Ég hef bara einu sinni upplifað ástarsorg (ef það er rétta orðið fyrir það).
Annars er ég ekki alveg viss um hvað þetta var, kannski meira söknuður!
Ég hætti nefnilega með honum eftir nokkurra mánaða samband. Var ekki nógu hrifin af honum, svo mikið er víst en ég áttaði mig á því seinna að ég var samt rosalega ástfangin af honum. Fannst hann bara gefa meira í sambandið og miklu meira til í að leyfa þessu að ganga lengra en ég. Mitt alfyrsta samband og var orðin svo ráðvillt um tilfinningar mínar að ég var farin að vonast til þess að hann myndi hætta með mér (sem átti aldrei eftir að gerast þar sem ég vissi hversu yfir sig ástfanginn hann var) en þegar á það stig er komið er þetta nú orðið heldur furðulegt. Mér fannst þetta ekki rétt og ákvað að hætta með honum. Ég vissi að það yrði erfitt en samt ekki svona gífurlega. Við grétum bæði mikið, saman og ekki saman og ég hugsaði ekki um annað en hann. Ég gat ekki sleppt honum, engan veginn og vildi helst hitta hann á hverjum degi. Honum leið eins en bakkaði samt aðeins meira út úr þessu en ég þar sem ég hafði talið honum trú um að við myndum ekki byrja saman aftur og fannst svo erfitt að hitta mig. En jæja, við hittumst nú samt næstum á hverjum einasta degi. Í rauninni breyttist lítið nema það að allt var miklu stirðara og við vorum ekki eins mikið að kyssast og þess háttar. Tilfinningin var allt önnur. Hann var mér líka alltaf svo rosalega reiður því ég gat í rauninni enga útskýringu gefið á þessu. Ég var bara svo rosalega stressuð og hrædd eitthvað. Langaði meira en allt að byrja með honum aftur en var svo ofsalega hrædd um að “beila” á þessu öllu saman aftur svo að ég taldi mér og honum endalaust trú um að við myndum bara aldrei byrja saman aftur því þetta myndi ekki ganga.

Á endanum (eftir heila 2 mánuði) gafst ég upp og er guðslifandi fegin því að hafa tekið þá ákvörðun og fyrst og fremst að hann hafi ennþá viljað mig!

Hann tók mér aftur eftir smávegis umhugsun og við erum búin að vera svo rosalega hamingjusöm síðan og ég vil helst aldrei þurfa að ganga í gegnum þetta aftur. Að minnsta kosti mun það þá ekki koma upp frá minni hlið og ég stórefast um það frá hans hlið heldur.
Erum búin að vera saman núna í 2 ár! :)



Langaði bara svona að deila minni “sögu” með ykkur og endilega fá reynslusögur til baka!

-magnea