Senda inn nafnlaust takk og svara ef mögulegt er.

Þannig standa nú málin að ég hef verið hrifinn af stelpu í allavega hálft ár. Tala stundum við hana á msn en þorði ekki að segja henni því ég
vildi kynnast henni betur fyrir utan msnið sem er frekar tómlegt. Spurði hana einu sinni hvort að hún væri á föstu og hún sagði bara nei, og ég var
góður með það og langaði að gera eitthvað með henni. Spurði hana að koma oft í bíó eða etc gera eitthvað. Alltaf tók hún jákvætt í það en svo bara
þurfti hún alltaf að gera eitthvað annað. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera, vildi alls ekki segja henni bara að ég væri hrifinn af henni því ég vill eyða tíma með henni first eins og ég segi, væri slapt að segjast vera hrifinn af henni og svo væri þetta bara smá skot en við myndum svo ekkert passa saman. Sama dag og ég ætlaði að fara að segja frá þessu vandamáli mínu í Fróðleiksmola dálkinum þá ákvað ég að létta aðeins á mér og sagði einni annari stelpu sem bæði ég og stelpan ( sem ég er hrifinn af.. ) þekkjum að ég væri hrifinn af stelpunni sem ég nefni fyrst. Hún var bara “æ en sætt” en svo stuttu seinna segir hún mér að því miður yrði ekkert úr þessu.. Stelpan sem ég er hrifinn af væri byrjuð að hitta annan strák. Ég fékk bara hálfgert shokk og vissi ekkert hvað ég átti að segja, allar vonar mínar horfnar og endalaus hnútur í maganum mínum. Síðan verður eitthvað smá spjall, sem var hreint og beint ekkert til að laga tilfinningar mínar, þar sem þær féllu einungis í því að ég ætti að gleyma þessu, en það er bara svo erfitt…Hvað á ég að gera… Bara gleyma þessari stelpu og láta hana ekki einu sinni vita að ég hafi verið fyrir hana, eða ætti ég að segja henni einhvernmegin að ég sé það…svo ég gæti allavega bundið enda á þennan hrylling allavega vitandi að ég hafi reynt eitthvað. Ég bara veit ekki hvað ég á að gera.

Og ég vona að þetta hafi verið skyljanlegt.. bara svo erfitt að lýsa þessu.

[skilaboð enda]

—————————————————-

Sæll [nafnlaus].

Fyrst af öllu vil ég segja þér að ég er sáttur með skynsamlega ákvörðun þína um að vilja kynnast henni betur áður en þú færir að játa hrifningu þína í hennar garð. Að vera viss um slíka hrifningu áður en stórt skref í átt að sambandi eða öðrum rómantískum samskiptum er tekið er ávallt skynsamlegt.

Á unglingsaldri eru strákar og stúlkur að „finna sig“. Þegar unglingsaldurinn gengur í garð og hrifning á hinu kyninu kviknar tekur við algjörlega nýtt og flókið félagslegt samskiptanet sem samanstendur af allt öðruvísi atferli en viðkomandi hefur átt í áður.

Rómantísk samskipti kynjanna eru ein sú flóknasta og óútreiknanlegasta ráðgáta sem við tökum þátt í sem mannverur. Öfugt við dýrin, sem í flestum ef ekki öllum tilfellum hafa ákveðna og reglubundna aðferð til þess að velja sér maka, þá eru þær breytur sem hafa áhrif á makaval okkar nánast endalausar. Þegar unglingsaldurinn kallar á slík rómantísk samskipti má lýsa okkur líkt og auðu blaði. Við erum komin að algjörlega nýrri bók í kaflanum – og sá kafli er að mestu óskrifaður. Við sem félagsverur þurfum að læra inn á þessar nýju félagslegu breytur nánast frá grunni og slíkur lærdómur getur oft verið gífurlega flókinn sem og ruglandi.

Strákar hafa oft lýst stúlkum fyrir mér líkt og þú gerðir. Nafnið sem þessi athöfn hefur oft fengið á sig kallast „að halda manni heitum“, s.s. það er almennt talið að stúlkan sé að láta eins og hún sé hrifin bara til þess að eiga varaskeifu ef illa fer með öðrum dreng sem hún er hrifnari af.

