Hér kemur samanburður á hinum ýmsu merkjum sem þið getið leitað í til gamans :) góða skemmtun:

Hrútur-Naut: Milli þessara tveggja merkja ríkir sterk gagnkvæm hrifning; það sem ólíkt er virðist veita sterkan gagnkvæman stuðning og jafnvægi. Hinn eldlegi Hrútur veitir inní sambúðina áhuga og frumkvæði, en Nautið leggur til stöðugleika og ástríðu. Árekstrar hljóta þó að verða. Hin óslitna þörf Hrútsins til að árétta einstaklingseðli sitt, og leit hans að nýjum ævintýrum, ýfir hina eigingjörnu, afbrýðisömu hlið hins jarðbundna Nauts sem ævinlega er gróið í venjum sínum. En gagnkvæm aðlöðun þessara tveggja stjörnumerkja getur orðið langvinn. Með tímanum lærist Hrútnum að skilja hinn jarðfasta áreiðanleikaNautsins, en það þarf ekki að telja sig hlunnfarið af hinum örlynda Hrúti svo framarlega sem það minnir sig á að þetta er bara afleiðing af fjörmiklu eðli hans.


Hrútur-Tvíburi: Horfurnar eru sannarlega góðar fyrir þetta fjöruga par, þar sem merkin eiga sameiginlegan áhuga á uppgötvun og könnun nýrra leiða. Hinn ódrepandi áhugi Hrútsins glæðir neistann í gáfum Tvíbbans, og saman skapar þessi samstæða hugmyndir sem báðum eru nýjar. Þó að það verði sennilega Hrúturinn sem tekur ákvarðanirnar er eins víst að hinn þjáli Tvíbbi fagni því að geta stöðugt blásið lífi í áhugamál Hrútsins. Þar sem bæði merkin eru gefin fyrir breytingar er líklegt að hið síbreytilega samband þeirra á milli þurfi að sætta sig við æði margar sveigjur og beygjur á lífsleiðinni. Þau þurfa ekki að hafa mikla gát á sterkum undirstraumi tilfinninga sinna, enda er auðvelt að bægja honum frá í eldmóði hraðfleygra hugsana.


Hrútur-Krabbi: Hvað snertir rómantíska þáttinn þá vekur slík pörun nokkrar efasemdir, þó að oft geti úr henni sprottið aldavinátta. Upphaflega gætu Hrúturinn og Krabbinn orðið ásfangnir upp fyrir eyru, þar sem sjálfsvitundin sem einkennir hið sameiginlega afgerandi eðli þeirra ýtir undir kynferðislega aðlöðun. En vegna ólíkrar skapgerðar þeirra skýtur oftast upp erfiðleikum áður en langt um líður. Hinum varfærna, tilfinninganæma Krabba sárnar oft ágengni Hrútsins og það sem hann túlkar ónærgætni hans. Hinn ævintýragjarni Hrútur er sí og æ undrandi yfir óhóflegri viðkvæmni Krabbans og honum finnst öryggisþörf hans og heimilisdekur vera sér fjötur um fót. Þar kemur að báðum aðilum er hollt að leita lausnar á vandanum.


Hrútur-Ljón: Þetta samband eldlegra merkja brennur venjulega skært. Hrúturinn sem fer svo hnarreistur fyrir öðrum merjum dýrahringsins og Ljónið sem baðar sig í sólbjartri aðdáun sinna mörgu áhangenda eru ljómandi par. Þau eru leiftrandi hvort í sínu lagi, barmafull af áhuga og bæði haldin óslökkvandi rannsóknarþorsta-í svefnherberginu jafnt og á öðrum sviðum lífsins. Bæði eru leiðtogar og nokkuð ráðrík. Til þess að varast árekstra útaf yfirráðunum, verða þau að temja sér þolinmæði og sjálfsstjórn. Ef þau geta lært að miðla málum og hafa hemil á eigingirninni þegar svo ber undir á þetta par dýrlega framtíð í vændum.


Hrútur-Mey: Í slíkri sameiningu, sem lofar góðu fyrir báða aðila, getur Hrúturinn hagnast á hugulsömu raunsæi Meyjarinnar og Meyjan sótt orku í ötulleik Hrútsins og frumkvæði. Vissulega eru veilur í sambúðinni, en í þessum besta heimi allra heima mun þetta samband standa óskaddað. Hrúturinn hefur forustuna, leitar uppi ævintýrin, og Meyjan fylgir eftir heils hugar. Hrúturinn er hugmyndasmiðurinn; Meyjan ber hugmyndirnar fram. Ef þau tvö bera ekki gæfu til að virða hvort annars eðli, er eins víst að aldrei náist fótfesta í sambúð þeirra. Meyjan er kannski gagnrýnin á gönuhlaup Hrútsins, en Hrúturinn er of óþolinmóður til að uppgötva hina flóknu, vitsmunalegu eiginleika Meyjarinnar.


