Eins og við höfum séð hérna, þá eru ansi margir að leita að hamingjunni. Margir hafa fundið hana, aðrir telja sig hafa fundið hana, sumir að leita hennar og enn aðrir hafa gefist upp. Þannig er nú bara gangur lífsins. Við eigum öll okkar góðu og slæmu tíma, þurfum að ganga í gegnum erfiðleika og læra að meta það sem við höfum. Ég held að margir gleymi því að skoða það sem þeir hafa, reyna að sjá það jákvæða í lífi sínu. Ég veit það, því ég var svoleiðis sjálf, og er stundum svoleiðis ennþá, en ég er að reyna og reyna og það er rosalega erfitt en maður verður að vera harður og ekki gefast upp. Þetta er allt saman gert til þess að við þroskumst og lærum að virða það sem við höfum. En oft er það þannig að við föttum það ekki fyrr en of seint. Margir hafa misst nána vini og ættingja. Og ég get sagt fyrir mig að ég tók það sem sjálfsagðan hlut að eiga pabba þar til ég missti hann í sumar. Og vá hvað ég áttaði mig þá!! Hvað maður getur stundum verið vanþakklátur og oft á tíðum tillitslaus. Ég var það amk. Einn daginn var hann þarna, hinn var hann farinn og ég get aldrei sagt honum hvað virkilega bjó í hjarta mínu. Ég var bara ekki nógu dugleg við það meðan hann lifði. Og samband okkar var kanski heldu ekki þess eðlis. Þess vegna skil ég það í dag, að við eigum að segja fólki hug okkar, og þó að aðrir séu kanski ekki móttækilegir fyrir því, eða bjóði kanski alls ekki uppá það, þá eigum við samt að reyna. Því við vitum aldrei hvenær það er orðið og seint og við getum aldrei sagt það. Ég vildi óska þess að ég gæti tekið margt til baka, en þetta kenndi mér amk eitt, að reyna að gera betur við aðra. Það er erfitt að breyta hugsanagangi sínum og það gerist ekki einn tveir og þrír heldur krefst það mikillar vinnu. Ég reyni að líta á það slæma sem ég hef upplifað, jákvæðum augum,ekki það að það slæma sé eitthvað gott, heldur reyni ég að sjá hvað ég get lært á því og það er jákvætt. Það er tilgangur með öllu, tel ég, og maður verður að reyna að sjá jákvæðu hliðarnar á málunum, líka þeim neikvæðu.