Mig langaði að skrifa nokkur orð um samskipti innan sambanda til þess að sjá hvort ég gæti lagt eitthvað af mörkum í leitinni að jákvæðum og skilvirkum aðferðum í ræktun sambanda.

Samskipti maka er flókið ferli sem hefur nær endalausar breytur sem gera hverjar og einar samskipti hinna og þessara para gífurlega mismunandi. Að eiga maka er að taka inn í líf sitt manneskju sem kemur oftast nær frá allt öðruvísi uppeldi og heimilisaðstæðum en maður sjálfur. Í þeirri gjörð býður maður heim hinum ýmsu árekstrum og guð einn veit hvort þessir árekstrar eiga eftir að sigra; eða hvort ástin og réttar samskiptaaðferðir eiga eftir að hafa yfirhöndina.

Hér koma nokkur ráð til þess að aðstoða fólk við samskipti við hinn heittelskaða/elskuðu:

1. Hugsið afstætt: Þegar kemur að samskiptum við maka sinn þá er nauðsynlegt að geta sett sig í hans/hennar spor og reynt að gera sér grein fyrir hvernig henni/honum líður. Til þess þarf maður að beita allri þeirri bakþekkingu sem maður hefur um makann sinn og taka tíma í að reyna að gera sér grein fyrir hvernig sú bakþekking spilar inn í “núverandi” aðstæður.

2. Forðist rifrildi: Rifrildi eru nær alltaf af hinu ílla. Þegar tveir sæmilega skynsamir og hugsandi einstaklingar eru saman í sambandi er hægt að leysa langflest mál án nokkurs pirrings og/eða reiði. Þegar þessi þáttur hrjáir þitt samband er tími til kominn til þess að kryfja það sem veldur því að samræður leiða inn í rifrildi og leysa þann vanda. Oft er lausnin að móta fastan samskiptamáta þegar kemur að viðkvæmum málefnum. Sem dæmi má nefna að þegar viðkvæmt málefni ætti sér stað væri gott að “kalla stopp” á samræðurnar, þegja í smá stund og gefa þeim pirring eða reiði sem uppsöfnuð var tíma til að jafna sig; hita sér te eða heita mjólk og setjast niður við borð á móts við hvort annað. Þegar þar er komið skal svo hafa einhvern hlut, hvort sem það er lykill eða skeið eða eitthvað annað, og svo nota þann hlut sem merki fyrir þann einstakling sem hefur orðið. Einnig er gott að hér sé eingöngu rætt um núverandi málefni og aldrei skuli farið útí hluti eins og: “Þú gerðir [eitthvað] ” eða “af hverju var þetta [einhvernveginn]” heldur eingöngu: “mér líður ílla varðandi [málefni] og vill endilega fá að ræða það málefni við þig núna”. Einnig skal muna að gefa hverjum og einum sinn séns að segja sitt.

3. Hafið alltaf andlega vellíðan maka ykkar að fyrirrúmi: Þegar maður hefur einstakling í sínu lífi sem er eins stór partur af því eins og maki á til með að vera, þá er um að gera að muna statt og stöðugt eftir andlegri vellíðan maka síns. Vellíðan maka þíns spinnst inn í margar daglegar athafnir sem fólk getur verið vant að hafi eingöngu áhrif á það sjálft. Þegar maki kemur inn í líf manns er nauðsynlegt að muna að þessar athafnir hafa nú áhrif á tvo einstaklinga; ekki bara einn.

4. Ræktið sambandið: Sambönd má í raun kalla lifandi veru. Ef þú ræktar það ekki, deyr það. Maki er eins og grein sem vex útfrá trjábol. Ef trjábolurinn veitir ekki greininni næringu, þá visnar greinin og deyr. Maki þarf reglulega að finna fyrir ást og umhyggju. Makinn á einnig að vera það mikilvægasta sem hver og einn hefur í sínu lífi.

5. Setjið sambandið í fyrsta sæti: Sambandið skal koma á undan. Að heyra frá drengjum sem mæta ekki í afmæli kærustunnar sinnar vegna þess að það er stór leikur í sjónvarpinu er eitthvað sem skelfir mig. Auðvitað eru til aðstæður þar sem báðir makar hafa einhverja löngun sem þeir vilja fá uppfyllt. Þá er það málamiðlunin sem skiptir öllu máli.

6. Málamiðlun er lykillinn: Málamiðlun er eitthvað sem mörg sambönd hafa því miður varla heyrt um. Þegar upp koma deilur skal ávallt reynt að finna málamiðlun, s.s. að báðir einstaklingar fái eitthvað í sinn hatt. Fólk sem elskar hvort annað ber að sýna hvort öðru virðingu og skilning og skal því ávallt reyna að gera það sem það getur til þess að láta maka sínum líða vel. Ef fólk gerir í því að muna þessa heilögu reglu sambanda mun málamiðlun reynast þeim einföld í langflest skipti, þar sem málamiðlun er nær alltaf möguleiki.

7. Gerið ykkur grein fyrir hinu jákvæða í sambandinu: Það gerist því miður allt og oft að fólk gleymir að hugsa um þá jákvæðu eiginlega sem þeirra samband hefur uppá að bjóða og einblínir eingöngu á það neikvæða. Stundum er nauðsynlegt fyrir fólk að rifja upp hversu góðir hlutirnir geta verið og allt það góða sem maki þeirra hefur í sínu pokahorni. Það er því miður allt of algengur hlutur að fólk rífst útaf smámunum og endar sitt samband, bara til þess að vakna upp einn daginn og gera sér grein fyrir hvað það missti.

Ég ætla ekki að hafa ráðin fleiri í bili þar sem minn tími til þess er að skornum skammti. Ég vona svo sannarlega að þetta hafi verið einhverjum ánægjuleg og jafnvel fróðleg lesning.

Munið að það er aldrei of seint að byrja í að koma rétt fram við makann sinn. Ef þú sérð eitthvað sem betur mætti fara eftir að hafa lesið þessa grein, reyndu þá að bæta úr því ekki seinna en strax. Fólk getur látið margt yfir sig ganga áður en það segir bless við sinn heittelskaða, þannig að það er sjaldnast of seint að bæta fyrir fyrri mistök. Og jafnvel þótt svo væri, þá lifir maður til að læra af fyrri reynslu.

Gangi ykkur vel og munið að án maka er maður hálfur maður.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli

Ps. Ég hafði engan tíma til þess að fara yfir málfræði og/eða stafsetningarvillur, þannig að þið verðið að fyrirgefa ef þær eru til staðar.