Ung stúlka hafði samband við mig í gegnum skilaboðakerfi Huga. Hún bað mig um aðstoð en ég tjáði henni að ég væri lítið að svara einkaskilaboðum lengur, heldur yrði að fá að deila þeirri aðstoð sem ég veitti með öðrum Hugurum, því minn tími til aðstoðar er ekki ótakmarkaður. Hún sagði að mér væri það velkomið undir nafnleynd.

Hér fyrir neðan birti ég bréf hennar undir nafnleynd og svo mínar ráðleggingar til hennar. Ég mun einnig birta þau svör sem hún sendir mér síðar (undir nafnleynd) er varða hennar vandamál.
———————————————

Sæll

Það er erfitt að vera unglingur og verða hrifinn af e-m. Vildi bara fá álit frá fróðleiksmolanum og gá hvað þér fyndist. :)

Vil að það komi fyrst fram að ég hef satt að segja aldrei verið með strák. Verið hrifin af þeim nokkrum en aldrei neitt gengið því ég er það feimin og þorði aldrei neitt að segja né gera face to face.

En þannig er mál með vexti að í vor byrjaði ég aftur í fótboltanum eftir slæm meiðsli og árs fjarveru, með nýjan ungan þjálfara. Fyrst um sinn var mér alveg sama. Ég viðurkenndi alveg að hann væri myndarlegur en það var ekkert annað.

Eftir að hafa æft í rúmar tvær vikur var fótboltamaraþon, sem þýddi að ég eyddi heilum sólarhring með drengnum í sama húsi. Þarna byrjaði hrifningin og hefur ekkert annað en aukist síðan. Reyndi að bæla þetta niður en gat það ekki, því miður. Ég reyndi eins og ég gat að hugsa ekki um hann, en allt kom fyrir ekki. Því meira sem ég kynntist honum þegar leið á sumarið, því meira féll ég fyrir honum.

Núna er komin ágúst og ég er orðin mjög hrifin, myndi samt ekki segja ástfangin. Ég fékk þá hugdettu að segja honum rétt áður en mánaðarfrí í fótboltanum byrjar hvernig mér líður. Ég vil að hann fái að vita það frá mér frekar en öðrum þótt að ekkert verði úr. Er vit í því hjá mér? Ég vil sjá viðbrögðin hans og þetta á eftir að vera vandræðanlegt en ég vil að hann heyri það og heyri það frá mér.

Drengurinn er svo að fara til Danmörku næsta vor, þannig að ég vildi láta allt vera í vetur, bíða eftir að hann fari og þá kannski hverfa þessar tilfinningar. Þori ekki að gera neitt af hræðslu við að vera særð.

En hinsvegar er ég oft að heyra að maður sjái oft eftir því að hafa aldrei reynt hitt eða þetta og tækifærin koma aldrei aftur. Svo ég vil heyra hvað þér finnst um það sem ég ætla að gera.

Með von um svör,
“X”

————————————-

Sæl “X”.

Vandamál þitt má í raun kalla tvíþátta, þ.e.:

1) Þú ert hrifinn af honum og langar til þess að ná sambandi við hann og tjá honum tilfinningar þínar.

2) Hann er að fara til útlanda í X langan tíma.

Ég veit ekki hversu langur tími “X” er, en í þessu dæmi verður það að segjast að það skiptir máli. Ef hann er að fara “til framtíðar” án þess að nokkuð gæti varnað því og þú gætir ekki farið með honum, þá tel ég best að láta hann algjörlega vera eins og þú stingur upp á og aldrei tjá honum tilfinningar þínar. Málið er það, að ef þú ferð og tjáir honum hvað býr í brjósti þér og hann finnur til svipaðra tilfinninga í þinn garð, þá er nærri því ómögulegt að þið tvö getið látið það vera að verða hrifin af hvort öðru. Þið eigið þá eftir að byrja saman og þú átt eftir að ganga í gegnum hryllilegan tíma þegar hann þarf að fara frá þér til frambúðar (er nýbúin að aðstoða stúlku er missti kærastann sinn frá sér í mjög langan tíma, miður skemmtilegt mál). Ef þú hinsvegar sérð fram á einhverja leið til að fara með honum (mjög líklega leið); að hann fari ekki eða þá að hann er ekkert að fara í langan tíma, þá tel ég rétt að tjá honum þær tilfinningar er búa í brjósti þér.

Að fólk sjái eftir því að tjá manneskju aldrei tilfinningar sínar í hans/hennar garð getur verið alveg rétt. Hinsvegar, þá verður einnig að beita skynsemi í þeirri ákvarðanatöku. Ef sú kona/karl er að fara burtu til frambúðar, þá er óþarft að bjóða heim slíkum hjartans sársauka er þessháttar atvik getur valdið. Þá er best að muna að sú manneskja myndi hvort eð er hverfa út úr lífi manns, og þar af leiðandi geta sætt sig við og skilið að tjáning á sínum innri tilfinningum við þann ákveðna einstakling hefði verið eitthvað sem hefði á endanum gert ekkert nema særa, ekki bara þig sjálfa heldur ykkur bæði ef þið þurfið síðan að hveðja hvort annað um ókomna tíð.

Til að fá nákvæmnara svar þarftu að láta mig vita hvernig stendur í málunum varðandi brottför hans til Danmerkur. Ef hann er ekki að fara til frambúðar tel ég skynsamlegt af þér að tjá honum líðan þína í hans garð. Ef þú villt nákvæmari aðstoð, skilgreindu þá þá spurningu nánar og ég skal gera mitt besta við að hjálpa þér.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli

P.s Ef fleiri spurningar/hugsanir berast mér frá þessari ungu stúlku mun ég birta þær á þessum kork með hennar leyfi undir nafnleynd.