Ég vil fá mér kærustu, sem allra allra fyrst eins og í lagi Hjálma. Ég var að hugleiða af hverju hann vildi fá sér kærustu. Hvers vegna kærustu? Hvers vegna ekki lífsförunaut eða eiginkonu? Eru kærustur ekki svona óstöðugt byrjunarástand sem verður svo eitthvað þýðingarmeira? Af hverju ætti einhver að vilja hætta sér í það að byrja með einhverjum bara til þess að vera í þessu óstöðuga ástandi?

Þetta voru svona líka niðurdrepandi hugleiðingarnar um kærustupör.

Hins vegar er dásamlegt að tengjast annarri manneskju það náið að manni finnst maður geta sagt viðkomandi allt, þurfa ekkert að skafa af því.

Á móti því kemur að þegar slitnar upp úr þarf maður að geta treyst því að þessi fyrrum besti vinur manns fari ekkert lengra með allar persónulegustu upplýsingarnar.

En það er svo gott að treysta öðrum og geta treyst á aðra. Að þurfa ekki að bera allar birgðirnar einn.

Hvað er samt svo þungt að vinir manns og fjölskylda geti ekki borið það með manni? Er erfitt að treysta fólki sem maður sefur ekki hjá fyrir vandamálunum sínum ?

Líkamleg nálægð er svo mikilvæg, þessi nálægð er ekki eðlileg með skyldmennum. Svo er líka eðlilegt að vera hrifinn af einhverjum og vilja vera nær þeim aðila, sálfræðirannsóknir hafa leitt þetta út, að maður sé manns gaman og að við þurfum þessa líkamlegu nánd.

Frá því að barnið kemur í heiminn er haldið utan um það, má ekki fara öðru vísi að? Við þyrftum kannski ekki svona mikið á hverju öðru á að halda ef okkur hefði ekki verið haldið svona mikið frá upphafi.

Við höfum gagn og gaman af öðru fólki og það breytist ekki með ópersónulegu uppeldi. Ekkert kemur í staðin fyrir hlýjuna sem fæst frá annarri manneskju, engin bók eða kvikmynd. Þess vegna hættir maður sér í óstöðuga sambandsbyrjun sem endar svo ekkert endilega í sambandi einu sinni eða jafnvel ævilöngu hjónabandi.
Have a nice day