Stundum geta karlmenn verið afskaplega rómantískir og sýnt á
sér hlið sem fáir vissu af. Það er líka til dæmi um að
karlmenn geti verið algjör andstæða og órómantískari menn
er varla hægt að finna.
Sumir hafa haldið því fram að með árunum tapi karlmenn
hæfilekum sínum til að verða rómantískir og þegar menn hafa
verið lengi í sambandi sé rómantíkin farin með öllu!

Við hjá pabbar.is fundum út þennan lista sem gott væri að
lesa yfir. Kannski er eitthvað sem á við þig þar? Við höfum
einnig nokkur ráð sem hægt væri að skoða og ef þú notar eina
aðferð af þessum tíu ertu sannur Rómeó.


10. Þú kveikir á kertum aðeins í rafmagnsleysi!

Það er gulltryggð rómantík að hafa kertaljós logandi af og
til. Jafnvel á sumrin, en vetrartíminn er tími kertanna.
Vertu óhræddur að kveikja á kertum, jafnvel í baði og kerti
sem gefa góða lykt eru ‘velkomin’ í baðherbergið. Kertaljós
við matborðið er glæsileg sjón og frábært ef þú töfrar fram
góðan mat um leið. – Óhræddur með kertin!

9. Þú klúðrar rómó-gönguferðinni sem konan biður þig að
koma í, með því að segja: “já, best að fara út með ruslið í
leiðinni….ertu kannski til í að halda á því fyrir mig?”

Konur elska að fara í rómantískar gönguferðir t.d. með
ströndinni þegar kvöldsólinn er að setjast eða bara þar sem
þið eruð tvö ein. Ef þú klúðrar því með því að taka með þér
vasaútvarp til að missa ekki af leiknum eða bara til að
losna við að þið ræðið saman, þá er voðinn vís fyrir þig og
konan borgi fyrir sig tíma sem þú vilt ekki að hún sé að
‘borga’ fyrir gamlar syndir frá þér! Notaðu
sumarbústaðaferðina, utanlandsferðina nú eða bara fallegt
kvöld til að þið farið í kvöldgöngu-tvö ein!

8. þú kaupir gjöf handa ‘henni’ og það er ný borvél og það
fylgir flott bitasett með-þú segir svo þegar hún er búinn
að opna pakkann: “Æðislegt finnst þér ekki ástin mín? Má ég
fá vélina lánaða?”

Þegar þú kaupir gjöf handa maka þínum þarftu að vera viss
um að það sé bara fyrir hana, en ekki fyrir þig eða
‘heimilið.” Nýtt strau borð er t.d. ekki fyrir konuna.
Gjöfin þarf að vera alveg sérstaklega fyrir hana og gæti
verið skartgripur, en konur fá ALDREI nóg af skartgripum,
eða þá dekurdagur á snyrtistofu eða heilsulind þarf sem
nudd og afslöppun er aðalsmerki. Konur elska dekur og
rólegheit.

7. Þegar konan þín biður þig að taka fallega stelpumynd út
á leigi, heldur þú að “Stelpumynd” sé blá mynd um lesbíur!

Konum þykir mjög gaman að kúra upp í sófa og horfa á
fallegar bíómyndir sem jafnvel framkalla tár. Vertu
tilbúinn að horfa a.m.k. einu sinni á þannig mynd og þá
skaltu halda utan um hana og vertu tilbúinn með pappír ef
tár koma hjá konunni. Segðu að þér þykir myndin afar
falleg. Ef þú þarft að gráta líka, skaltu bara gera það því
hún skilur það vel og kann því vel að þú lifir þig líka inn
í myndina.

6. Þú heldur upp á trúlofunar- eða brúðkaupsafmælið ykkar á
veitingastað sem bíður sérstaklega upp á “Tveir fyrir einn”
tilboð og þú segir henni að fá sér ódýrari réttinn.

Það er mjög mikilvægt að eiginmaður viti hvenær
brúðkaupsafmælið var og sérstaklega að vita hvernig halda á
upp á daginn. Það er auðvelt að setja daginn í dagbókina í
Gemsanum eða tölvunni og láta tæknina hjálpa sér að muna
svona daga. Svo á leiðinni heim þá kaupum við blóm eða
bjóðum konunni út að borða. Það þarf ekki að vera dýr
máltíð, en ekki líka alls ekki ódýr. Burger King er t.d.
ekki dæmi um að fara út að borða með konunni!

5. Þú fattar það á síðustu stundu að hún eigi afmæli og
ferð út á bensínstöð til að kaupa blóm og verðmiðinn er enn
þá á þegar þú afhendir henni blóminn.

“Látum blómin tala” var einu sinni sagt í einni auglýsingu
og það eru orða að sönnu. Blóm segja allt sem segja þarf og
fallegur blómvöndur eða bara ein falleg rós er frábært að
mæta með, sérstaklega vegna þess að þú ert að sýna að þú
manst eftir deginum…með aðstoð gemsans eða tölvunnar, en
hún þarf ekkert að vita það!
Þú gætir trompað kvöldið með því að koma á óvart um kvöldið
í svefnherberginu og gefið henni eitthvað, eða látið Tarzan
búninginn þinn slá í gegn! Vertu samt rólegur…Tarzan!

