Ég er svo rugluð í hausnum… ég skil ekki neitt, sérstaklega ekki mig. Ég bý í fjarrænu landi, langt í burtu frá klakanum, hér er heitt og gott að vera og mér líður vel. Ætla bara að búa hérna í ár til að byrja með, hver veit með framtíðina. En áður en ég fór lofaði ég sjálfri mér að verða ekki ástfangin, nei ekkert svoleiðs rugl. Búin að lenda í alltof miklu veseni upp á síðkastið, lofaði því sjálfri mér einu ári án kærasta og ég er það þrjósk að ég verð að standa við það. En málið er að í þessu landi sem ég bý í tala mjög fáir ensku og þegar ég kom hingað fyrst var voðalega einmannalegt.
Þangað til ég kynntist strák sem talar ensku en hann á ekki heima hér, hann á heima í öðru landi sem er líka langt langt í burtu. Hann kom hingað á seglskútunni sinni. Ég var ekkert skotin í honum, ekki neitt. En ég fann meira og meira með hverjum deginum sem ég eyddi með honum hvað hann elskaði mig mikið og af minni eigingirni og þörf fyrir félagsskap minnkaði ég ekkert samskiptin við hann, heldur jók þau ef eitthvað er. Samt sem áður vissi hann af ákvörðun minni um að vera ekki í sambandi.
Með honum leið mér eins og venjulegri manneskju, ekki lengur öðruvísi, ljóshærðu stelpunni frá eyjunni í Norðurhafi. Samt var hann alltaf frekar fjarrænn, eins og hann væri að dást að mér úr fjarlægð huga síns, eins og honum finndist ég og hann ekki eitthvað raunhæft. Um jólin fór ég svo heim og hann sigldi lengra í burtu, inn í næstu heimsálfu. Ég fattaði það meira um jólin hvað hann elskar mig… sérstaklega eftir að hann sagði mér það þegar við vorum að kveðjast og ég sagði “æ plís, ekki segja þetta” og ég þurfti að hlaupa afþví að sá sem var að gefa mér far heim var lagður af stað. Eftir jólin sneri ég svo til baka á suðrænar slóðir sem betur fer, tungumálið var farið að verða skýrara og skýrara og ég var ekki næstum því eins einmana, enda líka búin að kynnast fleirum sem tala ensku. En fókusinn minn var soldið á febrúar, því þá myndi vinur minn koma aftur. Ég kveið fyrir því, hnútur í maga í marga daga, hvernig ætti ég að fara að því að brjóta þetta fagra hjarta?
En þá kom að því, hann var kominn til baka, ég þurfti að bíða svo lengi en samt varla neitt. Ég fór í strætó til að hitta hann og hann ætlaði að bíða eftir mér. Ég faldi mig rétt áður en ég kom að endastöðinni, vildi ekki að hann sæi mig. Veit ekki hvaðan tilfinningin sem ég fékk þegar ég sá hann standa þarna kom, ég hef allavegana aldrei hitt hana áður, hún kom einhversstaðar lengst innan úr mér. Mér fannst ég sjá verðandi föður standa þarna og að ég ætti eitthvað í þeim börnum. Við föðmuðumst og það var svo gott, ég sem hélt það myndi verða vandræðalegt. Löbbuðum um göturnar í bænum og meðfram ströndinni, skiptumst á gjöfum og sögum frá ferðalögum okkar og borðuðum saman. Ég fann frið í hjarta og hugsaði “svona á lífið að vera”. Hvernig gat það verið, ég var ekkert skotin í honum, ennþá í afneitun.
Ákvað að bíða í 3 daga og á fjórða deginum ákvað ég í huga mér að hann ætti að koma til mín og tala við mig um framtíðina. Við áttum þrjá yndælis daga og á hverjum einasta fannst mér hann líta meira út eins og maður til að elska, eiga, alltaf. Svo rann upp fjórði dagurinn en við hittumst ekki fyrr en seint og fórum í göngutúr á flóðgarðinum við hliðina á smábátahöfninni, með útsýni yfir svartan sæinn og bæinn. Hann byrjaði að tala við mig um framtíðina og ég rausaði út úr mér hugsunum mínum og löngunum, hverju ég nennti og hverju ekki. Nenni nefnilega ekki að vera í sambandi bara til að vera í sambandi, það er allt eða ekki, í blíðu og í stríðu og ég nenni heldur ekki að fara á bak orða minna. Ég ætla að eiga ár fyrir mig, það er ekki strax búið, hann var herramaður, ekki sammála öllu sem ég sagði en reyndi eftir bestu getu að skilja. Við áttum nokkra daga í viðbót saman og á konudaginn fékk ég frá honum póstkort, sem hann hafði sent úr næstu heimsálfu, tók langan tíma að koma en kom á fullkomnum tíma. Ég skildi líka betur að hann er feiminn og finnst ekki auðvelt að tala en er ástríkur og umhyggjusamur, það er gott að vera í kringum hann, ég finn frið í hjarta með honum.
Svo þurfti hann að fara aftur í landið sitt, á leiðinni heim sendi hann mér email og sms, alltaf jafn falleg. Og þegar hann kom heim vildi hann hringja í mig á hverjum degi, mér fannst það óþægilegt. Hvað er að mér? Ég er svo hrædd, hef eytt svo miklum tíma í ást og rómantík en það er alltaf eins og það geti ekki enst, þarf ég að vinna í sjálfri mér? Já… ég þarf árið mitt, það er bráðum búið, ætli hann geti beðið, þó hann sé viljugur? Er að fara í landið hans eftir að ég er hér, það er hluti af prógraminu hérna, þá verður árið mitt bráðum búið. Hann varð sár síðast þegar við töluðum í síma, sendi mér email um að hann skildi þetta ekki, en væri að reyna, hann langaði bara svo mikið til að kynnast mér betur. Mér finnst að þegar talað er um eilífðina saman, hvað eru þá nokkrir mánuðir? Er ekki betra að þekkjast og vera vinir og vita hvað við eigum saman í stað þess að rjúka í samband og enda í ástarsorg, sem er eitthvað svo sjálfsagt og eiga svo ekkert saman í lokin. Getur þetta ekki verið öðruvísi, þarf formúlan alltaf að vera eins? Ég veit ekki hvort hjartað mitt afber önnur sambandsslit og hvað þá við þennan, þessi er ekki bara sérstakur, heldur sérstakari, þekki engan sem hefur elskað mig svona… hvernig fer ég að þessu? Ástin er sæt en samt eitthvað svo súr.
If you want to make an apple pie from scratch, you must first create the universe.