Vog-Bogmaður: ÞEgar Vogin og Bogmaðurinn koma saman verður útkoman gáfuð tvenning. Vogin leggur til vitsmuni og rökvísi í sambandið, Bogmaðurinn innsæi og orðkynngi. Bæði unna bókum, kennslu og námi, og því er líklegt að þau breyti ástahreiðri sínu í hugmyndaríkan, skemmtilegan skóla þar sem bæði kenna og bæði læra hvort af öðru. Þetta par er í ágætu jafnvægi þar sem Vogin telur sig fremur örvast en vera ógnað af hinum fljóthuga Bogmanni. Og Bogmaðurinn gefur fúslega meira af sjálfum sér í þessa sameiningu-sem gefur honum andrúm og athafnafrelsi-en í flestar aðrar. Þessi tvö eiga farmiða í langferð til rómantískrar framtíðar.


Vog-Steingeit: Í þessu afgerandi sambandi eru bæði Vogin og Steingeitin tilbúin að taka stjórnina. En möguleikarnir til áhrifa eru mjög ólíkir, svo þegar þessi tvö koma saman er betra að gæta sín! Steingeitin mun reyna að fá Vogina til að aðhyllast sinn veraldlega, framgjarna lífsmáta þangað til hin hvatvísari værukæra Vog gerir uppreisn. Og Geitin lætur ekki teyma sig útí þessi mörgu samkvæmi og félagslegu athafnir sem eru Vogarinnar ær og´kýr. Hin vinnusama Geit á lítinn tíma aflögu til rómantískra athafna. Afturámóti er Vogin til í tuskið hvenær sem er á hverjum degi allan ársins hring. Varla ríkir nægur gagnkvæmur skilningur til að þetta samband blessist.


Vog-Vatnsberi: Vog og Vatnsberi eiga vel saman andlega, hugmyndir streyma á víxl og renna saman í óvenjulega draumóra. ÞEssi tvö loftmerki örva hvort annað til hugmynda sem aldrei fyrr hefur örlað á og örva á öllum sviðum. Undir áhrifum Venusar reynir hin næmari, listrænni hlið Vogarinnar að laða dýpri tilfinningar útúr Vatnsberanum- og heppnast það stundum. Bæði merkin eru ákaflega félagslynd, vilja hafa eitthvað fyrir stafni á hverju kvöldi og láta sér í réttu rúmi liggja þótt makinn sé á sífelldum þönum út og suður, því bæði eru á ferðinni allan sólarhringinn. Vatnsberinn bætir léttlyndi Vogarinnar upp með staðfestu sinni án þess að þrúga hana. Og Vogin sem er fæddur diplómat sigrast á stífni Vatnsberans með lagni sinni. Ef þetta par sýnir gagnkvæma tilslökun til að jafna út misfellurnar og viðhalda hæfilegum tilfinningahita verður þetta sennilega endingargott samband.


Vog-Fiskur: Þetta er skáldlegt par þar sem hið tilfinninganæma , hugmyndaríka eðli Vogarinnar er í fíngerðu mótvægi við hrifnæman ljósvakapersónuleika Fisksins. Vogin leggur sambandinu til skýra hugsun, Fiskurinn skýrar tilfinningar. En á mörgum öðrum sviðum er lítil samstilling. Ósjálfstæði og viðkvæmni Fisksins verkar hamlandi á Vogina, og leggur ekki alltaf til þann skerf til rómantíkurinnar sem Fiskurinn þarf til að viðhalda öryggiskennd sinni. Fiskurinn skilur ekki þörf Vogarinnar til að leita sér upplyftingar utan heimilisins. Hvorugt merkið hefur gott fjármálavit, og þegar þau leggja saman er hætt við að úr dragi örygginu á fjármálasviðinu. Geðrænar hindranir verða margar í þessari sambúð og gætu borið ofurliði hinar tilfinningalegu og listrænu nautnir sem þau kunna að eiga sameiginlegar.


