Augun opnuðust aftur, örugglega í svona fjórtánda skiptið þessa nóttina. Hann var orðinn verulega pirraður á þessu. Hafði hann ekki rétt á að sofa eins og allir aðrir? Hann velti sér á hina hliðina í rúminu, ennþá pirraður út í líkama sinn fyrir að leyfa sér ekki að sofa í friði. Vegna þess að hann vissi að hann ætti ekki eftir að geta sofnað fór hann að strjúka lakinu með fingurgómunum. Þarna hafði hún verið aðeins nokkrum klukkustundum áður, hann gat ekki gleymt því. Hugur hans fór að reika aftur og tók að spila fortíðina fyrir augum hans…

Djöfull var hann fullur! Hann ráfaði um gangana glottandi, augun hálflokuð og tilfinningin gersamlega horfin úr höndunum. Hann fann fyrir þorsta og ákvað að skreppa inn á klósett til að væta kverkarnar. Á meðan hann beygði sig yfir vaskinn heyrði hann kunnulega rödd fyrir utan hurðina. Rödd sem hann vissi vel hver ætti. Það var þarna gellan sem hann hafði verið að tala svo lengi við í partýinu! Gellan sem var svo inní tónlist sem hann fílaði. Jájá, hann vissi alveg hver þetta var. Rödd hennar var nógu hávær til að heyra í gegnum allan skarkalann. Hann komst ekki hjá því að brosa, og í öllum æsingnum við að hitta hana aftur gleymdi hann að skrúfa fyrir kranann. Honum var samt alveg sama.

Hann kom auga á hana um leið og hann steig út af klósettinu. Hún sat á gluggakistu og talaði við tvo vini sína sem stóðu yfir henni. Hann horfði á hana úr fjarlægð í smástund, lagaði síðan bindið, strauk hárinu aðeins aftur (svona eins og þeir gerðu í gömlu grínmyndunum) og gekk yfir til hennar. Á miðri leið missti hann samt aðeins fótana, og nánast datt í gluggakistuna við hliðina á henni. Hún tók strax eftir nálægð annarrar manneskju og sneri sér að honum.

„Hææææ!“ æpti hún. Síðan sneri hún sér aftur að vinum sínum og hélt áfram að tala við þau.

Hann var ekkert að hlusta á hana. Honum fannst bara fyndið hvað hún var eitthvað soðin – hafði sennilega aldrei drukkið áður. Skyndilega tók hann eftir því að hún var farin að halla aðeins meira fram á við en venjulegt var, svo hann ákvað að sýna herramannseðli sitt og hífa hana upp aftur. Þegar hún var orðin upprétt aftur féll höfuð hennar á öxlina á honum, og hann vafði handlegg utan um hana. Af einhverjum ástæðum fór hann að nudda andliti sínu við hennar – hann vissi
ekkert hvað hann var að gera.

„Af hverju ertu búinn að vera að elta mig svona…?“ heyrði hann hana spyrja. Hann lyfti andliti hennar aðeins upp og ætlaði að svara (hverju? Það hafði hann ekki hugmynd um) en hún var fyrri til: „Þú veist… Þa- það er ekki eins og ég sé eitthvað falleg eða eitthvað þannig…“

Fjandinn… Hún var ein af þessum stelpum sem þykjast vera voða hógværar bara til að fá aðra til að segja hvað þær eru fallegar. Nú jæja, ef hún endilega vildi heyra eitthvað þannig væmið stöff gat hann alveg eins látið hana hafa það.

„Láttu ekki svona, þú ert alveg sæt,“ sagði hann og brosti til hennar.

Hún brosti stríðnislega. „Piiiiff! Nú lýgurðu!“ sagði hún og hló við.

„Nei, í alvöru,“ sagði hann, nú ekki alveg viss um hvort hann væri hreinskilinn eða ekki. Það skipti svo sem engu máli, hann var fullur. „Þú ert alveg rosalega sæt. Annars væri ég ekki að tala við þig, er það?“ Hvaðan í fjandanum kom þetta? Æi, vottever.

