Þannig stendur að…
Ég á kærasta sem er mjög fínn gaur og allt það (við erum nýbyrjuð saman). Þó að hann sé svolítið eldri en ég þá pössum við vel saman o.s.frv. En það er ekki vandamálið. Stóra vandamálið er að ég er yfir mig ástfangin af besta vini mínum sem að býr 400 kílómetra í burtu.
Ekki sniðugt. Alls ekki sniðugt.
Síðan er það þriðji strákurinn sem að er óskaplega hrifinn af mér en ég bara hef það ekki í mér að segja honum að ég sé bara ekkert hrifin af honum.

En já. Ég fór til Reykjavíkur (þar sem besti vinur minn býr) á föstudaginn. Við fórum bara að chilla heima hjá vini hans og allt í góðu með það. En svo gerist það að ég þarf að fara að taka rútu. Við ætlum að taka strætó uppeftir og allt í góðu með það en ég gleymi nemendaskírteininu mínu. Strætóbílstjórinn rekur mig út og hann kemur náttúrulega með því að hann ætlaði að sjá til þess að ég kæmist á réttan stað. Ég fer í hálfgert panikk yfir að missa af rútunni en við förum aftur til vinar hans og fáum lánað klink. Svo á stoppistöðinni er ég alveg að panikka svo að hann tekur utan um mig til að róa mig og segir “Ef að rútan er farin þá er þetta ekkert þér að kenna og þú gistir bara hjá mér”

Ég samþykkti það og við bíðum eftir strætó, ég í fanginu á honum. Svo loksins komum við þangað sem að rúturnar fóru en þær eru ekki farnar og það er eins og hann verði þvílíkt svekktur. En ég segi ekki neitt þar sem hann er oft svona á svipinn. Við löbbum bara þarna og það er alveg korter í það að rúturnar fari. Hann stendur með mér og faðmar mig á meðan ég svona hálfleita að rútunni minni. Eftir smástund finn segir hann svo “Þú veist þú getur alveg misst af rútunni ennþá. Þú segir bara mömmu þinni það sem við vorum búin að plana.”

Ég þræti örlítið fyrir það en með semingi þó því að mig langaði ótrúlega mikið að vera bara þarna með honum þó að ég þyrfti að taka aðra rútu strax næsta morgun. Við stöndum bara þarna, ég nánast horfin inn í hann því hann hélt mér svo fast að sér, svo finn ég loksins rútuna. Hann labbar með mér að henni og svona og ég bíð alveg þangað til að mér er sagt að koma. Ég sagði bless við hann og ætlaði að fara en hann hélt í höndina á mér. Svo ég teygði mig upp og kyssti hann. Svo fór ég bara upp í rútu allt í góðu með það.

En nú spyr ég. Er ekki hálffáránlegt hjá mér að vera með hinum stráknum hérna heima meðan mér líður svona með hann?

Bætt við 25. febrúar 2008 - 13:00
Strætóbílstjórinn rekur mig út og hann kemur náttúrulega með því að hann ætlaði að sjá til þess að ég kæmist á réttan stað.
hann. á við um vin minn ekki strætóbílstjórann 8-)
Allir hlutir eru haldnir heimþrá til jarðarinnar og þess vegna falla þeir þangað þegar tækifæri gefst.