Sumarást og klúður Hallóhalló. Langar að segja ykkur sögu frá einu örstuttu ástarsambandi. Veit reyndar ekki hvort ég eigi að skipta þessu í eina eða tvær greinar, sé til.

Ég kynntist einni frábærri stelpu sumarið eftir níunda bekk(er á öðru ári í menntó núna). Við kynntumst bara eitthvern veginn, ég, hún og einn annar góður vinur minn kynntumst öll allt í einu og fórum að tala saman þótt við þekktum hvort annað mjög lítið. En fljótlega urðum við bestu vinir og vorum saman á hverjum degi, allan daginn. Gerðum allt mögulegt saman en vorum aðallega bara úti í fótbolta, þótt ekkert af okkur hafi getað neitt vorum við bara að skemmta okkur og hafa gaman.

Ég komst fljótlega að því að stelpan var hrifin af mér og hún var að reyna við mig, mjög áberandi þegar ég hugsa út í það. Ég var bara of ungur og of vitlaus til að fatta það á þeim tíma. En við töluðum líka dáldið saman í sms-um og í einu þeirra sagði ég henni að mig hafi alltaf langað að spurja hana að einu, en sagðist ekki vilja segja henni það í sms-i, enda þótti mér það skrítið. En svo liðu nokkrir dagar, og ég þorði aldrei að segja henni það face to face. Svo endaði það með að ég endaði með að senda henni sms-ið “Viltu byrja með mér” eða eitthvað álíka. Asnalegt, ég veit, og það átti eftir að koma betur í ljós. Mig minnir að hún hafi ekki svarað mér þessu smassi. Svo hittumst við aftur daginn eftir, fórum að kúra eins og við vorum vön og það var eitthvað skrítið andrúmsloft á milli okkar. Svo þegar ég var að kveðja hana sagði hún “bæðevei, svarið við spurningunni þinni er já!” Svo hjólaði ég heim og ég held ég hafi aldrei verið jafn glaður á ævinni.

Svo héldum við áfram að hittast, en ekkert meira gerðist á milli okkar, þetta var bara vandræðalegt. Ég þorði aldrei að kyssa hana eða taka af skarið, hún hafði allavega þorað að kyssa mig einhverjum mömmukossum en aldrei neitt meira en það. Svo sá hún að þetta gekk ekki lengur, og fór að spurja mig grunsamlega oft hvort ég myndi ekki alveg vera áfram vinur manneskju ef hún segði mér upp. Ég spurði hana svo bara hreint út og hún sagði að hún væri ekki tilbúin í samband. Mér fannst það reyndar frekar léleg ástæða. Ég hitti hana svo aftur sama kvöld og þá var bara allt eins og áður, nema hún var aðeins sleikjulegri en venjulega og allt í góðu.

Þetta “ástarsamband”, þ.e. tíminn sem við byrjuðum og hættum saman, entist í tvær vikur. Við vorum samt alveg jafn góðir vinir og áður. En svo leið sumarið og skólinn byrjaði á ný. Þá var eins og við þorðum ekki að tala lengur hvort við annað, ég sagði í mestalagi hæ og ekkert meira. Og svona leið allt skólaárið í tíunda bekk, vandræðaleg móment milli okkar. Þegar nokkrir mánuðir voru búnir af þessu lokaári mínu í grunnskóla(en ekki hennar þar sem hún er ári yngri) byrjaði hún með gaur, það samband entist örstutt. Hmmmm, hvað varð um stelpuna sem fyrir örfáum mánuðum sagðist ekki vera tilbúin í samband?

Og ekki batnaði það þegar hún hóf að vingast við gaur sem fór og hefur alltaf farið mikið í taugarnar á mér, mjög grunnhygginn náungi sem spáir ekki í neinu öðru en kellingum og brjóstum. Þau byrjuðu svo saman, og sambandið entist furðulega lengi, alveg meira en ár. Ég spila með honum fótbolta og meðan hann var með henni fór hann samt ekkert leynt með sínar pervetísku hugsanir þegar hann var að tala við okkur fótboltakauðana. Ég treysti honum aldrei og fannst afar sorglegt að þessi frábæra stelpa hafi byrjað með svona ömurlegum gaur. Þau hættu svo saman og ég verð að segja að ég var feginn því hann var oft að monta sig yfir að hafa hözzlað eina gellu hér og kysst aðra gellu þar. Ég veit samt ekki ástæðuna fyrir sambandsslitunum, en mig grunar að hún hafi frétt eitthvað af þessu.
Ég var reyndar oft að spá í að segja henni, en þá kemur sú hugsun upp um hvort að það sé rétt að klaga meðan allt leikur í lyndi hjá þeim og ég væri þá vondi kallinn. Ég ákvað samt að sleppa því þar sem ég talaði ekkert við hana og vissi ekkert hvernig sambandið þeirra var.

Óbeint framhald af greininni verður vonandi samþykkt og birt hérna innan tíðar.

Og þar sem greinin er skrifuð klukkan fimm um nótt skal ekki koma á óvart þótt eitthvað af villum slæðist inn.