Æ, það var svo sætt að sjá allt gamla fólkið sem fjölmennti niðrá Austurvöll til þess að mótmæla í dag. Ég hafði gott útsýni yfir svæðið og það var alveg frábært að sjá allt þetta gamla fólk standa á rétti sínum. Margir hverjir voru búnir að klæða sig upp, því þetta hefur eflaust verið merkis dagur hjá þeim, því ég efast um að þetta vesalings fólk fari svo mikið út.
Mér finnst eitthvað svo fallegt við að sjá gömul hjón saman. Það er eitthvað, veit ekki alveg hvað, en eitthvað svo rómantískt við það að sjá svona þroskaðar manneskjur sem ennþá elska hvort annað eftir jafnvel margra ára hjónaband. Mér finnst það æðislegt. Ég skil bara ekki sjálf hvernig það er hægt og því lít ég mjög upp til þeirra sem geta það. Að geta eytt allri ævinni með einni manneskju, það finnst mér vera mikið afrek og afskaplega rómantískt, þó svo að ég sjálf trúi ekki að það henti mér.
Þó svo að mig persónulega hrylli við þeirri tilhugsun að verða gömul, þá finnst mér þessi ró og þessi þroski sem margt eldra fólk býr yfir vera mjög falleg. En samt langar mig ekki til þess að verða gömul.