekkert til að hann er að segja eitthvað bara “stelpur eru vesen” og “ég þoli ekki sambönd” og “ég ætti bara að gerast hommi, kannski eru strákar ekki eins slæmir” [þetta samt grín, en já meininginn er samt til staðar] því hann hefur verið svikinn illilega af stelpum og notaður mjög illa.

Ég veit svo ekkert hvað ég á að gera. Tala við hann? Tala við vinkonu mína fyrst til að vita hvort henni sé sama og svo tala við hann? Gefa það í skyn? Sleppa þessu til að hafa vináttuna?

Hjálp Fróðleiksmóli, ég er svo ringluð :[

————————————————————-

Sæl [nafnlaus]

Til að byrja með get ég með sanni sagt að vandamál þitt samanstendur af mörgum minni vandamálum. Þetta er þó ekkert vandamál þannig séð – við tökum þau bara fyrir hvert af fætur öðru.

Til að byrja með virðist eitt helsta áhygguefni þitt vera tilfinningar vinkvenna þinna þar sem þið eruð allar skotnar í sama stráknum.

Fólk er eflaust mismikið sammála mér þegar kemur að þessari skoðun minni, en ég trúi því án undantekninga að ef einstaklingur er ekki í sambandi; þá er hann það sem við köllum oft að „vera laus og liðugur“. Ef manneskja er „laus og liðug“ er hún nákvæmlega það. Enginn á ákveðinn rétt fram yfir annan þegar kemur að því hver má reyna við hvern sem er ekki í sambandi. Þetta á þó aðallega við ef enginn á langa sögu við viðkomandi (sem dæmi, fyrrverandi kærasta til þriggja ára, en það er umræðuefni fyrir annan tíma).

Ekki vera hrædd við að reyna við þennan strák ef það er það sem þig langar. Ekki láta vinkonur standa í vegi fyrir þér. Það á enginn miða með nafni þessa stráks og þar af leiðandi er ykkur stúlkunum öllum opið að bera tilfinningar til hans. Það mun hinsvegar verða sú sem byggir upp hugrekkið til að gera það sem til þarf sem mögulega endar með honum.

Varðandi traustvandamál þitt hef ég þetta að segja: Byrjaðu á að lesa þetta (smelltu á eftirfarandi texta):

Afbrýðisemi í allri sinni mynd

Í þessari grein tala ég um þá nauðsyn að takast á við og að fullu melta þau erfiðu vandamál sem sækja á fortíð manns (undir afbrýðisemi í heilbrigðu sambandi). Ef um ókljáð vandamál sem sífellt nagar í rætur þér er að ræða mun þetta vandamál og afleiðingar þess mjög líklega naga þig um aldur fram, jafnvel til æviloka. Þrátt fyrir að þetta vandamál sé erfitt og enn erfiðara sé að draga það upp á yfirborðið, vil ég endilega ráðleggja þér til þess. Fyrra vandamál verður að vera það að fullu kljáð að það nagi ekki undirmeðvitund þína. Ef svo er mun það líklega halda áfram að gera það svo lengi sem þú átt eftir ólifað (að einhverju leyti alla vega). Besta leiðin til að komast yfir slíkt og þvílíkt er að finna einhvern sem hægt er að tala við um slíkt vandamál og ræða málin þangað til öllum þínum svörum varðandi málefnið hefur verið svarað og þú finnur þessa sérstöku tilfinningu er fylgir því að hafa loks rætt málin að fullu og vera tilbúin að láta það á bak við sig.

Að vera hrædd um hvað hann gerir er ekki þitt hlutverk. Já, þú ert mjög hrifin af þessum gaur og villt mjög mikið fá athygli hans og jafnvel ást, en aldrei máttu gleyma því að þú skiptir mestu máli í þínu lífi. Sama hversu hrifin þú ert af einhverjum, mundu þá að hann/hún er bara manneskja. Þitt líf snýst um ÞIG – og það mun ekki hafa einhver lokaáhrif á þig eða þitt líf hvort að einhver strákur sem þú ert mjög hrifinn af velur þig eða ekki. Auðvitað er það egó högg sem fylgir höfnun, en fólk verður að muna það það er BARA það. Að vera hafnað eða ekki segir nákvæmlega ekkert um persónuleika manns eða persónuleg gæði okkar sem manneskju. Milljónir ofan á trilljónir breyta hafa með það að gera hvernig fer í samskiptum kynjanna. Hvort þær gangi einmitt eftir á þann hátt að allt gangi upp er oft á tíð meira heppni en eitthvað annað.

Mundu bara að ef hann velur einhvern annan þá er það ekki endir heimsins. Þú ert ung og munt án efa finna fyrir sömu fiðrildunum fyrir öðrum dreng áður en langt myndi líða ef svo færi að ekkert eigi eftir að ganga upp með þessum dreng. Hafðu það ávallt í huga.