„Þú segir það nú bara af því ég er máluð eins og drusla,“ sagði hún og höfuðið hennar fór að leka niður aftur. „Ef þú sæir mig eins og ég er í alvörunni myndirðu skipta um skoðun…“

Ókei, núna var þetta orðið þreytandi. Hann lyfti andlitinu hennar aftur, og þegar hann sá að hún ætlaði að fara að bæta einhverju við það sem hún hafði sagt kæfði hann orðin mjúklega með kossi. Hvað var hann að pæla? Æi, fokk it. Hann var fullur, það var alveg nógu góð afsökun. Kossinn varði þónokkuð lengur en hann hafði búist við, en hann var ekkert að kvarta. Hún virtist njóta hans, svo hann hélt bara áfram. Allt í einu sleppti hún svo og lagðist framan á hann. Hann strauk hárinu á henni á meðan hún muldraði eitthvað ofan í skyrtuna hans.

„Hvað segirðu?“ sagði hann, enda hafði hann ekkert verið að hlusta á hana.

„F- Finnst mér þetta sniðugt?“ endurtók hún.

Ó guð… Ætlaði hún nú að láta hann ákveða fyrir hana líka? „Ég veit það ekki,“ sagði hann, óviss um hverju hann ætti eiginlega að svara. „Þú verður að segja til.“

En áður en hann fékk almennilegt svar – eða öllu heldur, áður en hann fékk svar yfirhöfuð – kom vinkona hennar og dró hana í burtu. Hann sat því eftir í gluggakistunni einn með sjálfum sér. Það var eins gott að hann myndi ekki muna eftir þessu daginn eftir, hvað þá hún.


Næstum ómeðvitað var hann farinn að kreista lakið eins og það væri stressbolti. Hann mundi vel eftir þessari síðustu hugsun og mundi líka hvað hann hafði verið svekktur þegar hann hafði vaknað daginn eftir, munandi allt það sem hafði gerst kvöldið áður. Hann mundi líka hvað hann hafði óskað að hún myndi ekki muna þetta. Næsti mánuður eftir þetta hafði verið verulega vandræðalegur að hans hálfu. Öðru hvoru höfðu þau mæst á göngunum í skólanum og í hvert skipti sýndist honum að hún brosti til hans. Hann hafði alltaf ætlað að endurgjalda það en fann aldrei réttu vöðvana á réttum tíma. Auk þess fannst honum alltaf eins og vinir hennar færu að flissa þegar þeir voru nærri. Hvað hafði hún eiginlega sagt þeim?

Hann hristi hausinn og hló mjög lágt. Vá hvað hann hafði verið mikill hálfviti. Auðvitað var þetta álíka vandræðalegt fyrir hana, hún var bara aðeins betri í að fela það. Samt sem áður fann hann aftur smá hugrekki nokkrum vikum seinna…

Sjitt! Hann mátti bara ekki hreyfa sig og þá var hann næstum því dottinn! Hefði kannski átt að passa sig aðeins á þessu sterka. Samt, honum hafði loksins tekist að finna gelluna síðan á síðasta balli, og nú þegar hann var nógu drukkinn fann hann aftur smá löngun til að tala við hana. Hvað var samt málið með hana núna? Í hvert skipti sem hann ákvað að birtast til að spjalla við hana þá flúði hún! Það meikaði engan veginn sens! Það hafði jú verið hún sem hafði endalaust verið að brosa til hans síðasta mánuðinn, og núna þegar hún var drukkin leit hún ekki við honum?

Þriðja skiptið þetta kvöld sá hann hana skottast út til að „fá sér ferskt loft“ (sem var kaldhæðnislegt þar sem reykingafýlan þarna úti kæfði allt það sem hægt var að kalla loft). Hann greip tækifærið og ákvað að elta hana. Þegar út var komið sá hann hana standa bara og horfa upp í himininn. Hann glotti smá. Hún leit fáránlega út svona! Hann gekk til hennar og pikkaði í öxlina á henni, og honum að óvörum tók hún strax eftir því að hann væri þarna.

„Nei, þú hér?“ sagði hún. Hann heyrði strax að hún var ekki nærri því eins mikið í glasi og síðast. „Kemur á óvart að þú sért að elta mig,“ bætti hún svo við í augljósri kaldhæðni.

