Sæl öllsömul.

Það er eitt sem ég vildi gjarnan ræða um ykkur við sem hefur með trúlofanir að gera.

Fyrst af öllu, þá er ég mjög mikill fjölskyldumaður í mér og get ekki ímyndað mér framtíð mína án þess að sjá hana fulla af börnum og í örmum yndislegrar konu sem elskar mig og kallar mig eiginmann sinn.

Útfrá því, þá get ég sagt að ég er mjög fylgjandi hjónaböndum og því sem þau standa fyrir, hvort sem fólk giftir sig útfrá trúarlegum ástæðum og/eða einungis til þess að staðfesta ást sína á hvoru öðru.

Það er samt eitt sem ég vildi fjalla um varðandi trúlofanir, og það er hvað fólk í dag er gífurlega fljótt til að samþykkja slíka skuldbindingu sín á milli. Með þessu er ég samt alls ekki að segja að það geti ekki gengið upp. Það eru til ófá dæmi um fólk sem hefur kynnst á unga aldri, orðið ástfangið og verið saman til æviloka.

En því miður er raunveruleikinn sá, að stór partur allra þeirra sem finna sig unga og ástfangna eiga því miður eftir að finna þá ást dvína og að lokum hverfa. Árið 2002 voru skilnaðir á Íslandi um 39.5% á hver 100 hjónabönd (http://www.divorcereform.org/gul.html) og er sú tala að mínu mati frekar stór. Og ekki þarf að fara langt til þess að sjá töluvert stærri tölu, eða 54.9% í Svíþjóð sem verða nú að teljast nágrannar okkar með meiru.

Það sem ég er að reyna að segja með þessu er: til hvers að flýta sér? Ef þið eruð búin að finna einhvern sem þið elskið meira en allt og teljið að sé ykkar framtíðarmaki, til hvers að flýta sér að trúlofast og jafnvel gifta sig? Hvar liggur gróðinn bak við þá fljótförnu slóð?

Þegar maður hefur loksins fundið þann sem maður telur að sé sá eini rétti fyrir mann sjálfan, þá ætti sú ást einmitt að vera það sterk, merk og einstök, að þurfi fyrir aðra staðfestingu en þá sem þið finnið fyrir óhindrað í hjarta ykkar ætti að vera ónauðsynleg, allavega í dágóða stund.

Það liggur ekkert á. Leyfið ástinni sannreyna sig með því að sýna fram á endingarmátt sinn í einhvern tíma áður en að trúlofun kemur. Verið viss um að ástin sé enn svo sterk að hún flytji ykkur áfram á vængjum sínum eftir nokkur ár; þá fyrst getið þið tekið þau skref að skuldbinda ykkur með nokkurri vissu um það að vera ekki ein af þeim sem lenda í prósentupakkanum sem ég nefndi hér fyrir ofan.

Hinn kaldi raunveruleiki er sá, að „ástin er ekki nóg“, eins og mörg ykkar hafa eflaust tekið eftir að stendur skrifað í undirskrift minni. Með því er átt við að það er svo margt annað sem spilar stóran part í samskiptum kynjanna. Þótt ástin og hrifningin sé í hámarki, þá eru margir aðrir hlutir sem hafa beint eða óbeint lítið með ást að gera sem spila sinn stóra part í samskiptum maka sín á milli; líkt og mismunandi skoðanir, uppeldi og áherslur, svo fátt eitt sé nefnt.

En ástin er, og mun ávallt vera eitt af aðal “innihaldi” í uppskriftinni að farsælu sambandi. Án hennar er þolið, skilningurinn og löngunin til þess að gera tveim einstaklingum kleyft að vinna úr fyrrnefndum atriðum á viðkvæmum grunni byggt.

Ég vil bara hafa það á hreinu að með þessum litla pistli er ég ekki að segja fólki að bíða endalaust með að trúlofa sig og staðfesta ást sína, heldur að í langflestum tilfellum er það flestum nauðsynlegt að staðfesta einnig að hin atriðin í samskiptum kynjanna eigi sér farsæla úrlausn, og það er nánast aldrei hægt að vita fyrr en eftir talsverða reynslu af þeim samskiptum.

Munið bara gott fólk, að það er enginn að fara að hrifsa trúlofun úr örmum ykkar. Hún mun ávallt vera möguleiki, og því lengur sem þið leyfið henni bíða (innan eðlilegra marka), því meiri líkur eru á að hún sé til framtíðar.

Kær kveðja og gleðilega hátíð!
Fróðleiksmoli