Þar seinustu helgi upplifði ég bara hversu ömurlegt er að elska engan, hafa engan hjá sér, þrá ekki neinn, og að vera einn. Flestir hér vita að ég er skilinn, það eru að verða komnir þrír mánuðir. En ég ber mig vel, er að jafna mig, er að takast á við hlutina. En allavegana, þá kom ég mér í alveg æðislega, yndislega, frábæra stöðu. Þannig var mál með vexti að vinkonu mína (bara vinkona) vantaði gistingu. Ekkert mál, ég bauð henni bara gistingu. Ég bauðst til þess að búa um hana, í ótrúlega þægilega sófanum mínum og lánaði henni bara lykil af íbúðinni minni. Ég bý um hana og fer svo bara að sofa. Ég skrifaði miða til hennar og bauð henni að fá sér að éta þegar hún kæmi heim, fá sér að éta um morguninn og fara í sturtu (tók til handklæði og allt) og ef hún lenti í einhverju basli, ætti hún bara að vekja mig. Svo vakna ég um morguninn, eldsnemma við bara það yndislegasta sem ég hef upplifað lengi (fyrir utan son minn). Það voru hljóðin í henni. Ég lá uppi í rúmi og heyrði í henni vesenast. Hún var að vakna, svo fór hún á klósettið og svo klæddi hún sig í skónna og fór út. Þetta var alveg þvílíkt frábært. Ég var búinn að gleyma hvað það getur verið gefandi að heyra umgang í húsinu. Ég lá bara uppí rúmi og það yljaði mínar alveg innstu hjartarætur að heyra þennan umgang. Hún læddist um, örugglega til þess að vekja mig ekki, og þetta var … (orðlaus). Þetta gladdi mitt litla hjarta svo mikið að ég hringdi í hana seinna um daginn og þakkaði henni fyrir.
Þetta breytti bara öllu. Þetta fékk mig til þess að skilja að hversdags hlutir (og hljóð) eru eitthvað sem maður á að njóta, alveg til fullnustu! Þetta situr bara ennþá svo í mér að ég varð að láta ykkur vita. Takið eftir hljóðunum í húsinu, einn dag og ég vona að þið upplifið það sama og ég. En allavegana þá bauð ég henni að gista hvenær sem er ;) og ég vona að hún þyggi boðið einhverntímann (sófus er alveg geðveikt þægilegur) til þess að gleðja mig aftur.
Hljóður
Gromit