Það má vel vera að í einhverjum tilfellum sé þetta satt, s.s. að stúlkan er að „halda stráknum heitum“. Hinsvegar er ég nánast viss um að sú er ekki alltaf raunin (og í raun sjaldnast). Eins og áður sagði eru stúlkur líkt og strákar á þessum aldri að „finna sig“. Þetta þýðir með öðrum orðum að stúlkur jafnt sem strákar vita ekki alltaf upp á hár hvað þær vilja og jafnvel vilja út frá góðmennsku sinni (sem þær telja að sé góðmennska en oftast kemur í ljós að gerir stráknum meiri grikk en gott) þóknast hverjum einasta strák sem sýnir þeim þá virðingu að bera hrifningu í þeirra garð. Það gera þær með því að veita honum gagnkvæma athygli þótt þær séu ekki vissar um að raunverulegar tilfinningar liggi þar á bak við. Sú athygli á það til með að koma fram líkt og þú lýstir, með því að taka vel í boð um stefnumót og annað af svipuðu meiði.

Það sem ég á við með öllu þessu er að stúlkan var líklega ekki að „spila“ á tilfinningar þínar og þar af leiðandi draga þig á asnaeyrunum, heldur vissi hún sjálf ekki hvar hjarta hennar stóð er kom að þér og jafnvel öðrum strákum sem kölluðu til einhvers innan hennar.

Það er mín trú að við sem mannverur, þegar við höfum enga bakþekkingu (fyrri upplýsingar) á viðfangsefni, notumst líkt og dýrin við tilfinningu og eðli til þess að stýra okkur áfram. Þegar slíkir kraftar keyra okkur áfram frekar en rökhugsun, mun útkoman oft vera handahófskennd og ruglandi fyrir þá er verða fyrir henni.

Til að draga saman þá er mín trú á málinu þessi: Stúlkan var líklega ekki viss um hvar hún stóð tilfinningalega varðandi þig og var þess vegna ekki tilbúin að neita áhuga þínum á henni með hreinni og beinni neitun þegar kom að framsókn þinni. Með tímanum komst hún hinsvegar að því að annar strákur átti hug hennar og því fór sem fór. Aðferðir hennar voru án efa að einhverju leyti klunnalegar og særðu þig meir en aðrar aðferðir hefðu mögulega gert – en það er einmitt vandinn við að skrifa þennan nýja kafla í bók lífsins sem rómantísk samskipti kynjanna eru: maður þarf að endurskrifa margt áður en maður nær því rétt.

Þú spurðir hvort þú ættir að láta hana vita af tilfinningum þínum. Mín skoðun er sú að þú ættir að gera það ef þú telur að það hafi græðandi áhrif á sál þína. Mundu þó að það mun gera lítið sem ekkert fyrir þig er kemur að því að vinna hylli hennar. Stúlkur á þessum aldri (og í raun á öllum aldri, en hvað mest á unglingsaldrinum) eru oft á tíð lítt hrifnar af ástarjátningum. Þær sem kynverur heillast af sjálfstrausti og styrk karlmanna og vilja oftar en ekki aðgerð fremur en orð. Auðvitað eru til undantekningar á þessu, en í minni reynslu af aldrinum (um það bil) 14 – 25 ára, sem er talsvert mikill eftir c.a. þrjú ár að aðstoða hugara með vandamál sín, hef ég tekið eftir því mynstri að á þessum aldri hvað helst eru stúlkur einstaklega hrifnar af karlmannlegri útgeislun í formi sjálfstrausts og ákveðni – og einstaklega lítt hrifnar af ástarjátningum af nánast hvaða formi sem er.

Til að binda enda á þetta vil ég segja þetta: ef það að segja henni hvernig þér líður er eitthvað sem þú telur nauðsynlegt til þess að geta gleymt henni og haldið áfram með líf þitt, þá skaltu gera það. Gerðu hvað sem þú telur nauðsynlegt í formi samskipta (innan skynsamlegra marka) til þess að gleyma henni, því hugur hennar sækir annað og það mun ekki reynast þér gott að halda að einn daginn muni hún hugsa sig tvisvar um og verða þín.

Ekki hafa áhyggjur. Þú er ungur að aldri og nægur tími til að leita á önnur mið. Gott er fyrir þig að hafa það sem ég nefndi hér ávallt baka til í huga þér, það er að segja að hegðun ungra drengja sem stúlkna mun oft virka köld og allt að því grimm – en oftar en ekki liggur hreint reynsluleysi þar á bak við fremur en eitthvað annað.