Leitin að hinum fullkomna maka Mér datt í hug að skrifa litla grein um þetta málefni. Þetta er málefni sem ég hef lengi verið að hugsa um.

Þegar við byrjum að vera skotin. Kannski um 13 ára byrjar leitin. Í fyrstu er kannski meira verið að hugsa um einhvern sem er myndarlegur og kann að klæða sig. Er inn. Því að álit vinanna skiptir jú meira máli heldur en hvað þér í rauninni finnst um persónuleikann. Svo þegar þú ferð að eldast, þroskastu og viðmiðin breytast. Þú vilt einhvern sem heldur utan um þig, knúsar og kyssir þig. Elskar þig.

Það sem ég hef rekið mig á oft og mörgum sinnum er að stundum er það bara ekki nóg. Stundum er ekki nóg að aðilinn elski þig. Hann verður að líta svona og svona út, klæðast þessu og eiga meira sameiginlegt með aðilanum. Kannski erum við ekki svo þroskuð eftir allt saman.

Og við höldum áfram að leita. Leita að því sem er ekki til. Hinum fullkomna maka. Hann verður að vera, blíður, en samt karlmannlegur. Hann verður að vera vel klæddur en má samt ekki vera metrosexual, hann verður að vera klár en samt ekki smartypants. Sama með karlmanninn, hún verður að vera lítil og nett en samt ekki of smávaxin, hún verður að mála sig en ekki líta út eins og hún hafi dottið ofan í meikdolluna, hún verður að klæða sig vel en samt ekki eyða of miklu peningum.

Vá! Það er engin furða að fólk sé hrætt við stefnumótamarkaðinn. Kröfurnar eru klikkaðar. Hvað varð um ástina. Skiptir hún engu máli í sambandi lengur? Skiptir engu máli hvort aðilinn elski þig og sé tilbúinn að vaða eld og brennistein fyrir þig? Nei því að þá er aðilinn of kæfandi. Allar þessar reglur.

Hví getum við ekki sætt okkur við það að það er enginn fullkominn og leitin mun halda endalaust áfram ef að þú ert að leita að fullkomnun. Fólk er lítið, stórt, feitt, mjótt, frekt, hlédrægt, sætt og ljótt. En til þess vorum við sköpuð. Til þess að sjá eitthvað annað en okkur sjálf og bera virðingu fyrir því. Til þess að hugsa útfyrir kassann.

Hætti þið leitinni og lítið í kringum ykkur. Þið hafið allt sem þið þurfið, þið þurfið bara að læra að sætta ykkur við það!