Sporðdreki-Sporðdreki: Þegar tveir einstaklingar úr þessu merki koma saman verður úr því ein orkuhlaðin aflstöð. Bæði eru þau háspennt, dáleiðandi, tvíhlaðin ástríðum þegar saman kemur magnaður losti þeirra beggja. Þar sem Plútó er stjórnstjarna beggja geta þau bæði orðið heltekin af sambandinu. Og þótt þetta geti verið unaðslegt þegar allt fellur í ljúfa löð, þá getur það hrakið þau hvort inní sína ólundarskel þegar útaf ber með samkomulagið. Ytri áhrif geta líka skaðað samband þeirra, og sérhvert áhugamál sem þau eru ekki saman um vekur ákafa afbrýði. Þar sem Sporðdrekinn er ákaflega ósveigjanlegur í skoðunum og tilfinningum, hlýtur þetta par að verða ósátt fyrr eða síðar og þegar svo fer verður erfitt fyrir þessar þrjósku, skapþungu sálir að jafna ágreininginn. Eigi slíkt samband að blessast verða báðir aðilar að gera sér sérstakt far um að viðhalda jafnvæginu.


Sporðdreki-Bogmaður: Í þessu atorkusama sambandi sameinast einbeitt og ástríðufull orka Sporðdrekans hinni eldheitu, fljóthuga, óseðjandi forvitni Bogmannsins. Hvor þessara tveggja sterklega tilfinningaríku merkja laðast auðveldlega að lífsþrótti hins. Og þó að holdlegar, rómantískar þreifingar geta blossað upp milli þeirra, torvelda hin gerólíku lífsviðhorf þeirra varanlegar samvistir Sporðdrekans og Bogmannsins. Bogmaðurinn tekur stökkið án yfirvegunar og er of eirðarlaus og óheftur til að vera hinum íhugandi, innhverfa Sporðdreka að skapi. Sporðdrekinn dylur sínar dýpstu tilfinningar og í honum gerjast afbrýðisaemi útaf reikulu hugarfari Bogmannsins, makasíns. Stöðug og hreinskilin sjálfsgagnrýni er eina leiðin fyrir þetta par til að viðhalda hamingjunni í sambúðinni- og jafnvel það dugar ekki alltaf til lengdar.


Sporðdreki-Steingeit: ÞEtta par sameinar tilfinningar og hagsýni þannig að úr verður kraftmikil og staðföst eining. Með einbeittni Sporðdrekans og harðfylgi Steingeitarinnar kemur þessi samstæða því í verk sem hún ætlar sér, hvaða hindranir sem verða í vegi. Sporðdrekinn og Geitin eru í góðu jafnvægi innbyrðis. Þau eru bæði hagsýn að eðlisfari og séð í fjármálum. Öryggisþörf Steingeitarinnar höfðar til ráðríkis Sporðdrekans sem sjaldan hefur ástæðu til afbrýðissemi. Bæði Steingeitin og Sporðdrekinn eiga sínar leyndu hugsanir og gagnkvæmur skilningur gerir orkumiklum ástríðum Sporðdrekans auðvelt fyrir að draga fram duldar tilfinningar Steingeitarinnar. Þegar spenna myndast í sambúðinni þarf Sporðdrekinn að muna að Steingeitin þarf á daglegum stuðningi að halda og Steingeitin þarf að muna að Sporðdrekinn lifir í tilfinningalegum einkaheimi. En sé á allt litið er þetta fyrirmyndarsamband.


