Þegar ég var lítil var það alltaf regla á heimilinu að það mátti aldrei fara að sofa ef maður var í reiður eða fýlu. Það mátti heldur ekki fara út í fýlu/reiður. Megin ástæðurnar fyrir þessu voru þær að maður sefur ekki vel ef maður er fúll eða reiður og þegar þú kveður einhvern þá veistu ekkert hvenær þú sérð hann aftur. Hann gæti alltaf lent í slysi eða eitthvað komið uppá og þá er slæmt ef síðustu orðaskiptin voru rifrildi og/eða særandi orð. Eins og segir í góðri bók: látið ekki sólina setjast yfir reiði ykkar.

Ég er foreldrum mínum mjög þakklát fyrir að hafa kennt mér þetta því að núna á ég erfitt með að vera reið og fúl lengi í einu.

Ég hef komið þessari reglu á hérna á heimilinu mínu og við maðurinn minn reynum að fara eftir þessu. Ef eitthvað kemur uppá og við förum að rífast (sem að sjálfsögðu gerist stundum) þá ræðum við málin þar til einhver sátt kemst á hlutina. Auðvitað þarf alltaf annar aðilinn að láta undan, en við reynum að skiptast á og oft látum við bæði undan. Þetta getur reyndar oft tekið langann tíma og stundum getum við ekki farið að sofa fyrr en undir morgun, en það borgar sig.

Fyrir vikið eru engin óuppgerð mál á milli okkar og það er ekkert sem grefur um sig og stækkar upp í hið óyfirstíganlega (hefur allavegana ekki gert það hingað til og við erum búin að vera gift í 3 og 1/2 ár). Það er ekkert eins slæmt fyrir samband eins og óútkljáð mál og þegar annar aðilinn (eða báðir) fer í svo mikla fýlu að þau ræðast ekki við í marga daga. Slíkt fyndist mér of erfitt að lifa við.

Mér finnst þetta mjög góð regla og ég mæli með henni við alla sem vilja heyra.

Verið glöð og ræðið málin
Don't let the sun go down on you
Love
Tzipporah