Hrútur-Vog: Þegar þessi tvö merki sameinast, eru þau lifandi sönnun þess að andstæðurnar laðast saman. Þau tengjast traustum félagslegum böndumþar sem hvort merki vegur næstum fullkomlega upp veikleika hins og hvort um sig leggur til hinn vantandi töfraþátt sem fær allt til að snúast. Vogin kemur jafnvægi á jötunmátt Hrútsins og ágengni Hrútsins kveikir losta Vogarinnar. En um leið og þau þróast saman verða bæði merkin að beina athyglinni að því sem á milli ber, því það eru einmitt eiginleikarnir sem gefa sambandi þeirra jafnvægi. Því þegar leit Vogarinnar að samræmi fer að lenda í árekstrum við ævintýraleit hins ónærgætna Hrúts getur svo farið að þau hætti að sjá samræmið sem ólíkt eðli þeirra skapar.


Hrútur-Sporðdreki: Hér mætast tveir ólíkir hugir. Og reyndar verður samband á milli Hrúts og Sporðdreka eins konar jafnvægislist, enda magnað upp af eldlegum krafti Mars, stórstjörnu beggja merkja. Þetta er samstæða þrungin líkamlegum ástríðum sem koma fram í kynferðislegri athafnasemi. Utan svefnherbergisins er þó hugsanlegt að upp rísi agnúar. Ekki er öruggt að Sporðdrekinn sætti sig við kröfu Hrútsins til forustuhlutverksins. Opinská ósk Hrútsins til að kanna nýjar lendur gæti dregið fram hina afbrýðisömu,gruflandi hlið á Sporðdrekanum. Ef hvorugur aðilinn kærir sig um að vera í aftursætinu gæti tilfinningaólgan í þessari spyrðu skvett vatni á glæður gagnkvæmrar aðlöðunar.


Hrútur-Bogmaður: Í þessum tvíhliða eldhnetti leggjast bæði eldsmerkin á eitt um að mynda eitt athafnasamt, ákafafullt samband sem virðist hlaðið óþrjótandi orku. Hrúturinn hefur sannarlega fundið sér skapheitan maka þar sem Bogmaður er. Bæði eru merkin fljóthuga, í báðum sameinast hugkvæmni og athafnaþörf í ákafri sókn í hringiðu samkvæmislífsins. Þessir tveir rafhlöðnu þræðir sameinast venjulega í háspennt virki sem ástundar fjölbreytt áhugamál. Bogmaðurinn er fremur líklegur til að taka heimspekilegri stefnu í lífinu en Hrúturinn, og Hrúturinn tekst á við allt með sínum eðlislæga ákafa. Þó að geðríkir árekstrar kunni að leiða til skammhlaups þessa rafmagnaða sambands, er ekki víst að misklíðin verði langvinn.


Hrútur-Steingeit: Vísast er að eldurinn veiti jörðinni orku í þessari sameiningu, þar sem Hrúturinn geislar af ákafa sem Steingeitin getur ekki staðist. Auk þess laðast Hrúturinn að búhyggindum Steingeitarinnar sem eru svo gerólík fljótræði Hrútsins. Bæði merkin eru afgerandi að eðlisfari og eiga sameiginlega mikla einbeitni í skoðunum. Og þetta gerir þau fær um að stíga uppí nýjar hæðir saman og meta að verðleikum það sem skilur á milli í fari þeirra. Svo sem vænta má eru Hrúturinn og Geitin bæði afdráttarlaus í framkomu og hvort um sig hefur löngun til að vera hið ráðandi afl í samskiptum ekki síður en á öðrum sviðum lífsins. Ef þetta á að blessast í sambúðinni verða þau að læra að vinna saman fremur en að keppa um völdin.


Hrútur-Vatnsberi: Þessi stjarnspekilega samstæða skapar fjör bæði í framkvæmd og útfrá sér, þar sem bæði merkin eru athafnasöm og skemmtanafíkin. Hin óstöðvandi orka Hrútsins ýtir undir Vatnsberann að kafa sí og æ niður í hugmyndabrunn sinn til að draga uppúr honum frumlegar nýjungar í sambandið. Þeir eiga sameiginlega þörf fyrir frelsi og ævintýri. Svo mikla reyndar, að misklíð sem upp kann að koma, verður sjaldnast langvinn. Að sumu leyti kunna þeir að vera of líkir. Hvorki Hrúturinn né Vatnsberinn vill láta stjórna sér. Og með elds-og loftseðli sín samanlögð verður oft meiri vindur í þeim báðum en hollt er fyrir þá, og þeim yfirsjást minniháttar jarðbundin atriði. Ef Vatnsberinn getur reitt sig á sína umburðarlyndu hlið, og ef Hrúturinn getur fengið af sér að sýna nokkra nærgætni, gæti þetta samband blómgast þokkalega.


Hrútur-Fiskur: Sem fyrsta og síðasta merki dýrahringsins verður þessi sérstaka sameining elds og vatns óvenjuleg-því Hrúturinn og Fiskarnir eru mjög tilfinningarík merki, en með ákaflega ólíkum hætti. Í huga Hrútsins er Fiskurinn seiðandi og rómantískt hugmyndaflug hans aðlaðandi, en aftur á móti laðast Fiskurinn að hinni kraftmiklu og ástríðuþrungnu orku Hrútsins. Hér er töframátturinn gagnkvæmur, en því dýpra sem sambandið ristir hjá þessari samstæðu, þeim mun meira lætur það til sín taka sem á milli ber. Fiskurinn er tilfinninganæmur, hugkvæmur og skáldlegur, en Hrútuirnn er hreinskiptinn, áberandi og ágengur. Miklir möguleikar eru á jafnvægi en líka á djúpstæðum misskilningi.