„Hvaa- Hvað meinarðu?“ sagði hann, eilítið þvoglumæltur. Vá, hann hafði ekki tekið eftir
því áður. „Ég vildi bara tala við þig og svona, bara- bara alveg eins og síðast.“ Hann komst ekki hjá því að taka eftir hvað röddin hans brást oft.

Hún hló og gerði grín að því sem hún kallaði mútuskrækir. Hann ranghvolfdi augunum, tók síðan utan um axlirnar á henni og dró hana nærri sér. Í fyrstu fannst honum eins og hún streittist á móti en svo sætti hún sig við nálægðina. Hann fékk skyndilegt flassbakk frá síðasta balli og ákvað að prófa að kyssa hana aftur. Hann brosti og gerði sig svo tilbúinn til að mæta henni… Bara til að klessa nefinu við kinnina á henni. Hafði hún virkilega litið undan? Hversu fokking edrú var hún?

Þó svo að hún hafði ekki viljað kyssa hann hélt hún samt utan um handleggina á honum. Nú jæja, það var þó allavega eitthvað. Hún byrjaði eitthvað að tjá sig (honum heyrðist hún segja eitthvað í áttina við „Af hverju eltirðu mig bara þegar þú ert fullur?“) en eins og venjulega var hann ekkert að hlusta. En þegar hann heyrði hana segja „Ha?“ í annað skipti ákvað hann að svara bara einhverju.

„Æi, ég veit það ekki!“ sagði hann, og næstum því skammaðist sín fyrir hversu hátt hann sagði þetta (auk þess kom feitur mútuskrækur á „ég“). „Ég er bara fullur!“

Hún flissaði smá og gaf honum svo eskimóakoss á kinnina áður en hún stökk af stað inn aftur. Fjandinn. Hvað var
að? Var hún að forðast hann, eða? Æi, skipti engu. Hann ætlaði allavega að tala við hana um þetta. Það að gera grín að fullum manni var nokkuð sem hann ætlaði ekki að sætta sig við strax!

Og hann gerði það ekki. Strax daginn eftir hafði hann leitað uppi bæði símanúmerið hennar og MSN-ið hennar, bara til að skamma hana fyrir að hafa gert grín að sér. Hann mundi vel eftir fyrstu SMS samræðum þeirra. Hún ásakaði hann fyrst í gríni um að vera stalker, sem var náttúrulega að hluta til rétt. En samt, hann hafði ekkert verið að stalka hana, hann vildi bara skamma hana! En skammirnar urðu ekki margar. Vissulega hafði hann tekið fram við hana að hann hafi ætlað að tala við hana um það þegar hún gerði grín að honum, en það varð voða lítið úr því. Þess í stað áttu þau svona týpískar samræður sem fólk hefur þegar það er fyrst að kynnast.

Eitt leiddi af öðru og ekki leið á löngu þar til hann var í rauninni farinn að hlakka til að sjá nafnið hennar poppa upp á MSN. Hann fann alltaf smá kitl þegar þau töluðu saman (einhvern tímann kom hann upp um sjálfan sig í tíma, og var spurður hvort hann væri að tala við kærustu sína. Djöfull roðnaði hann þá, maður!) og ekki minnkaði það þegar hún var alltaf að tala um hvað hann væri mikil „rúsína“. Enginn, ekki einu sinni mamma hans hafði nokkurn tímann kallað hann „rúsínu“. Átti hann að túlka þetta sem eitthvað? Hún var allvega alltaf að tala um hvað hann væri sætur á myndunum sem hann sendi henni.

Loksins ákvað hann þó að taka sig saman í andlitinu og spyrja hana hvort hún nennti að koma með honum á rúntinn. Fyrst var hún eitthvað hikandi (talaði um að hún fattaði ekki tilganginn með því, eða eitthvað þannig), en hann náði svo að tala hana til. Rúntkvöldið var sennilega eitt besta kvöld sem hann hafði upplifað. Hann gat loksins talað við hana eins og almennilega siðmenntaður maður en ekki bara fullur. Hann náði meira að segja að ganga svo langt að strjúka á henni hárið og segja hversu falleg augu hún væri með – og hún kvartaði ekki neitt. Sagði meira að segja að hann væri með fallegt bros og hvað hún öfundaði hann af beinu tönnunum hans.

