Ég er oft spurð að því afhverju ég er ekki löngu búin að festa ráð mitt og ná mér í karlkyns samvistaveru, þrátt fyrir að ég sé aðeins 19 ára…og þrátt fyrir að ég sé jú að drífa mig í gegnum lífið eins og aðrir á mínum aldri þá bara hef ég furðulega lítinn áhuga á að festa ráð mitt.

Ég get þó ekki sagt að mig langi ekki í samband, en greinilega ekki það mikið að ég leggi mig alla fram til þess að verða mér út um eitt slíkt. Málið með mig, er einfaldlega það að ég óttast óhamingjuna mikið meira en ég þrái hamingjuna.

Þið eruð eflaust að velta fyrir ykkur núna hvort ég sé ekki bara að rausa upp einhverju þunglyndisbulli og ég get lofað ykkur því að það er langt því frá, ég er mjög lífsglöð manneskja en ýmsir atburðir í lífi mínu hafa vakið mig verulega til umhugsunar.

Eins og flest ykkar, þá hef ég kynnst dauðanum, og meira að segja verið það óheppin að fá líklega verstu hliðarnar af honum, ekki að ég vilji vera að metast um slíkan hlut! Ég var vitni af drukknun afa míns þegar ég var 5 ára, ég fylgdist með ömmu minni veslast upp af krabbameini og svo mætti lengi telja en núna síðast um áramótin þá varð ég vitni af því þegar nánir ættingjar mínir létust í eldsvoða og ekkert hægt að bregðast við vegna þess hve slökkvilið var seint á staðinn.

Þessir atburðir og margir fleiri vöktu mig til umhugsunar um það hvort það sé virkilega þess virði að vera að stofna til sambanda, hvort sem það séu þá vinasambönd eða ástarsambönd, því allt í lífinu er hverfult.

Ég óttast dauðann meira en allt annað, ég tel mig það heilbrigða að ég geti hrisst af mér alla aðra sorg en þá sem maður verður fyrir þegar einhver deyr, og það sama á við um áföllin. Vegna þessa hef ég verið mjög varkár þegar ég stofna kynni við nýtt fólk, og mín skoðun er reyndar sú að því færri sem maður þekkir, því betra verður lífið þar sem það er hægt að særa okkur á færri vegu.

Ég lít líka á málið þannig að ef maður er einn þá hefur maður engan til að særa og engan til að særa sig með dauðanum, eða neinu öðru.

Ég vil þó benda á að ég lifi ekki endilega eftir þessu, ég á mína vini, mína fjölskyldu og mitt fólk sem ég umgengst mjög mikið. Þetta er bara ein af þessum vangaveltum sem fljúga annaðslagið í gegnum kollinn á manni.

Er ég ein að líta svona á lífið eða hvað??

Kv. Queeny