Ég stíg út í napran vindinn sem fylgir þessu hverfi, geng niður stíginn sem ég geng á hverjum degi, og þar sem brekkan endar og byggingin sem inniheldur hverfissjoppuna birtist streymir flóð af minningum yfir huga minn, eins og á hverjum degi.

Fyrst nafnið, svo myndir og yfirgnæfandi bitur tilfinning söknuðar í maganum… hún birtist, allstaðar þar sem hittumst og eyddum tíma saman… nánast heilt ár síðan… myndir af mér og henni liggjandi í rúminu mínu horfandi í augun á hvort öðru klukkustundum saman… myndir af henni brosandi til mín þar sem við stöndum fyrir utan sjoppuna með vinum hennar… mynd af mér og henni og vini mínum þar sem ég og hún gerðum hann svo vandræðalegann.
Svo á þessum sömu löngu tíu sekúndum birtist myndin af mér og henni að rífast, myndin af sambandinu að enda. Myndin af mér horfandi beint í augun á henni þar sem hún situr, og hún segir við mig “Já… því er lokið. Sorry.”

Ég geng nokkur skref í viðbót og sé strætóskýlið.
Fleiri minningar vaða yfir. Við reynum að vera vinir. Það springur. Ég var of hrifinn af henni. Ég býst við að ég elskaði hana. Næstum því ár leið. Á afmælisdegi mínum hringdi hún í mig. Við reyndum aftur. Það sprakk aftur. Ég elskaði hana meira en nokkru sinni fyrr. Hún sagði mér grátandi að hún gæti ekki hitt mig - henni liði illa í kringum mig. Hún segir að þetta sé henni að kenna. Hún segir mér að gleyma sér…

Ég geng niður hæðina og sé þar hóp af krökkum við sjoppuna. Ég þekki þá… kynntist þeim í gegnum hana. Ég stend langt frá en þekki samt formið hennar. Hún er þarna með vinum sínum. Ég anda djúpt og labba af stað. Hún tekur eftir mér rétt eftir að ég kem á bílastæðið… ég sé að hún er vandræðaleg og forðast augnasamband. Ég labba beint að henni, tek ekki eftir neinum í kringum mig, svara ekki neinum.
Ég horfi beint í augun á henni og brotna næstum því niður, ég finn hjartsláttinn öskra og ég titra en segi skjálfandi röddu: “Manstu þegar þú sagðir mér að þú værir það versta sem hefði komið fyrir mig… þú hafðir rétt fyrir þér.” Ég geng inn í sjoppuna, og tár myndast í augunum á mér. Ég blikka þeim burt. Hún er farin þegar ég kem aftur út og geng upp hæðina.
True blindness is not wanting to see.