Sporðdreki-Vatnsberi: ÞEssi tvö föstu merki eru að jafnaði í byrjun vel í stakk búin til að mynda sterkt og ánægjulegt samband. Sporðdrekinn laðast að ímyndunarefni og forvitni Vatnsberans, en hann að ástríðu og heitum tilfinningum Sporðdrekans. En alltof oft verður þetta til að vekja skarpar andstæður þeirra á milli fremur en samræmi. Vatnsberinn beinir áhuganum að vinsamlegri leit að leyndardómum lífsins-leyndardómur sem Sporðdrekinn hefur mikla eðlislæga innsýn í. Hinsvegar er Sporðdrekinn of dulur persónuleiki, of afbrýðissamur og ráðríkur til að viðurkenna að þessi óseðjandi forvitni forvitni Vatnsberans þurfi oft að fara með Vatnsberann langt að heiman. Þar sem Vatnsberinn er loftmerki er hann tilfinningalega utangátta og nokkuð viðutan og á erfitt með að skilja tilfinningar Sporðdrekans, maka síns sem eru tjáðar með svo miklu offorsi. Þegar upphaflegur dýrðarljómi er slokknaður er ólíklegt að þessi tvö eigi nægilega margt sameiginlegt til að ástarfuninn endist.


Sporðdreki-Fiskur: Þetta er mjög rómantískt samband, því báðir aðilar eru ákaflega hrifnæmir. Sporðdrekinn færir sambandinu áskapaða lífsvisku en Fiskurinn á svipaðan skilning sem hann hefur sogið úr öllum merkjunum á undan sér. Bæði Sporðdreki og Fiskar eru merki búin ríku innsæi og þau eru bæði rómantísk og tilfinningarík. Sporðdrekinn er ástríðufullur og ákafur, Fiskurinn ljúfur og mildur, og bæði meta mikils þessa eiginleika hvort annars. Ástríðufullt, eigingjarnt viðhorf Sporðdrekans til ástarinnar er hinum viðkvæmara Fiski geðfellt og hann unir sér vel undir vernd maka síns. Sem hið síðasta merki dýrahringsins aðhyllast Fiskarnir annarleg sjónarmið og það örvar fjörugt ímyndunarafl Sporðdrekans. Framtíðin blasir björt við þessu pari.


Bogmaður-Bogmaður: Þegar tvær bogaskyttur rugla saman reitunum má búast við að samvistirnar verði eins og ferð í rómantískum rússíbana. Þessir tveir eldheitu, hverflyndu elskendur-hvor haldinn óseðjandi ferðaþrá-eiga alltaf íeinhverskonar ævintýrum, eru alltaf vissir um að eitthvað enn betra sé framundan. Þeir neita að viðurkenna alvöru lífsins og stinga sér á höfuðið í ástina með sama ákafa og einkennir allar aðrar athafnir þeirra. Þau sökkva sér í samkvæmislífið og leyfa hvort öðru óátalið að kanna nýjar slóðir. Þessi fljóthuga, frelsiselskandi hjónaleysi eru þó ekki mjög leikin í að fást við hinar hagnýtari hliðar tilverunnar og fjárhagslegum vandamálum er venjulega ýtt útí ystu myrkur. Þó að þaueigi sérstaklega vel saman á sumum sviðum er líklegt að ævintýramennskan sem laðaði þau upphaflega hvort að öðru verði líka til þess að koma uppá milli þeirra fyrr eða síðar svo þau leiti á ný mið hvort í sínu lagi.


Bogmaður-Steingeit: Þó að þessi tvö hljóti að eiga sín ágreiningsmál, má treysta því að Bogmanns-Steingeitarsambandið láti að sér kveða. Bogmaðurinn er á endalausu líkamlegu, huglægu og sálrænu ferðalagi þar sem Steingeitin sækir sífellt á brattann í starfi, samkvæmislífi og efnahagsmálum. Úr því verður tvennskonar óróleikablanda; Bogmaðurinn leggur til eldlegan áhuga sinn, Steingeitin einbeitnina. Því miður veldur misgengi þessa ferðalags því að uppúr sambandinu geti alveg eins slitnað einsog að það blessist. Steingeitinni-hinum rökfasta,eljusama puðara-gremst oft hvatvíst, reikult flökkueðli Bogmannsins. Eins er líklegt að fyfirhyggjueðli hinnar öryggiselskandi, heimakæru Steingeitar reyni á þolinmæði maka hennar, Bogmannsins.


