Mér barst annað bréf í pósti þar sem ég var beðinn um að senda það inn nafnlaust. Endilega svarið eftir bestu getu.

Hér er bréfið:


Þetta er svo mikið að angra mig og ég vil lausn á þessu áður en að allt fer í hundana!
Ég á kærasta sem ég elska mjög mikið og hann elskar mig. Við erum búin að vera saman í rúmt ár. Þetta er fyrsta alvöru sambandið sem ég hef verið í og ég er mjög hamingjusöm með honum.
En…fyrir nokkru komst ég að því að fyrrverandi kærasta hans talar stundum við hann á msn. Hún gerir það alltaf að fyrra bragði (hann er búinn að eyða henni af msn-inu sínu fyrir löngu en blockaði hana ekki), og kærastinn minn segir voða lítið við hana, er voða kaldlyndur við hana (sem hún á alveg skilið). Kannski er þetta ofsóknaræði í mér en mér finnst eins og hún sé farin að tala meira við hann en áður…
Það eru reyndar mjööög litlar líkur á að hún vilji byrja aftur með honum, ég ætla ekki að fara nánar út í það en þið verðið bara að trúa mér með það.
Þau voru saman í 5-6 ár og hún fór mjög, mjög illa með hann þegar þau hættu saman.
Ég er bara svo kvíðin yfir þessu – ég veit að hann er með mér en ekki henni og hann elskar mig en samt…mér finnst þetta bara svo óþægilegt. Hann elskaði hana pottþétt mjög mikið og ég er svo stressuð um hvort að hann muni aldrei verða jafn ástfanginn af mér eins og hann var af henni :(
Við rifumst smá um þetta um daginn, hann sagði að ég væri að búa til vandamál og að hann væri með mér og að hann elskaði mig. En ég er bara svo óörugg, þetta er fyrsta og eina alvöru sambandið mitt eins og áður sagði og ég vil ekki missa hann! Veit ekki hvað ég myndi gera án hans.
Ég bara skil ekki af hverju hans fyrrverandi er að tala við hann… Okey þau hafa gengið í gegnum margt saman og voru góðir vinir í mörg mörg ár, ég skil það alveg… Ég hef heyrt það frá nokkrum vinum mínum að þeir tali stundum við sína fyrrverandi hvort sem þeir eru á föstu eða ekki en mér finnst hún bara ekki eiga það skilið að fá að tala við hann eftir það sem hún gerði honum.
Það sem pirrar mig líka er að kærastinn minn sagði mér ekki frá þessu að fyrra bragði. Ég komst að þessu sjálf þegar ég leit óvart á tölvuna hans og þá var hún að reyna að tala við hann. Ég nefndi það þegar við rifumst en æj, ég man ekki hvað hann sagði við því. Ég held að hann hafi eitthvað misskilið mig.
Ég vil bara fá smá reynslusögur hjá ykkur… Líka bara smá útrás.
Hvað get ég gert til þess að hætta að hugsa um þetta?

Kv
Nafnlaus
Gaui