Sumarið er sá tími sem manni líður hvað best og tími til leikja er mestur og útivera er raunverulegur valkostur.
Að elskast undir björtum júní himni í grænni lautu hulinn laufguðum trjám verður möguleiki ef hlýtt er í veðri og aðstæður leyfa.
Þetta gerist þó aðeins í draumum manns því að löngunin til að elska einhvernn í rjóðrinu er til annars en lög hafa gert ráð fyrir.
Draumurinn er þó óljós því að staðurinn til ásta er parinu ekki kunnugur og tíminn til þess er þeim leyndur .
Tímanum þarf að stela og ástina verður að fela. Lönguninni til leikjanna er stöðugt haldið við með laumulegu daðri og ástleitnum augnagotum sem
bæði skilja svo vel. Á hverjum degi spyrja þau sig sjálf að því hversvegna þau leiki þennan leik. Bæði búa þau í góðum ástríkum hjónaböndum, eiga björt og
brosandi börn og lífið allt hið besta. Hvorugt þeirra vill spilla þeirri veröld sem þau búa í en leita þó bæði ákaft eftir nærveru hvors annars og hver snerting er
sem næring hungraðs manns, sem ekki hefur séð matarbita í langan tíma og sættir sig jafnvel við ilminn af gómsætri steik, ef það er það eina sem býðst, en veit þó að það kemur þó til með að að æsa enn upp hungrið. Það má líka spyrja sjálfan sig að þvi hvort bæði hugsi eins í þessu sambandi og hvort hugir þeirra liggi raunverulega saman.
Hugsanlegt er að karlmaðurinn fái útrás fyrir holdlegar fýsnir á meðan konan fær uppfyllingu á andlegum fýsnum. En kanski er það bara gömul klysja að konur og karlar hugsi ólíkt og að bæði beri sömu tilfinningar hvort til annars. Orð eins og ást eru bönnuð í svona sambandi. Það má ekki elska en hvaða tilfinningar bera þau þá í brjósti?
Hvaða tilfinningar eru það sem valda slíku róti á lífi þeirra og veldur þeim andvökunóttum og draumförum sem engum má segja frá jafnvel ekki einusinni hvoru öðru sem deila saman þessu leyndarmáli. Sumir myndu segja að þetta væri sjálfselska á hæsta stigi og að þau ættu ekkert betra skilið en að vera afhjúpuð og refsað grimmilega.
Frygð er ein af dauðasyndunum auk þess sem hórdómur er ekki hátt skrifaður heldur hjá æðri máttarvöldum. Þau eru því í klemmu milli eigin langana og skynseminnar, sem bankar uppá hjá þeim reglulega og minnir þau á hver þau eru . Kanski endar þetta ekki með ósköpum. Kanski lognast þetta bara útaf og deyr eins og það hafi aldrei neitt gerst þarna á milli og að einhverjar tilfinningar sem eitt sinn lét þau ekki í friði verði eins og líðan eftir að horfa á eftirminnilega bíómynd, sem hrærði við hjörtum manna eitt augnablik en um leið og tárin þornuðu var lífið létt sem áður. Það má velta fyrir sér ýmsum hliðum á þessum málum en þegar upp er staðið mun enginn vilja hlusta á raunverulegar skýringar á hlutunum. Ekki einusinni þau sem leyfðu sér að láta sig dreyma um ástir í rjóðri og stolnar unaðsstundir.