Eflaust djöfuls rugl og væl í mér.

En það er málið að ég á vinkonu sem ég sé hreinlega ekki sólina fyrir. Erum búinn að þekkjast og vera nær óaðskiljanleg í um tvö ár, með smávegis hléum sem eru tilkomin vegna væntanlega sjúklegrar afbríðisemi í mér. Í bæði skiptin vegna þess að ég gat hreinlega ekki talað við hana því hún hafði einhvern áhuga á öðrum guttum.

En svo virðist sem við samt sem áður getum ekki slitið okkur hvort frá öðru þegar við svo tölum saman. Og svona einhvernvegin allan tíman hefur verið einhverskonar spenna á milli okkar, spenna sem mér þykir erfitt að höndla og skilja. Nefnilega erum í raun miklu meira en bara vinir, án þess þó að það hafi einhvertíman farið yfir mörk hins siðlega. Getum allt að því klárað setningar sem hitt byrjaði á, og við getum þagað í langa stund saman án þess að þögnin verði nokkurtíman vandræðaleg. Hún hefur játað fyrir mér að þegar ég er nálægt þá einhvernvegin finni hún fyrir öryggi og finnist hún geta verið hún sjálf, án þess að vera að feika nokkuð. Og oft á tíðum mætti skilja líkamsmálið líkt og hún vildi eitthvað meira en bara vinskap. Nema hvað þetta allt er aðgera mig gjörsamlega brjálaðan, því mér þykir alveg þvílíkt vænt um hana. Veit að ég í raun elska hana, en fer alveg rosalega í mig að geta ekki sýnt henni það. Hún nefnilega veit að ég hef alltaf verið mjög heitur fyrir henni, allt frá því að ég leit hana augum fyrst. Og alls ekki vegna þess að ég hef sagt henni það, hún hefur fundið það. Svo stundum hefur borist talið af okkar mjög brothætta “sambandi”. Þá talar hún eins og hún vilji eitthvað en þori ekki vegna þess að vinskapurinn gæti farið í súginn. Nema hvað að í okkar tilfelli þá í raun höfum við allt sem gott samband þarf að príða. Hún talar alltaf um kannski og ef eitthvað myndi gerast. Nema hvað að hlutirnir hafa þegar farið af stað, en verið stöðvaðir, því miður.
Td um daginn, þá vorum við í góðu game-i heima hjá henni að horfa á imbann. Jújú ekkert nema gott um það að segja. Nema hvað að svefnin gjörsamlega sigrar okkur bæði. Vöknum þó einhvertíman þegar líða er farið á nóttina. Nema hvað að letin er alveg að fara með mig og í raun vissi ég hvað myndi gerast ef ég færi ekki. Þannig að ég af einhverjum undalegum ástæðum ákvað að vera þarna nóttina, hátta ofaní rúm og bara legst undir privat sæng þarna og alles. Nema hvað að við erum bæði gjörsamlega andvaka í dágóða stund. Og allt í einu eins og hendi væri veifað þá erum við alltí einu að kyssast líka svona rosalega, algjörlega án þess að nokkuð hafi verið sagt. Vissulega einhverjir þeir frábærustu kossar sem ég hef upplifað, og vildi gjarnan fá tækifæri til að fá fleiri. Lengra fór þetta þó ekki, og ég var ekkert að minnast á það, enda fannst mér bara alls ekkert liggja á, en ég heyrði að hún bölvaði því samt við sjálfa sig í hálfum hljóðum.
En ástæðuna fyrir þessum kossum sagði hún vera að hana hafi bara alltaf langað til að kyssa mig og í raun væri lítið bak við þetta annað en það. En ég samt sem áður þykist vita að hún er nú ekki eins shallow og hún vill láta líta út fyrir. Búinn að þekkkja hana alveg nóg og lengi til þess. Veit að henni þykir rosalega vænt um mig og allt það. Og það bara hlýtur að vera eitthvað meira á bakvið þetta. Meina manneskjan tæki varla sjénsinn á þessu vitandi það að ég myndi vera hálf haltur á eftir, eða? Maður spyr sig. En þrátt fyrir öll áföllin sem við höfum mátt þola, þó ég nefni nú ekki þau helstu hér, þá þykir mér alls ekki minna vænt um það fyrir því. Styrkist ef eitthvað er. En nú þegar “sambandið” er aftur komið í gamla farið, þar sem einu kostirnir virðast vera að við gerum eitthvað í þessu öllu og hefjum eiginlegt samband með öllu tilheyrandi eða allt hreinlega springi í loft upp, þá veit ég varla mitt rjúkandi ráð. Rétt næ fyrir einhverja hundaheppni að halda andlitinu.

Þannig að ég spyr, er virkilega einhver framtíð í þessu og er þetta kannski bara hræðsla í henni? Hvað gæti hún hugsanlega sett fyrir sig? Eða er ég bara verulega hrifinn af rangri mannsekju, þó svo að samband okkar hafi grundvallast á svona samskiptum alla tíð. Þetta hefur alltaf verið svona, og mun varla breytast nema við gerumst skyndilega kunningjar uppúr þurru. Ég td passa mig mikið að vera ekkert að hringja af fyrrabragði nema við höfum rætt það eitthvað, nema að mig alveg hreint dauðlangi að heyra röddina hennar. En hún hringir alltaf í mig um leið og hún veit af mér í bænum, vinn langt í burtu og er mikið fjarverandi vegna þess. Og á meðan ég er heima þá bara kæmist varla hnífsblað á milli okkar. Meina, allir í kringum okkur halda að við séum saman, eða allavega að eitthvað sé í gangi. Mamma heldur jafnvel að þetta sé tilvonandi tengdadóttir hennar, og hún segir að foreldrar hennar hætti varla að tala um mig, hvað ég sé dásamlegur og þar fram eftir götunum. Ég hálfpartin fer hjá mér að heyra það, en framkoma mín við hana lýsir sér algjörlega eins og tilfinningar mínar til hennar eru. Það er ekki neitt sem ég get neitað henni um, innan skynsamlegra marka þó. En samt sem áður þori ég lítið að taka af skarið, bý nefnilega í glerhúsi og því óráðlegt að kasta fyrsta steininum.

Þannig að já, ég held að þetta sé bara komið, allavega í bili. Endilega skrifið hvað ykkur finnst og endilega að kommenta á þetta.

kv.