Ekki hafa áhyggjur af því að hann hafi verið mikið svikinn af stúlkum. Ef hann er á annað borð að spá í stúlkum þá mun þetta ekki vera stór fyrirstaða hjá honum – og ef hann var svikinn illa og þið byrjið saman þrátt fyrir það þá er lykilatriðið að ræða málin til hlítar til þess að vera viss um að ekkert erfitt og leiðinlegt liggi eftir sem gæti gert ykkur sem pari erfitt fyrir. Samskipti, samskipti, samskipti ….

Og núna varðandi spurningar þínar. Þú spurðir hvort þú ættir að tala við hann varðandi þetta. Ég legg til að ef þú berð alvöru í brjósti þér varðandi þennan strák (og mundu að hann þarf að bera eitthvað þannig líka! Ekkert varið í einhvern sem ber engar tilfinningar til manns á annað borð) að láta hann vita með aðgerð, ekki orðum. Ég hef tekið sterklega eftir því að fólk á ákveðnum aldri fellur mun betur fyrir fótum aðgerða fremur en orða – jafnt stúlkur sem strákar. Mitt ráð er að bíða átekta. Þú getur daðrað dálítið smekklega við hann í símann til að gera honum fyllilega grein fyrir því að þú hefur áhuga (svo hann viti að möguleikinn er til staðar). Ef honum virðist vera sama og ekki taka vel í daður þitt – láttu hann eiga sig að fullu. Þá er hugur hans annarsstaðar og þið munið ekki bera sama hug til hvors annars.

Ef hann gerir sér grein fyrir því að það gæti eitthvað orðið á milli ykkar út frá daðri ykkar og virðist sýna því jákvæða athygli, þá ertu frekar örugg þegar hann kemur heim með það að allavega eitthvað geti orðið á milli ykkar (hvort sem hann dúllar sér úti með einhverri stúlku verður einfaldlega að vera eitthvað sem þú mátt ekki láta þig skipta miklu máli (ekki nema að hann hafi notað verjur o.þ.h. ef hann gengur svo langt) þar sem þið eruð ekki par og hann er „laus og liðugur“).

Þegar hann kemur heim skaltu einfaldlega nálgast hann á svipuðum nótum og vanalega – með gleði og forvitni fyrir utanlandsferðinni (ef hann talar við þig um „hana“ (s.s. einhverja sem hann var að reyna við, dúlla sér með) en þú telur samt að þú hafir fundið fyrir neista í gegnum daðrið í símann skaltu láta slíkt þig engu skipta (ekki nema þá kannski til að hlusta og læra hvað hann fílar, finnst gott o.s.frv. Allt mikilvægar og hjálplegar upplýsingar) og svo þegar tíminn er réttur, skaltu halda áfram daðrinu og færa þig hægt áfram í átt að takmarki þínu.

Vertu viss. Ef þessi strákur hefur einhvern áhuga á þér á annað borð mun hann taka vel í daðrið og áframhaldandi aðgerðir í þá áttina af þinn hálfu. Nú, ef þú finnur að hann gerir það ekki skaltu sætta þig við vináttuna eða hafna henni eftir því hvernig manneskja þú ert og hvað þú telur þig þola/vilja (mundu þó að óendurgoldin hrifning er eins og sár – og ef þú heldur áfram að sjá umrædda manneskju og eiga samskipti við hana aftur og aftur fær sárið aldrei að gróa) (persónulega sem dæmi gæti ég ekki þolað óendurskuldna hrifningu nema með mikilli fjarlægð og slitum á samskiptum í talsverðan tíma). Þá muntu einnig ekki lenda í veseni með vinkonur þínar.

Þrátt fyrir að samskipti kynjanna séu gífurlega flókin eru skrefin til að komast að sönnum áhuga einhvers oft ekki það flókin. Smá daður, sjálfstraust og rétt atferli gerir þeim sem veit hvað hann er að gera ljóst hvar hann stendur með manneskju á örskömmum tíma. Við verðum bara að muna að stundum á maður séns og stundum ekki – og þá er ekkert við því að gera en að leita að öðrum fiskum í sjónum. Mundu bara; oftast er maður ekki að missa af neinu. Ef manneskja sér ekki það góða sem liggur undir niðri í þér sem einstakling, myndi sú manneskja aldrei skilja þig né meta að fullu sem góðan maka þar sem sú hin sama manneskja myndi aldrei „ná“ þér að fullu.

Allavega ekki hafa áhyggjur af vinkonum þínum er kemur að þessu. Ef þú ert hrædd um skemmda vináttu út af þessu skaltu tala við þær og komast að einhvers konar samkomulagi. En mundu þó að ekki láta eitthvað bull stjórna ferðinni. Ef þið ræðið málin í átt að niðurstöðu látið þá umræðurnar byggja á rökum. Það mun einmitt reynast erfitt að finna góð rök fyrir því að ein vinkona en ekki hin má reyna við hann þar sem hún varð „hrifin fyrst“ :)