Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á byrja, ég er ekki beint að „leita ráða“ – bara að létta af mér, þó að ráð séu aldrei afþökkuð. :)

Fyrir ekkert svo löngu síðan, þá átti ég kærasta (köllum hann bara Múfasa) – ætla ekki að væla um hann, var svakalega hrifin, hættum saman af góðri ástæðu og ég var bitur, sár og var með svakalega lágt sjálfstraust (og ekki beint í fyrsta skiptið sem þessum saman strák tekst að brjóta sjálfstraustið mitt).

Og eins og margir hafa gert, þá varð ég bitur og fór bitur út á djammið og fór með einhverjum heim (sem við skulum bara kalla Bósa). Þetta átti bara að vera eitthvað fling, þetta átti aldrei að verða neitt alvarlegt því að ég vildi það ekki – þoldi ekki stráka. En þetta var ekki beint neinn venjulegur strákur, og þetta varð að svolítið vikulegum hlut að við myndum læðast yfir til hvorts annars og sofa saman – ég sagði aldrei neinum frá því útaf því að ég viðurkenni það alveg að ég skammaðist mín fyrir þetta, hann var töluvert eldri en ég, hann hafði orðspor á sér – og mér reyndi að vera sama, en var það samt ekki – svo þetta var alltaf á rosalega miklu læðipúkastigi. Svo þegar þetta var búið að vera í gangi í þrjá mánuði (ég meina, enginn á svona félaga svona lengi án þess að fá einhverjar tilfinningar fyrir manneskjunni?) þá varð ég bara yfir mig ástfangin, en ég gat bara aldrei viðurkennt það fyrir sjálfri mér – vildi það ekki. Svo þurfti hann að flytja lengst útí rassgat, og við ákváðum að vera í „opnu sambandi“. Ég reyndi að draga það uppúr honum hvort honum liði eins gagnvart mér og ég gegn honum, en það gekk ekki – aðalega því ég var bara alltof mikil hæna.

Hann allavega fór, og ég hélt bara áfram að pína mig og vera ástfangin – það var ööömurlegt! Og ég vældi þvílíkt í vinkonum mínum, og ég var bara – já. Ég gat ekki kysst neinn annan strák, hugsað um neinn annan strák – ég gerði ekki neitt með neinum öðrum, útaf því ég bara gat það ekki og langaði það ekki – mig langaði bara í hann, og það var lítið sem ég hefði gert fyrir hann.

Svo fórum við í bæinn á sama tíma, og ákváðum að hittast. Á fyrri deginum var allt frábært, fórum út og vorum í fyrsta skiptið úti meðal almennings, og þetta var hreint frábært – í fyrsta skiptið í langan tíma leið mér ótrúlega vel. Fórum svo heim, og ég reyndi að tala við hann – en hann vissi ekki hvar hann stæði gagnvart mér útaf því að ég hefði alltaf viljað hafa þetta eitthvað læðupúk (?) á meðan hann bjó á sama stað – og ég var alveg sammála því að það voru mín mistök og jarijarija. Hann gat allavega ekki svarað mér almennilega.. og ég skildi það svosum alveg, en hann bauð mér í bíó og partí síðan daginn eftir.

Allan daginn talaði hann ekki við mig, sá hann með systur sinni útí búð og hann lét einsog ég væri ekki þarna. Svo loksins um kvöldið hringdi hann í mig, og bauð mér í þetta partí – sem ég fór svo í – þetta var heima hjá fólki sem hann þekkti. Og allan tíman sem ég var þarna talaði hann varla við mig, hann kyssti mig einu sinni og það var til að undirstrika brandara – mér leið einsog svakalegum brandara og ég gleymi því ekki að þegar ég fór þá sagði hann „Sjáumst! Þótt ég efist um það..“ og fór að hlægja. Ég var ótrúlega sár, og reið og ég veit ekki hvað. Fór heim ennþá reiðari og leið bara illa. Þú veist, ég skil alveg að hann var ekki tilbúin í samband - en gat hann ekki látið mig vita á öðruvísi hátt? Var ekki hægt að vera bara hreinskilinn við mig?

En vikunni eftir ákvað ég bara að komast yfir þetta, það var ekki einsog ég hefði ekki reynt?
Hann lét ekkert heyra í sér, fyrr en akkúrat viku seinna og ég varð svo glöð að ég bað hann ekki einu sinni um útskýringar á þessari hegðun sinni. Svo leið langur tími og við töluðum varla saman, og ég komst svona semí yfir hann – eða ég veit allavega ekki hvar ég stend gagnvart honum núna.

Þetta er örugglega í fyrsta skiptið sem ég hef komist yfir strák, án þess að finna mér einhvern annan – svo áfram ég.

Allavega, ekkert fyrir svo löngu síðan fékk ég slysaskot fyrir besta vini mínum (sem við skulum bara kalla Púmba), og það átti aldrei að verða neitt – en hann frétti af því, og eitt leiddi af öðru og við byrjuðum saman núna fyrir svona 3 vikum síðan. Hann er afskaplega feiminn, það vita allir að við erum saman – en samt getur hann varla talað við mig fyrir framan almenning, það er pínu einsog hann skammist sín fyrir mig. Hann hittir mig varla, og ef við hittumst þá.. Foreldrar hans vita ekki einu sinni að við séum saman, og við erum búin að vera saman næstum því í mánuð núna. Hann á ótrúlega mikið af vinkonum, sem hann hittir mjög oft. Og ég er abbó – ég þoli ekki að vera abbó .. Og mér líður einsog hann sé að púlla það sama við mig og þessi Múfasa gerði. Ég er rosalega hrifin af þessum strák, og ég vil gefa honum séns – er það kanski bara ég, er ég að biðja um of mikið? Mig langar bara í strák sem er ekki hræddur við að láta alla vita að ég sé kærastan hans, einhver sem er hrifinn af mér, kyssir mig hæ og bæ, heldur utan um mig .. Hittir mig! Er ég að biðja um of mikið? Þetta virðist alltaf vera að gerast fyrir mig, og það er rosalega pirrandi – mikið afskaplega hlýtur maður allavega að vera unlovable.

En fyrir stuttu byrjaði þessi Bósi að senda mér sms, og segja alla þessa hluti við mig sem mig langar til að Púmba sé að gera. Þetta er rosalega ruglandi. Ég veit ekkert hvar ég stend gagnvart Bósa, en ég veit að mig langar að gefa Púmba séns – samt vil ég ekki loka alveg á Bósa?

Ég veit alveg hvað ég ætti að gera .. það er bara pínu erfitt. Er ég alveg ömurleg? Mér finnst einsog að ég sé að gera Púmba einhvern ógeðslegan hlut með því að óska eftir því að hann væri að bjóða mér þessa hluti sem Bósi er að bjóða mér. Kanski ætti maður bara að taka sér meiri tíma í það að vera á lausu ..

Faaarin að tala í hringi..
Ignore me. :)