4. Þú ætlar að elda rómantískan mat fyrir hana og keyptir
1944 skyndirétt og dundar þér við að raða kjötbollum
fallega á diskinn og segir svo stoltur þegar þú réttir
henni diskinn sem er of skreyttur: “Þetta kalla ég
rómantískan mat.”

Þegar konur heyra það að þú ætlir að elda rómantískan mat
handa þeim, þá halda þær að þú verðir með ítalskan,
franskan eða öðruvísi mat, en ekki skyndimat eða Take-Away
mat frá Kínastaðnum. Það er ekkert mál fyrir þig að leita
aðstoðar t.d. hjá systur þinn, mágkonu eða vinnufélaga til
að fá leiðbeiningar um góða rétti. Nú svo má alltaf redda
sér með bókum frá Jóa Fel. Það er voða auðvelt margt sem
strákurinn gerir. Vertu hugmyndaríkur og óhræddur að fá
aðstoð.

3. Einu skiptin sem þú kaupir konfekt handa henni, er þegar
það er á útsölu í Hagkaup og þá kaupir þú nógu stórann svo
þú fáir líka.

Margar konfektbúðir bjóða upp á það að þú getir sérvalið
konfekt. Reyndu að komast að því hvaða molar séu bestir í
hennar augum og keyptu þá. Einnig er hægt að kaupa fallegar
gjafaöskjur sem tileinkaðar eru ástinni og fl. Dagar eins og
Valentínusardagurinn er tilvalinn að rækta ástina og koma á
óvart, en það má líka gera þetta á örðum dögum og t.d. ef
þú losnar snemma heim úr vinnunni þá er frábært að koma á
óvart og koma við í Konfektbúðinni. . Það þarf ekki að vera
dýrt. Dæmi er um að versla konfekt fyrir 500-1000 krónur með
öskju eða skál. Bara að þú munir hvaða molar það eru sem hún
elskar, það er númer eitt, tvö og þrjú!

2. Þegar þú ætlar að vera rómantískur og hvíslar í eyrað á
henni og segir: “Viltu koma inn í svefnherbergi og slá með
‘hamrinum’ mínum,” ertu alveg að fara með dæmið til
fjandans.

Konum finnst ekki rómantískt að heyra karlmenn segja
ruddaleg orð um samfarir eða það að elskast. Þær vilja
heyra þessi orð “elskast, samfarir”. Ekki orð eins og: “Má
ég slengja pylsunni minni í brauðið þitt?”, eða “Á ég að
þrykkja þér í rúmið og hömpa á þér ærlega kérling?” . Svona
talsmáti er dauðadæmdur og ef þú heldur svona talsmáta út
lengi verður samband þitt við Lófa-fimm-boga mjög náið!


1. Einu skiptið sem þú kyssir hana er þegar þú ert lagstur
ofan á hana í svefnherberginu og ‘þú’ ert að fara gera það!


Öllum konum finnst gott að kyssast. Það að vera kyssast
þarf ekki endilega að enda með samförum. Gott kossaflens
getur verið sem frábær forleikur og ef þú ert góður í
kossum þá ertu ‘baaara’ góður! Komdu á óvart og kysstu
konuna þína þegar hún á minnst von á því og gefðu þér þá
góðan tíma og gerðu kossinn ógleymanlegan. Ef þú ert búinn
að gleyma hvernig á að kyssa þá má redda sér á þennan hátt:
Taktu vinstri hendi og myndaður O hring með þumalfingri og
vísifingri og kysstu O hringinn varlega. Vertu í næði að
þessu, annars heldur fólk að þú sért orðinn bilaður og þú
verður rekinn fyrir að elskast við sjálfan þig!
Mundu bara að vera rólegur og kyssa fallega og yfirvegað!
Það bifar-trúðu mér! Mundu svo að segja af og til: “Ég
elska þig….mikið ertu með mjúkar varir…það er svo gott
að kyssa þig!”.



Það er afar auðvelt að skrifa nokkrar línur um það hvernig
Á að vera rómantískur og hitt er annað að fara eftir því.
Það er því mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að
rómantík er líka fyrir karlmenn og við getum líka haft
gaman af rómantíkinni. Mestu skiptir að vera gefandi og
skipulagður. Vertu óhræddur að sýna rómantík…
Ef þú leggur þig allan fram við þetta, verður þú
aðalumræðuefnið í saumaklúbbnum og vinkonur konu þinnar
horfa á þig girndaraugum þegar þú kemur heim úr bíó um
kvöldið og hélst að saumaklúbburinn væri farinn. Þú ert þá
búinn að slá í gegn og trúðu mér, það fá ALLIR að vita það
að þú ert rómantískur-líka mamma þín!