Í óbeinu framhaldi af hinni greininni sem ég skrifaði…

Ég tala alveg jafn lítið við hana núna og ég gerði í tíunda bekk, nema núna er ég allt í einu farinn að sakna hennar mun meira en venjulega og ég hugsa nánast stanslaust um hana og hvað þetta voru æðislegir tímar þarna sumarið eftir níunda bekk. Þegar ég kynntist henni fyrst var hún hláturmild og ein allra einlægasta og hressasta stelpa sem ég hafði kynnst. Svo var eins og það breyttist á einni nóttu, hún varð allt í einu það sem hún hafði hatað, hún varð eins og hver önnur gelgja. Ég er mjög feiminn að eðlisfari og fer alltaf í keng þegar það er talað um ástarmál við mig. Ég skammaðist mín hálfvegis fyrir að hafa verið með stelpu, og það sem gerði þetta enn skrítnara var að þessi frábæra stelpa var fyrrverandi kærasta besta vinar míns. Við vorum reyndar engir gríðarlegir vinir þetta sumar, veit ekki af hverju samt en hann hefur verið besti vinur minn nánast óslitið frá því í byrjun grunnskóla(og er enn besti vinur minn).

Hann vissi held ég ekki af þessu litla ástarævintýri okkar, og veit það ekki enn, allavega hefur hann aldrei spurt mig út í það. Hann er þó löngu kominn yfir hana en hann hætti samt með henni og vildi ekkert með hana hafa lengi á eftir og fannst mér og stelpunni margumtöluðu asnalegt hvernig hann hafi hætt að tala við hana. Svo gerist það nákvæmlega sama milli míns og hennar, þetta er stórundarlegt.



En nú er spurningin, af hverju er ég að spá svona mikið í henni núna þótt það sé eitt og hálft ár síðan ég sagði meira en tvær setningar við hana (hitti hana við spjölluðum dágóða stund saman í eitt skipti fyrir einu og hálfu ári síðan, síðan ekkert meir.) og tvö og hálft ár síðan við vorum bestu vinir. Ég hef heilsað henni eitthvað á msn, en hún svarar annaðhvort ekkert eða þá kannski bara eina setningu og svo fer hún útaf. Hún hefur alltaf verið mjög vinsæl stelpa, en ég einmitt alls ekkert vinsæll strákur svo kannski skiptir mín vinátta hana engu máli, en hún gerir það fyrir mig. Ætli henni sé svona skítsama um mig því hún á nóg af öðrum vinum? Ég kynntist allavega ekki stelpu sem hugsaði þannig.

Ætti ég að taka mig til og hringja í hana, eða jafnvel kíkja í heimsókn og tala við hana? Ég er enn alveg jafn feiminn og ég var og ég veit ekkert hvort hún eigi kærasta núna eða hvað hún er að gera og hvort hún hafi breyst til hins betra eða verra. Hvernig gæti ég reynt að kynnast henni aftur án þess að hún líti á mig sem hálfvita og eitthvað þaðan af verra? Allar uppástungur vel þegnar.