Baráttan um piparsveininn Á einni sjónvarpstöðinni hér er verið að sýna einn af þessum raunveruleika þáttum og þessir nefnast “The Bachelor”, eða Piparsveinninn. Þessir þættir ganga út á að 25 gullfallegar og gáfaðar konur eiga að “slást” um 31 árs myndarlegan og ríkan piparsvein. Sú sem stendur uppi sem sigurvegari á von á að verða eiginkona piparsveinsins. Það er samt engin skylda að giftast ef engin skyldi nú heilla karlinn nógu mikið, eða ef sú útvalda er ekki nógu ánægð með hann, en þetta er svona það sem þættirnir stefna að.

Í fyrsta þættinum komu konurnar 25 heim til piparsveinsins, en hann býr í einhverri risastórri villu, og þar eyða þær einni kvöldstund með honum. Eftir það partý þarf piparsveinninn að velja 15 úr sem fá að halda áfram, þannig að fyrsta valið byggist í raun bara á “first impression”.

Í næsta þætti (sem ég missti reyndar af) var sýnt frá þegar þessar 15 eyddu nokkrum dögum á heimili glæsigæjans, fóru með honum í s.k. “group dates”, en þá var konunum skipt upp í minni hópa sem fóru hver um sig á deit með piparsveininum til að kynnast honum nánar. Eftir ákveðinn tíma þurfti piparsveinninn enn að velja úr og að þessu sinni fengu 8 að halda áfram.

Í þriðja þættinum komu vinahjón piparsveinsins í heimsókn og lögðu fyrir allar dömurnar ákveðnar spurningar, s.s. hvort þær notfærðu sér þann rétt að kjósa, hvaða máli kynlíf skipti í sambandi og einhverjar fleiri svona fegurðardrottningaspurningar. Síðan völdu þau úr þær þrjár sem voru með svör líkust þeim sem piparsveinninn sjálfur hefði svarað, og þessar fengu að fara á “privat date” með prinsinum. Hinar 5 fóru svo á grúppudeit. Að þessu loknu þurfti piparsveinninn enn og aftur að fækka hópnum, að þessu sinni í fjórar.

Næst á dagskrá er að hver þessara fjögurra fær að fara með mögulegan tengdason heim til að kynna hann fyrir mömmu og pabba og fjölskyldunni. Ég reikna með að einn þáttur fari í hverja dömu, en þættirnir eru í heildina átta talsins.

Í lokaþættinum á svo piparsveinninn að velja úr þessa einu sem verður svo heppin að verða eiginkona hans.

Hmmm, hljómar næs? Eða hvað?

Ég skal viðurkenna að mér finnst afskaplega gaman að fylgjast með þessum þáttum, en ég velti samt fyrir mér hvort það sé hægt að koma á traustu hjónabandi með þessum hætti? Jú, piparsveinninn fær þarna tækifæri á að velja úr 25 konum þá sem honum líst best á; hina fullkomnu eiginkonu.

En ég leyfi mér að efast um að þetta sé allt til góðs.

Í fyrsta lagi er maður búinn að sjá mikla svekkelsi hjá mörgum þeim konum sem ekki voru valdar áfram. Hvernig fer slíkt með sjálfstraustið? Sumar þeirra jafnvel orðnar yfir sig ástfangnar, aðrar með sært stolt. Ein fékk hreinlega kvíðakast í lok síðasta þáttar vega þess að hún var ekki valin áfram, með andnauð og öllu tilheyrandi og sjúkrabíll var kallaður til. Vá!

Svo er alveg greinileg afbrýðisemi í gangi. Meira áberandi hjá sumum en öðrum. Þær sem eru í náðinni hjá draumaprinsinum fá þvílíkar augngotur frá hinum og eru sko ekki vinsælar.

Svo er það piparsveinninn sjálfur. Hann er hinn huggulegasti og viðkunnanlegasti maður. Myndarlegur, ríkur, kurteis og sjarmerandi, ekki slæmt það. En hann er í þvilíkri krísu að velja úr þessu kvenfólki sem allar eru rosa spenntar fyrir honum. Honum líður illa þegar hann þarf að senda sumar heim og er skíthræddur um að gera mistök þannig að hann missi af draumaprinsessunni. Hann er orðinn hrifinn af nokkrum, búinn að kyssa þær nokkrar, bæði á grúppudeiti og á privat deiti, langar örugglega að sofa hjá þeim öllum… og svo á hann að velja eina úr sem verður konan hans.

Ég er mikið að velta fyrir mér hvort umgjörðin geri það að verkum að piparsveinninn ætlist til að konan sem hann velur verði fullkomin. Hvað ef hún síðan gerir einhver mistök eftir að þau eru gift, eða þegar ágreiningur kemur upp í hjónabandinu? Mun hann þá sitja og klóra sér í hausnum og brjóta heilann endalaust um það hvort Jóna eða Gunna, eða kannski hún Sigga með stóru brjóstin, hefði nú kannski verið betri kostur?

Hmmm og hvernig mun svo verðandi frú Bachelor líða varðandi dömurnar sem hann var kyssandi í þáttunum… og að drepast úr greddu yfir sumum?

Well, endalausar pælingar hjá mér. Svo kannski smellur þetta flott hjá honum og draumadísinni og þau lifa hamingjusöm til æviloka.
Kveðja,