Ef ert ekki væl proof eða ætlar bara að drulla yfir þetta, þá skaltu hætta að lesa núna takk.

Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Finnst eins og sumarið ætti bara að vera að byrja núna, allavega alls ekki jólin.

Skrifað 19. desember.

Fyrir nákvæmlega 1 ári var ég hamingjusamur. Ég var ástfanginn uppfyrir haus og það er engin tilfinning sem jafnast á við það. Ég átti yndislega kærustu og við vorum búin að dúlla okkur í 2 ár, áður en við byrjuðum saman í nóvember á síðasta ári. Frábær tími, alveg frábær tími.

Fyrir nákvæmlega 1 ári mínus sirka 4 klukkustundir var allt búið. Eins og þú hafir alltaf verið rétthentur en svo breyttist það á einu augnabliki og þú ert orðinn örvhentur. Ekki besta dæmið kannski en ókei.
Af hennar frumkvæði þá fór ég til hennar þetta þriðjudagskvöld og ætlaði að kveðja hana þar sem hún yrði ekki í bænum um jólin. Ég hafði keypt hálsmen handa henni sem ég var viss um að hún yrði ánægð með.
Svo kom ég inn til hennar og þá dundi á mér sprengjan: Hei ég held við ættum bara að vera vinir. Þetta er ekkert að ganga.
Ha? það hafði verið eitthvað í gangi hjá okkur í um það bil 2 ár og opinbert samband í rúman mánuð, og svo alltíeinu bara hætt að ganga?
Ég skildi ekki neitt, fattaði ekki hvað var að gerast, en hún gekk úr skugga um að ég skildi það, takk fyrir það?
Hélt þetta væri bara svona down moment í sambandinu sem við kæmumst yfir og ég reyndi að segja henni það, en nei, ekkert þannig.
Ég vildi fara, en gerði það ekki. Var þarna í sirka 2 tíma og þagði. Hún grét, ég þagði. Svona gekk það. Ég horfði á pakkann sem ég kom með handa henni. Hjartalaga hálsmen, eitthvað til að hún vissi mínar tilfinningar. Ég skammaðist mín fyrir að hafa keypt þetta handa henni, aðallega af því að ástæða þess að ég keypti þetta handa henni var flogin útum gluggann. Út í regnið, sem ég vildi ekki fara út í. Hvaða afsökun ætti ég að segja foreldrum mínum fyrir að hafa labbað alla leið heim á peysunni í grenjandi rigningu? Nei, ég vildi ekki þurfa að segja þeim neitt útaf skömm. Ég hef ekki enn sagt þeim, né neinum, útaf skömm.
Svo ég þagði við hliðina á grátandi manneskju sem ég hefði gefið allt fyrir að taka utan um og hugga, en ekki núna. Allar þessar hugsanir sem þutu upp í kollinn. “Vera bara vinir, jájá ekkert mál, hún hlýtur að fatta að okkur var ætlað að vera meira” hugsaði ég.
Loks eftir langa þögn og grátur mér við hlið var ég sóttur - oog ég þagði, og það hef ég alltaf gert þegar foreldrarnir minnast á hana. Skipt um umræðuefni.

Daginn eftir gerði ég mér notanda hér á huga og senti inn kork um hvað hefði gerst og hvað væri til ráða. Fékk mörg góð svör sem ég nýtti mér ekki.
Ég sagði hér í byrjun að mér finnst eins og ætti bara rétt að vera komið sumar. Tíminn hefur liðið svo fljótt. Tíminn hefur farið framhjá mér, ég hef lítið gert í að komast yfir hana. Búið að vera ömurlegt ár oft á tíðum, vandamálið er að ég hef varla neitt gert til að bæta það. Og núna er liðið ár og ég á ekki að vera ennþá svona. Ég hef margoft heyrt að tíminn lækni öll sár en það er bara ekki satt. Þú verður að hjálpa til. Ekki bíða eftir að þetta lagist að sjálfu sér, þetta gerir það ekki. Tíminn þarf þína hjálp!
Eftir svona langan tíma þá er flóknara að halda áfram. Þó mér finnist það kannski ótrúlegt þegar ég hugsa út í það, en ég hef bara lifað með sársaukanum í heilt ár. Heilt ár!

Veit kannski ekki tilganginn í þessari grein minni, nema kannski til að “fagna” árs vanlíðan ég veit það ekki.
En ég vil þakka öllum sem nenntu að lesa þetta og það myndi gleðja mig að fá góð álit, jafnvel ef einhver veit um ráð hvað hægt sé að gera, ef eitthvað er þá hægt að gera annað en að “hjálpa tímanum”.

- Stec