Núna rétt áðan las ég í fyrsta sinn þráð sem að unnusta mín ástkær bjó til á /rómantík, en ástæða þess að ég las hann ekki fyrr er sú hversu sjaldan ég kíki á þetta annars ágæta áhugamál.

Þráðurinn gengur út á það hversu lítinn tíma ég gef unnustu minni. Annaðhvort er ég alltof lengi í vinnunni á kvöldin eða þá festist fyrir framan tölvuna á kvöldin. Og eins og gefur augaleið þá hefur það valdið brestum í sambandinu. Við elskum hvort annað ofurheitt, og þessi stelpa er það besta sem komið hefur fyrir mig. En sá tími með henni sem nægir mér er of lítill fyrir hana, þ.e. þörf okkar til að eyða tímanum saman er mismunandi. Ég hef ávallt verið einfari í mér, en það er einn af fylgifiskum þess að vera með Asperger heilkenni, ég er ennþá, eftir árslangt samband, að venjast því að hafa lífsförunaut. Hefur þetta áhrif á þann tíma sem við eyðum saman, og einnig hefur það þau áhrif að ég fæ meira en nægju mína af kynlífi, en ég næ ekki að svala þorsta unnustunnar minnar vegna þess hve óaktívur og nægjusamur ég er.

Ég veit ekki hvað ég get gert. Eins og er þá er ég að vinna eins og maniac, aðallega til að spara fyrir skólann næsta vetur, til að geta bjargað okkur báðum í gegnum mánuðinn meðan hún bíður eftir sumarvinnu og til að ég geti reynt að klára meiraprófið. Það er satt að vinnan á ekki að ganga framar ástinni. En það þarf vinnu til að lifa af á fróneyjunni.

Einhverjir nefndu það í hinum þræðinum að ég gæti hugsanlega verið að halda framhjá. Ég vísa svoleiðis kjaftæði á bug. Ég einfaldlega elska unnustu mína alltof mikið til að geta gert henni slíkt, jafnvel þó að ég vissulega megi eyða meiri tíma með henni.

Annars má nefna það að ég las bréfið umtalaða, og hún segir mig hafa stórlega tekið á.


Þetta hljómar sem óregluleg hugrenning. En ég vona að ég fái góð svör um það sem betur má fara.

Ég elska þig lailayr… ávallt! Og það mun ekkert breytast!