Bogmaður-Vatnsberi: Bogaskyttan og Vatnsberinn er léttlynd og fjörug tvenning. Bogmaðurinn með sinn eðlisbundna áhuga og skoðunaráráttu ýtir óhjákvæmilega undir hið sérstaka víðsýni Vatnsberans og hefur þau bæði uppí rómantík nýrra umsvifa. Þessi tvö undarlegu merki hljóta að hrífast hvort af öðru og nærast á þeim nærgöngulu spurningum sem ganga á víxl á milli þeirra og í þessu bandi finnst engin afbrýði. ; þar sem bæði eru áhugasöm um margs konar tengsl útávið veita þau hvort öðru nægilegt svigrúm til athafna. Bogmaður og Vatnsberi eru báðir svo önnum kafnir að rannsaka nýjar hugmyndir að ástríður þeirra liggja í láginni langtímum saman. Ef sambandið á ekki að gliðna í sundur vegna yfirborðskenndra tilfinninga verða þau bæði að leggja sig fram um að rækta dýpri kenndir sín á milli.


Bogmaður-Fiskur: Eldur og vatn mætast í þessu athyglisverða sambandi. Eins og höfuðskepna þeirra eru þessi tvö breytilegu merki sífelldum breytingum undirorpin. Hið hugmyndaríka eðli Fisksins fellur vel að nýjungaleit Bogmannsins. En nokkur grundvallarmunur er á þessum tveim elskendum. Bogmaðurinn er hneigður til heimspeki og trúmála en Fiskarnir eru skáldlegur húmanismi holdi klæddur. Bogmanninum hrýs hugur við þeim skyldum sem Fiskurinn tekur á sig og sýnir viðkvæmni hans lítið umburðarlyndi. Fiskurinn hvekkist á flækingi Bogmannsins og leitar draumórakenndrar ástar sem ekki er að finna hjá maka hans. Það þarf miklu meira en málamiðlun til að viðhalda þessari ást til langframa.


Steingeit-Steingeit: Þegar tveir einbeittir klifrarar vinna saman hlýtur að nást frábær árangur. Bæði eru svo hagsýn, þolgóð og framgjörn að þau mundu hafa allan heiminn að fótaskör sinni ef þau væru ekki svo ötul við klifrið. Þó að sameiginleg framgirni þeirra tryggi þeim góða fjárhagsafkomu er ekki víst að þau gefi sér nokkurntíma tóm til að vera saman, því hvorugt þeirra er fúst til að fórna vinnunni fyrir einhverskonar rómantík. Auk þess gæti tilhneiging Steingeitarinnar til að fela tilfinningar sínar leitt til langvarandi þumbaraskapar ef ekki er til að dreifa léttari, glaðlegri áhrifum til mótvægis. Þetta er ekki ýkja ástríðufullt par, en það veldur hvorugu hugarangri að ráði. En eigi þetta að blessast til langframa verður Steingeitarparið að læra að tjá oftar tilfinningar sínar.


Steingeit-Vatnsberi: Í þessu stjörnumerkjasambandi blandast jörð lofti. Hin stöðuga og staðfasta Steingeit hlýtur að græða á örvandi hugmyndum Vatnsberans. Og hinn háleiti gáfaði Vatnsberi græðir á hagnýtri kunnáttu Steingeitarinnar maka síns. Ef þau geta viðhaldið jafnvæginu gæti þetta par fært heiminum nýjan skilning með sameiginlega einbeitni sína að bakhjalli. En Vatnsberinn er alltaf að koma á óvænt og það fellur ekki alltaf í kramið hjá Steingeitinni sem vill halda sínu striki. Vatnsberinn trúir líka statt og stöðugt á sjálfstjáningu og gremst endalaust hið þumbaralega grufl Steingeitarinnar. Þó að ekki gangi hnífurinn á milli þessara merkja þegar bara er vinátta annars vegar verða þau sí og æ að minna sig á að koma hvort til móts við annað opinskátt eigi ástin að blómstra.


