Síðustu 7 ár hef ég eiginlega alltaf átt kærasta. Hef bara hreinlega ekki getað verið ein. Mér finnst alveg hræðilega skammarlegt að viðurkenna þetta, finnst ömurlegt að vera ein af þessum stelpum sem geta ekki hugsað heila hugsun án þess að einhver mati mann.
Núna hef ég ákveðið að gera eitthvað í málinu, langar að öðlast meira sjálfstæði, sjálfsvirðingu OG sjálfstraust.
Mig langar ekki í kærasta. Og hana nú. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér og ég verð alltaf sannfærðari og sannfærðari. Ég hef ekkert með kærasta að gera. Ég hætti með kærasta mínum til 8 mánaða fyrir ekki svo löngu því við vorum of ólík, við vildum ekki sömu hluti, vildum ekki vera á sama stað, (hann vildi ekki vera á íslandi, en skólinn sem mig langaði í er á íslandi) og höfðum ekki sömu hugmyndir um ýmis mál… hljómar heimskulega en sem dæmi þá fannst honum í fína lagi að sitja heima, gera ekkert og þiggja atvinnuleysisbætur. Þetta þykir mér argasti aumingjaskapur og kjaftæði. En það sorglega er að við smellpössuðum saman að svo mörgu öðru leyti og ég var virkilega ástfangin af honum (eins og hann var, með kostum og göllum) Ég hugsa enn um hann á hverjum degi og pæli hvort að ég hafi hugsanlega gert einhver mestu mistök… en ég held ekki… Ég hef öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa. Ég þarf að hugsa um sjálfa mig í smá tíma, læra að þekkja og virða sjálfa mig áður en ég fer útí samband.
Ég er virkilega stolt af þeim hlutum sem ég er að gera alveg ein þessa dagana, án hjálpar frá nokkurri annari manneskju. Ég er hamingjusamari nú en nokkru sinni fyrr!! :)