Heil og sæl, huguðu hugarar.

Ég á við eilítið vandamál að stríða, og leita til ykkar eftir aðstoð. Ég orðlengi þetta ekki frekar, og kem mér beint að efninu.

Einu sinni varð ég hrifinn af stelpu en hún átti kærasta. Ég vissi það vel, en samt leyfði ég mér að verða hrifinn af henni meira og meira. En það er ekki vandamálið. Þetta var fyrir einu ári síðan og ég er löngu komin ‘yfir’ hana, ef slíkt er mögulegt í minni stöðu. En hvert er þá vandamálið?

Okkur tókst að verða ágætis vinir, þessi stelpa og ég. Hringdumst á, spjölluðum saman, fórum út saman og svo framvegis, en þó aldrei með neitt annað í huga en vinskap.

Svo tók ég þá kjánalegu ákvörðun að segja henni allt af létta … og haldið ykkur nú: í tölvupósti! Hún var á leiðinni til útlanda með kærastanum, og hún ætlaði að vera í burtu í nokkur ár, þannig að mér fannst þetta vera “síðasta tækifærið” eða “rétta stundin” eða eitthvað þvíumlíkt. Þannig að ég sendi henni póstinn nokkrum dögum áður en hún fór út.

En svo kemur að kveðjustund, þau fara, og hún hafði ekki lesið póstinn (ég spurði) áður.

Hraðspólum nú aðeins. Nokkrum dögum eftir að þau eru farin kemst ég að því að kærastinn hafði komist í bréfið og hann hótaði mér barsmíðum og limlestingum ef ég rækist á hann einhverntíma!

Um kærastann: Frábær strákur útí gegn. Við spjölluðum saman og hittumst gjarnan þar sem skemmtanahöld og mannfagnaðir voru meðal vinahópsins. Við vorum fínir kumpánar. En hann og bróðir minn eru miklir vinir. Það var einmitt frá bróður mínum sem ég frétti af þessum “velfarnaðar” óskum kærastans.

Næstu daga eftir tíðindin var ég í rusli. Ónýtur maður. En tíminn leið, og ég varð skárri. Ég hef ekki svo mikið sem heyrt í þeim nú eftir eitt ár. Og nú kemur spurningin:

Ætti ég að biðjast afsökunar? Mig langar til að geta hitt þau aftur og talað við þau eins og í gamla daga, en hvað þarf ég að gera til þess? Þau hafa ekkert yrt á mig í þetta eina ár - ætti
ég að gera það sama? Gefa skít í þau? Ég get lifað án þess að fá fyrirgefningu frá þeim - en hvað gerist þá þegar ég rekst á þau niður í bæ eða eitthvað? Biðjast afsökunar á staðnum? Láta eins og ekkert hafi gerst? Gefa þeim illt augnaráð og fara í burt? Hlaupa í burt frá þeim? Flýja þau?

Hann var/er mjög skapstór maður, kærastinn, og var á þekktur á tímabili fyrir … vafasama hegðun. Ég vil ekki vera barinn í klessu, aðallega vegna þess að þá kæmist bróðir minn að því og hann myndi snúast algjörlega gegn vini sínum og standa með mér! Það vill ég ekki! Ég vill ekki eyðileggja vináttu þeirra! Nógu mikið hef ég kannski eyðilagt nú þegar! Ég get ekki komið heim einn daginn með 7 spor á enninu, sprungna vör og glóðarauga og segjast hafa “dottið!” Hann myndi fatta það strax, og engar lygar myndu hjálpa mér.

Kannski er hann meiraðsegja orðinn rólegur og tilbúinn að fyrirgefa allt, ef ég bara talaði við þau! Æj, ég veit ekki. Ég er, eins og sést, alveg ráðalaus. Hvernig er hægt að redda þessu? Hver er rétta leiðin?

Einn óhugaður hugari.