Ég er særður… Spurning hve mikinn rétt ég hef á því því ég get alveg viðurkennt að ég hef gert mikið af særandi mistökum. En ég er samt særður. Þetta er hálfgerð saga af því sem gerðist milli mín og fyrrverandi kærustunnar minnar… Við hættum aldrei að verða hrifin af hvort öðru allan tímann sem við vorum ekki saman. (Ath, fjarlægðarsamband)

Hmm… Mistökin mín voru t.d. þau að fara á fyllerí 2 dögum eftir að mér var sagt upp. Þar spurði ég vinkonu mína hvort ég mætti kyssa hana og hún sagði nei og ekkert meira gerðist. Málið er bara að þetta er einmitt vinkona sem fyrrverandi kærastan mín var hálfhrædd um (þegar við vorum saman) að ég væri eitthvað hrifinn af eða eitthvað þannig. En ég spurði bara (minnir mig) til að sýna minni fyrrverandi að ég gæti alveg verið án hennar og þannig… Sem var náttúrulega ekki satt. En hún semsagt særðist við þetta… Fannst einsog ég hefði komist yfir hana á tveimur dögum og að hún hefði verið mér einskis virði. Sem er einmitt ekki alveg satt því ég var að reyna að komast eitthvað yfir hana þá en hætti því fljótlega því ég vissi að það myndi ekki virka og komst því aldrei yfir hana, plús það að hún er mér alls ekki einskis virði. Hefur verið besta vinkona mín og mér þykir ekki vænna um neinn annan…

Eftir einhverja stirðleika byrjuðum við samt aftur að tala saman. Gekk á með ýmsu í fyrstu en að lokum vorum við alveg góðir vinir aftur… Þó hún hafi enn verið smásár yfir þessu sem ég gerði á fylleríinu lét hún ekki bera á því.

Síðan hittumst við og þrátt fyrir að hún hefði lofað sjálfri sér að ekkert myndi gerast gerðist eitthvað. Við kysstumst og eyddum miklum tíma saman þá helgi.. Henni finnst núna einsog hún hafi bara verið auðveld og asni að vera með mér þá. Vegna þess sem hún segir um að ég hafi komist yfir hana á tveimur dögum og að hún hafi verið mér einskis virði. Sem hún trúir statt og stöðugt, sama hve oft ég segi henni að það sé ekki satt. Ég hef ekki gefið henni neina ástæðu til að treysta mér ekki, ég er ekki í sífelldu að ljúga að henni, en hún trúir mér samt ekki varðandi þetta. Það er særandi…

Vegna þess að ég er ekkert að leyna hlutum fyrir henni sagði ég henni frá því að ég væri hálfeinmana og langaði að finna mér e-a stelpu til að kúra með… Ekki samband, ekki neitt rómantískt, bara kúra með til að vera ekki svona einmana. En henni finnst að maður kúri ekki bara með vinum sínum og vill ekki trúa að það sé ekkert meira… Once again, ákveður hvernig mér líður.

Ég reyndi að segja henni þetta allt í gær. Hún trúði mér bara ekki. Þegar ég sagði svo að ég væri ekki kominn yfir hana sagði hún að ég vildi bara hafa hana í takinu, svona ef mér gengi illa með aðrar stelpur. Sem er, enn og aftur, ekki satt.

Það er virkilega særandi hve litla trú hún virðist hafa á mér… Ég hef alltaf sagt henni satt, og ef ég hef gert mistök hef ég sagt henni frá því. Ekkert verið að ljúga að henni. Svo núna, þegar ég segi henni hvernig mér líður, vill hún ekki trúa mér.

Við höfum verið vinir síðan við hættum saman þó eitthvað hafi komið uppá þrisvar sinnum síðan þá. Allt eitthvað gamalt, eitthvað síðan áður en við hittumst seinast og höfðum gaman. Ég er ekki kominn yfir hana og hún er ekki komin yfir mig. Ég trúi ekki að það séu margir aðrir gamlir draugar til að skjótast upp á yfirborðið. En samt sem áður virðist sem hún geti ekki verið með mér… Vinasambandið gekk alveg ágætlega, við töluðum ekkert um né hugsuðum um eitthvað meira. Vitum samt að það getur alltaf eitthvað gerst þegar við hittumst, en vorum ekkert að pæla í því meðan við gátum ekki hist. Það var eitthvað til að hugsa um meðan við hittumst, og vera svo vinir bara þess á milli.

En síðan getur hún ekki trúað mér varðandi hvernig mér líður. Ég hef margoft sagt henni hvernig mér virkilega leið en hún trúði mér ekki. Ég veit að fólk hefur áður grínast með tilfinningar hennar en ég myndi aldrei gera svoleiðis… Hélt hún vissi það orðið.

Ég hef gert mistök sjálfur, særandi, ég veit það. En ég hef aldrei logið að henni. Alltaf sagt hvað mér finnst og hvað ég gerði.

Hvað á að kalla þetta, útrás? Veit ekki einu sinni tilhvers ég er að birta þetta, munu líklegast bara vera enn ein mistökin því hún mun pottþétt rekast á þetta…