Rómantík eða fáránleiki? Bandarískt par hyggst nú ganga í hjónaband í djúpi Atlantshafs við flakið af farþegaskipinu Titanic.
Hjónaleysin, þau David Leibowitz og Kimberly Miller, ráðgera að ferðast að flakinu með kafbát síðar í þessum mánuði og láta gefa sig saman þar. Athöfnin mun fara þannig fram að skipstjóri skipsins sem flytur parið á staðinn mun gefa þau saman í gegnum talstöð sem tengja mun kafbátinn við yfirborðið.
Brúðkaupið verður hluti af leiðangri breska fyrirtækisins SubSea Explorer, en það voru forsvarsmenn þess sem stungu upp á því að parið myndi láta gefa sig saman í leiðangrinum. Tilgangurinn er samkvæmt talsmanni fyrirtækisins að endurskapa þá rómantísku stemmningu sem var í kvikmyndinni “Titanic” sem frumsýnd var árið 1997. Talsmaður breska Titanic-félagsins, Brian Ticehurst, er ekki uppnuminn yfir giftingaráformunum. “Mér finnst þetta vera sárgrætilegt. Ég get ekki séð neina þörf fyrir að þetta sé gert og mér finnst áformin vera móðgun við þá 1.523 einstaklinga sem létust í Titanic-slysinu.”
Eins og flestir vita skall Titanic á ísjaka og sökk í Norður-Atlantshafi 15. apríl árið 1912 er skipið var á leið frá Bretlandi til New York. Skipið var í jómfrúrferð sinni.
Just ask yourself: WWCD!