Sama kvöld hafði hann svo boðið henni að koma með honum í borgina nokkrum dögum síðar. Hann hafði átt í erfiðleikum með að koma því út úr sér, en hann vildi sem sagt bjóða henni á mynd. Hún samþykkti það, gekk síðan að honum og greip mjúklega um andlitið hans. Hann hélt í alvörunni að hún ætlaði að kyssa hann, en hún virtist ekki þora því. Þau skildu að og hann neyddist til að keyra heim, ennþá hugsandi um hana. Og hann hélt áfram að hugsa um hana hverja stund á meðan þessir löngu dagar liðu hjá. Litla kitlið hafði byrjað að stækka óeðlilega mikið og hann var farinn að finna fyrir sterkri löngun til að faðma eitthvað í hvert skipti sem hann annað hvort sá nafnið hennar á MSN, númerið hennar í símanum hans, nú eða bara hana sjálfa á göngum skólans. Hann gat bara ekki beðið.

Svo rann dagurinn loksins upp, og í hnotskurn heppnaðist allt svo vel að hann hélt á tímabili að hann myndi springa. Ferðin suður var frábær, gangan inn í kvikmyndahúsið var rómantísk (það var meira að segja hún sem hélt fyrst í hödina á honum og kyssti hann á kinnina), en það besta voru tuttugu mínúturnar sem þau þurftu að bíða þangað til myndin byrjaði af því þau höfðu mætt svo óvenju snemma á staðinn. Þau höfðu staðið fyrir utan húsið (undir einhverju listaverki) og viðurkennt hversu vænt þeim þótti um hvert annað – og það var þá sem hann gersamlega bráðnaði að innan. Ekki nóg með það, heldur deildu þau fyrsta edrú kossinum þeirra. Og vá hvað það var osom. Eftir það gat hann hreinlega ekki sleppt henni. Hann hélt utan um hana alla myndina, strauk á henni lærið og hárið til skiptis á leiðinni heim, og á endanum bauð henni inn til sín í smástund þegar þau voru komin aftur heim. Og allt þetta gerði hann með hennar samþykki. Henni þótti greinilega jafn vænt um hann og honum um hana.

Klukkan var orðin frekar margt þegar þau komu inn til hans, svo þau ákváðu bara að kúra aðeins í stað þess að gera eitthvað annað svakalegt, eins og að kynna hana fyrir foreldrum hans (sem voru sem betur fer ekki heima hvort eð er). Þau höfðu legið í rúminu hans í alllangan tíma, bara að faðmast og kyssast, án þess nánast að segja neitt. Málið var nefnilega að þau þurftu ekki að segja neitt. Þau vissu nákvæmlega hvernig hinu leið.

Síðan hafði hún farið og skilið hann eftir í rúminu. Hann hafði þegar sent henni SMS klukkutíma eftir að hún fór: “Nú get ég ekki hugsað um annað en þig.“ Sem var svo satt að hann hefði getað sagt það á lygaprófi í mörg ár og samt ekki fengið neina stressmælingu.

Og þarna lá hann, einn í rúminu, strjúkandi blettinum þar sem hún hafði legið fyrir svo stuttu síðan. Hann dæsti og brosti. Aldrei hefði hann grunað að hann myndi falla fyrir stelpu sem hann talaði við fullur. Og ef einhver hefði sagt honum fyrir mánuði síðan að hann ætti að sitja eftir í vímu eftir hana hefði hann hlegið. Hann lagðist aftur á bakið og lokaði augunum, ennþá hugsandi um hana og hversu vænt honum þótti um hana, jafnvel eftir þennan stutta tíma.

Já, þetta hafði sannarlega verið viðburðaríkur mánuður í lífi hans.

——————————-

Mjög lauslega byggt á reynslu fólks sem ég þekki. Sérstakar þakkir fá eyrnaslapinn og Guðrún (ekki Hugari) fyrir að prófarkalesa fyrir mig :)