Steingeit-Fiskur: Það verður stundum óvænt leirkerasmíð úr því þegar jörð og vatn sameinast, en ekki bara venjuleg leðja. Fiskarnir eru hugleiðingarmerki með mikið ímyndunarafl, og Steingeitin sjálfsöruggt, framgjarnt merki, og þegar þau vinna saman bæta þau hvort annað prýðilega upp. Steingeitin leggur til jarðsambandið sem Fiskinn vantar, en rómantísk, hugsjónarík viðhorf Fisksins er gagnlegt mótvægi við kalda hagsýni Geitarinnar. Fiskurinn er óspar á ástúðlega aðdáun á Steingeitinni, og það rífur hana uppúr þumbaraskapnum. Þegar misklíð vaknar verður Steingeitin að muna að dýrmætasti munaður Fisksins er íhugun í einveru, og Fiskurinn verður að muna að Steingeitin er forrituð til klifurs. En sé á heildina litið þá eiga þau tvö næsta vel saman.


Vatnsberi-Vatnsberi: Ef þú vilt kynnast þeim sem mest hyggja að framtíðinni í nágrenni þínu, skaltu leita uppi Vatnsberahjón. Hjá þeim má ekki einungis búast við að sjá sóldrifna garðsláttuvél og rafknúið mótorhjól, heldur er fatnaður þeirra, hugsanir og hátterni líka framúrstefnulegt. Bæði munu þau eiga mjög annarleg áhugamál og áform. Vatnsberinn hefur áhuga á fólki og er fús til að fræðast af einum og öllum, og því er þetta fólk vinamargt. Og þar sem hvorugt þeirra er uppstökkt eða duttlungafullt kemur þeim ágætlega saman. Þau sækjast eftir að lifa og hrærast á vitsmunalegu,raunsæju sviði og láta tilfinningarnar ógjarnan rugla sig í ríminu. Þótt þau séu ágætlega samstillt á öllum sviðum verða Vatnsberar í sambúð að taka tillit til hinnar fræðimannlegu yfirvigtar og leita öðru hverju sálrænnar eða tilfinningalegrar örvunar til mótvægis.


Vatnsberi-Fiskur: Þetta er hugmyndarík samstæða og sambandið á milli Vatnsbera og Fisks tekur oft á sig óhefðbundna mynd. Þó að bæði séu hugmyndaríkar manneskjur ber mest á gáfum hjá Vatnsberanum en Fiskurinn er sveimhugi gæddur dulspekilegum tilhneigingum. Vatnsberinn kemur með sæg af hugmyndum sem margar eru sérviskulegar, en Fiskurinn tekur við þeim og svarar með mjög innsæjum skilningi. Hinn afar umburðarlyndi,raunsæi Vatnsberi sýnir dulrænu og hlédrægu eðli Fisksins næman skilning. Og Fiskurinn er blíður og ástríkur og skilningsríkur gagnvart fastskorðaðri sálrænni uppbyggingu Vatnsberans. Þau þurfa daglega að gera upp hlutina sín á milli og festa sig í sessi í veröldinni.


Fiskur-Fiskur: Ef spyrt eru saman tvö afsprengi síðasta merkis dýrahringsins er þar komið dulspekisinnaðasta parið í klúbbnum. Þessi trúrækna dulhyggjusamstæða, þessar tilfinningaríku og viðvkæmu tvíburasálir, eru líka ákaflega særanlegar. Sér til varnar rækta þau með sér mikla leikarahæfileika í samskiptum við hinn ytri heim, aðlaga og dylja hinar sönnu tilfinningar sínar. Þessi tvö njóta sín best þegar þau eru saman útaf fyrir sig þar sem Fiskarnir geta gefið sínu mikla innsæja ímyndunarafli og tilfinningasemi lausan tauminn. En hafi þau engan til að koma sér niðurá jörðina, er líklegt að þau gangi stundum of langt og missi tökin á hinum hagnýtari þáttum lífsins. Ofurviðkvæmni Fiskasamstæðunnar raskar öllu jafnvægi og hefur léttlyndið til öndvegis í þessari sambúð, en ef annað sekkur í þunglyndi er hætta á ferðum.