Hmm.. veit ekki hvort þetta passi hérna inná - langaði ekki að senda þetta inn sem grein. Veit ekki afhverju. Alls ekkert efni í grein held ég, bara lítil Bollasúpa að tjá sig :)

Veit ekki alveg hvernig maður á að byrja svona lagað en það er svona stundum sem maður fattar ekki alveg hvað lífið er mikils virði.
Fyrir stuttu missti ég eina bestu vinkonu mína eftir langvinn veikindi og hef ég því átt það erfitt – alveg ótrúlega erfitt – núna undanfarnar 2 til 3 vikur.
Ég hef samt verið það heppin að eiga frábærar vinkonur, við studdum hvora aðra í gegnum þetta allt og svo einnig frábærann kærasta sem studdi mig í gegnum þetta allt.

En svo í gær, þá var hann ekki kærastinn minn lengur. Ástæðurnar eru of flóknar til að ég fari að telja þær upp og ég vil heldur ekki segja eitthvað sem er ekki rétt.
Ég elska hann hins vegar og ég veit að hann elskar mig þó að við séum ekki saman lengur. Ég á núna bara einn rosalega góðan vin í staðinn fyrir kærasta.

Veit að einhverjum finnst kannski slæmt af honum að hafa endað þetta á þessum tíma þegar ég er búin að eiga svona erfitt en ég hefði frekar viljað það heldur en að vera í sambandi með einhverjum sem vill það ekki.

Ég þurfti líka kannski aðeins að vakna og byrja að njóta lífsins enda er manneskjan sem ég sé í speglinum alls ekki sama manneskjan og var þar í sumar. Föl og þreytt stelpa, enginn neisti í augunum á mér og þegar ég brosi þá líður mér eins og það sé þvingað. Þegar ég hlæ vantar allt líf og alvöru í hláturinn - þarf sennilega að finna mig aftur. Mig sem var í sumar og mig sem ég vil verða aftur.

Ég veit ekkert hvort að við verðum nokkurn tímann saman aftur eða hvort við eigum eftir að halda sambandi við hvort annað í mörg ár, sem ég vona þó, en það er víst að það tekur mig langan tíma að fara að elska einhvern annan jafn heitt og ég elskaði hann.

Enn og aftur kemur setningin ,,enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur” í hugann á mér, sérstaklega þó í sambandi við elsku vinkonu mína sem hefur farið héðan.
Með skrifum hennar sem við fengum ekki að sjá fyrr en eftir að hún var látin þá áttaði maður sig á því hvað lífið er ótrúlega mikils virði, erfitt og fallegt. Og ef einhver vissi það þá vissi hún það. Enda hafði hún gengið í gegnum erfiðari þrautir en flest fólk sem ég þekki. Lásum bréf sem hún hafði skrifað til frænku sinnar í bandaríkjunum og hún var svo sannarlega manneskja sem vissi að lífið snérist um að lifa, elska og njóta. Sama hversu erfitt það var. Enda sást hún varla án þess að vera brosandi og hlæjandi.

Núna hef ég áttað mig á og er það að miklu leyti henni og besta vini minum, sem ég elska, að þakka að ég er farin að líta á lífið öðru sjónarhorni og ég finn hvað ég er orðin rólegri innan í mér – þó svo að mér líði alveg ótrúlega illa yfir að geta ekki kallað hann ,,minn” lengur.

Við erum mjög ólíkar manneskjur og kannski þessvegna sem þetta gekk ekki, enda verð ég sennilega aldrei eins og hann og hann verður sennilega aldrei eins og ég en hann hefur samt kennt mér hvað það er mikilvægt að taka lífinu með ró og gleði og lifa því almennilega fremur en að sitja heima og vorkenna sjálfum sér þegar maður getur verið viss um að það sé einhverstaðar úti einhver annar sem er verr settur en maður sjálfur.

Lífið hefur svo margt upp á að bjóða
Ekki horfa á það þjóta framhjá

Lifðu, elskaðu og njóttu.
~Bollasupa
sem vill þakka Ungoliat fyrir stuðninginn og einhverjar bestu stundir lífs síns